Guðlaug Björnsdóttir, útdráttur um MS verkefni, des. 2009.

“Um er að ræða langsniðsrannsókn þar sem valdir eru 1000 þátttakendur úr Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar. Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar hófst árið 2006 og fram til þessa hafa verið skoðaðir um 5500 einstaklingar á aldrinum 20-69 ára. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna áhættu einstaklinga fyrir hjarta- og æðasjúkdómum með hefðbundnum mæliaðferðum á áhættuþáttum en einnig að bæta við kerfisbundið nýjum mæliaðferðum. Vonir eru bundnar við að nýjar mæliaðferðir geti bætt áhættugreiningu. Meðal nýrra mælinga sem Hjartavernd hefur prófað er ómun af hálsslagæðum til mats á breytingum í æðavegg, m.a. æðaskellum og þykkt æðaveggjar.

Tengsl æðaskella og kransæðasjúkdóms.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á samband milli stærðar æðaskella í hálsslagæðum við kransæðastíflu og heilablóðfall. Vísbendingar eru um að tengsl samsetningar æðaskella við kransæðastíflu og heilablóðfall séu enn sterkari (Mathiesen et al., 2001). Þannig er talið að æðaskellur samsettar fitu og blóði fylgi meiri áhætta á áföllum en æðaskellur samsettar bandvef og kalki (Granholdt et al., 1998). Rannsóknir Hjartaverndar hafa sýnt fram á að einstaklingar með æðaskellu í hálsslagæðum eru líklegri til að fá kransæðasjúkdóm heldur en þeir sem ekki eru með æðaskellu.

Næstu skref á nýju ári.
Undanfarið ár hafa um 200 einstaklingar verið ómaðir í forrannsókn verkefnisins. Um er að ræða einstaklinga sem áður voru ómaðir fyrir 3-5 árum síðan í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Markmiðið með forrannsókninni er að þróa og prófa aðferðir og þjálfa starfsfólk. Næstu skref verða tekin í janúar, en þá mun fullprófuð aðferð verða tekin í notkun. Þá verða um 1000 þátttakendur Áhættuþáttakönnunarinnar sem skoðaðir voru með ómun fyrir um 3 árum, skoðaðir aftur og leitast er við að taka sem sambærilegastar myndir. Myndirnar úr báðum heimsóknum verða svo metnar m.t.t. breytinga í stærð og samsetningu æðaskella. Til að tryggja sambærilega uppsetningu eru myndir fyrri ómrannsóknar hafðar til hliðsjónar á tölvuskjá við framkvæmd seinni ómrannsóknar.

Ómun hálsslagæða er framkvæmd með Acuson Sequoia C256 ómtæki með ómhaus (probe) 8L5c sem gefur tíðnina 8MHz. Ómað er fyrir æðaskellum frá tveim vinklunum hvoru megin. Stök mynd frá myndskeiði ómunar er valin til mælinga út frá greinanleika og stærð æðaskellu við mót aðal (CCA)-, innri (ICA)- og ytri (ECA hálsslagæða. Því næst eru útlínur æðaskellunnar teiknaðar (sjá mynd 2 og 3) og hugbúnaðurinn reiknar út flatarmál og gefur gráskalagildi sem lýsir samsetningu æðaskellunnar (mynd 4). Þannig eru æðaskellur með hátt gráskalagildi meira samsettar kalki og bandvef heldur en æðaskellur með lágt gráskalagildi sem eru meira samsettar úr fitu og blóði. Niðurstöður fyrri mælingar eru því næst bornar saman við niðurstöður seinni mælingar.

Forrannsókn er um þessar mundir að ljúka og hefur aðlögun og prófun aðferðarinnar ásamt þjálfun starfsfólks gengið vel. Um er að ræða nýmæli við notkun á ómun til að meta langtíma breytingar í samsetningu og stærð æðaskella. Vonir eru bundnar við að aðferðin auki skilning á sambandi breytinga í stærð og samsetningu æðaskella við orsakaþætti. Einnig að rannsóknin leiði til öflugri forvarna gegn hjarta og æðasjúkdómum.

Heimildir:

Granholdt MLM, Nordestgaard BG, Wiebe BM, Wilhjelm JE, Sillesen H (1998). Echo-lucency of computerized ultrasound images of carotid atherosclerotic plaques are associated with increased levels of triglyceride-rich lipoproteins as well as increased plaque lipid content. Circulation 97(1):34-40.

Mathiesen EB, Bonaa KH, Joakimsen O (2001). Echolucent plaques are associated with high risk of ischemic cerebrovascular events in carotid stenosis – The Tromso Study. Circulation 103(17):2171-2175.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *