Geislun er orð sem því miður vekur oft ugg hjá fólki. Þess vegna er mikilvægt að starfsfólk myndgreiningarstöðva haldi vel við sinni þekkingu, gefi upplýsingar og geti svarað spurningum.
Hér á eftir fer stutt ágrip um geislun og geislavarnir, lauslega byggt á efni frá Geislavörnum ríkisins og fleiri stöðum. Eingöngu er fjallað um röntgen- og gammageislun í tengslum við myndgreiningu á heilbrigðissviði.
Um geislameðferð í lækningaskyni gegnir öðru máli þar sem verið er að nota allt að þúsund sinnum meiri geislun en við myndgreininguna.
Iðnaðarröntgen hefur sérstöðu þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af óæskilegum áhrifum á myndefnið og þeir sem mynda geta auðveldlega forðast að verða fyrir geislun.
Notagildi geislunar.
Við myndgreiningu er fyrst og fremst notuð röntgen- og gammageislun. Röntgengeislunin við hefðbundnar rannsóknir, t.d. á beinum, tönnum, meltingarfærum og lungum, ásamt æðaþræðingum brjóstamyndatökum og tölvusneiðmyndun. Gammageislunin tilheyrir ísótóparannsóknum þar sem geislavirk efni eru notuð við rannsóknir á starfsemi ýmissa líffæra. Þessar tvær tegundir geislunar hafa mjög svipuð áhrif á líkamann, í þeim skömmtum sem notaðir eru við myndgreiningu.
Notagildi geislunar í læknisfræði er mjög mikið og til marks um það má nefna að um 98% þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús þurfa í einhverja tegund rannsóknar á myndgreiningardeild.
Ekkert er gallalaust.
Gallinn er sá að röntgen- og gammageislun er jónandi. Þetta eru rafsegulbylgjur af sama toga og sýnilegt ljós en með u.þ.b. 10.000 sinnum styttri bylgjulengd. Því styttri sem bylgjulengdin er því orkuríkari eru rafseglulbylgjurnar og þess vegna smjúga röntgen- og gammageislar í gegnum margt það sem sýnilegt ljós endurkastast af. Um leið og geislarnir smjúga í gegnum líkamsvefi verður einskonar keðjuverkun þar sem þeir losa ýmist hlaðnar agnir eða fótónur sem aftur valda jónun (hleðslubreytingu) í frumum.
Skaðleg áhrif.
Kjarnsýrurnar (DNA) í litningum frumanna eru viðkvæmastar fyrir áhrifum geislunar. Ef á þeim verður stórfelld skemmd dregur það frumuna til dauða. Hún getur hinsvegar lifað með litla skemmd en þá er hætta á að hún eða afkomendur hennar skipti sér með óeðlilegum hætti og úr verði krabbamein eftir einhver ár eða jafnvel áratugi. Algengast er þó að fruman lagfæri skemmdirnarog enginn varanlegur skaði hljótist af.
Fleira skiptir máli.
Hafa verður hugfast að fólk fær ekki eingöngu á sig geislun við röntgenmyndatökur og skyldar rannsóknir heldur er hún alltaf til staðar í umhverfi okkar (bakgrunnsgeislun) og þess vegna verða allar frumur í líkama mannsins fyrir einhverri geislun árlega.
Ekki má heldur gleyma að magt fleira en jónandi geislun getur valdið skaða á DNA. Þar er um að ræða ýmis efnasambönd, t.d. í tóbaksreyk, og útfjólubláa geislun, í sólarljósi og geislum ljósabekkja.
Tilviljanakenndur skaði.
Skaði af þeirri gerð sem valdið getur krabbameini flokkast sem tilviljanakenndur skaði. Geislaálagið ræður líkunum á því hvort slíkur skaði verður en ekki stærð skaðans. Lítil geislun skapar því hverfandi litla áhættu en aldrei er hægt að segja að hún sé fullkomlega hættulaus.
Við myndgreiningu er notað lítið magn geislunar og hætta á skaða að sama skapi mjög lítil en vegna þess að aldrei má fullyrða að geislun sé hættulaus, hversu lítil sem hún er, fylgir starfsfólk myndgreiningarstöðva ströngum geislavarnareglum.
Reglur og leiðbeiningar.
Hérlendis gefa Geislavarnir ríkisins út reglur varðandi notkun jónandi geislunar. Stofnunin hagar starfsemi sinni í samræmi við ráðleggingar Alþjóðageislavarnaráðsins (ICRP) sem stofnað var 1925. Takmarkið er alltaf að halda geislaskömmtum eins lágum og mögulegt er með skynsamlegu tilliti til aðstæðna. Mikilvægast er að rannsóknin skili sem bestum árangri fyrir þann sem rannsakaður er. Aldrei má láta minnkun geislaskammts rýra greiningargildi.
Hvar eru geislavarnirnar?
Vinna eftir geislavarnareglum byrjar ekki á myndgreiningardeildum. Ein mikilvægasta reglan finnst í riti Geislavarna ríkisins nr. 01:90, grein 4:1: Óþarfa röntgenrannsóknir ber að forðast. Í hverju tilfelli skulu liggja fyrir læknisfræðilegar ástæður fyrir röntgenrannsókninni.
Fyrsti hluti geislavarna er þannig í höndum þess læknis sem skoðar manneskju og ákvarðar hvort gera þurfi rannsókn sem jónandi geislun er notuð við.
Mikilvægi tækni og hönnunar.
Þeir sem hanna húsnæði myndgreiningardeilda og sjá um að tæknilegur öryggisbúnaður tækjanna sé í lagi gegna einnig lykilhlutverki. Rétt niðurröðun í húsnæði og viðeigandi blýskermun, t.d. í veggjum og gluggum, er eitt af því sem miklu máli skiptir. Aðstaða starfsfólksins er einnig mikilvæg því oft veltur á vinnuaðstöðunni hversu einfalt eða flókið er að fara eftir geislavarnareglum.
Tækjabúnaðurinn og eftirlit með honum er að sjálfsögðu stór þáttur. Fjölmargt þarf að vera til staðar og starfa rétt í hverju tæki svo geislaálag á þann sem verið er að rannsaka sé sem minnst.
Menntun og þjálfun.
Menntun starfsfólksins, bæði grunnmentun og símenntun, er einnig grundvallaratriði í því að minnka geislaálag. Þekking á geislaeðlisfræði ásamt kunnáttu og þjálfun á þau tæki sem unnið er með getur skipt sköpum og ekki síður læknisfræðileg kunnátta við framkvæmd rannsókna. Sá sem fer í rannsókn á myndgreiningardeild sér fyrst og fremst hvernig starfsfólkið notar blývarnir, t.d. setur á hann svuntu eða leggur blýdúk undir filmuhylki, en þær eru aðeins einn af fjölmörgum þáttum í geislavörnum hans.
Samvinna sem ber árangur.
Af þessu má ráða að geislavarnir þeirra sem í rannsóknir koma byggja á samvinnu fjölda fólks sem sumt hefur aldrei hist eða ræðst við. Tækjaframleiðendur, hönnuðir, tæknimenn, læknar, geislafræðingar, starfsmenn geislavarnastofnana og margir fleiri leggja sitt af mörkum til að undraverðir eiginleikar geislunarinnar komi að sem mestum notum en gallar hennar hafi sem allra minnst áhrif.
Meira – Geislavarnir ríkisins.
Allar reglur Geislavarna ríkisins ásamt leiðbeiningum og fræðsluefni má finna á vefsíðu stofnunarinnar.
Edda Aradóttir, 29.07.02.