Upphafið

Raförninn var stofnaður í maí 1984 af Smára Kristinssyni og fleirum. Í fyrstu var Raförninn eins manns fyrirtæki til húsa í einu herbergi en stækkaði fljótt og jók vænghafið.

Umsvif voru lítil í fyrstu og unnin í hjáverkum með annarri vinnu. Fyrsta stóra verkefnið var undirbúningur að vali á búnaði og þjónustu fyrir röntgendeild Krabbameinsfélags Íslands. Það verkefni hófst 1986. Um svipað leyti hófst undirbúningur að endurhönnun röntgendeildar St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, ásamt útboði og uppsetningu á tækjum, og var það fyrsta deildin sem Raförninn hannaði.