Maí 11 2017

Ásmundur Brekkan – minning

IMG_1677Ásmundur Brekkan röntgenlæknir og prófessor emeritus lést 11. aprí s.l.
Útför hans var gerð frá Neskirkju þann 8.maí.

Ég hitti Ásmund Brekkan fyrst þegar ég sótti um vinnu tæknimanns við röntgendeild Borgarspítalans árið 1979. Ég fékk starfið og vann náið með Ásmundi og öðru starfsfólki röntgendeildarinnar í Fossvoginum næstu árin.
Engin lognmolla var kringum Ásmund, enda maðurinn hrifnæmur, kappsamur eldhugi, nokkuð ör í skapi og ekki allra. Metnaður fyrir hönd starfseminnar var ótvíræður þótt ekki væru menn þá frekar en nú, ætíð sammála um stefnuna.

Ásmundur telst klárlega brautryðjandi í læknisfræðilegri myndgreiningu á Íslandi. Hann var primus mótor við undirbúning og opnun röntgendeildar Borgarspítalans í Fossvogi 1966 og fyrsti yfirlæknir deildarinnar. Þetta var mikið framfaraskref í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, því bið eftir rannsóknum var þá veruleg. Deildin byrjaði starfsemi í nýjum húsakynnum, með nýjum og vönduðum tækjabúnaði, en eins og jafnan á Íslandi var síðan snúið að sækja fé til framfara, viðhalds og endurbóta. Það var lærdómsríkt að kynnast þessari um margt undalegu baráttu og hernaðarlist sem beita þurfti í samskiptum við fjárveitingavaldið.
Minnisstætt er ferlið þegar Ásmundur hafði forgöngu um að Borgarspítalinn tæki í notkun fyrsta tölvusneiðmyndatæki landsins árið 1981, en tölvusneiðmyndatæki voru upphafsskref til stafrænnar tæknibyltingar, sem átti eftir að gjörbreyta greiningarmætti læknisfræðilegrar myndgreiningar á næstu árum og áratugum.

Ásmundur lagði mikla áherslu á að fá til starfa í sínu teymi færa einstaklinga á öllum sviðum. Urðu rökræður oft býsna harðar í hans hópi en Ásmundur mat það við fólk ef það stóð fast á sínu með skýrum rökum og lét þá gjarnan sannfærast og skipti um skoðun, nokkuð sem er frekar sjaldgæft hérlendis.
Hann var maður augnabliksins, skarpur, næmur og viðkvæmur, sem gat verið tvíeggjað í dagsins önn. Þannig gátu dagarnir á röntgendeild BSP verið býsna litríkir á köflum en vinnuandinn var að jafnaði góður og fólk stolt af sínum störfum.

Seinna varð Ásmundur yfirlæknir röntgendeildar Landspítalans og prófessor við Háskóla Íslands.
Á kveðjustund er þakkað fyrir góða leiðsögn og trausta samvinnu.
Með samúðarkveðjum til fjölskyldu og ættingja hins látna.

Smári Kristinsson

.

Mar 26 2017

Það sem ekki sést á mynd

file000884219889Það taldist til tíðinda á ECR 2017 að fjallað var um streitu, kulnun í starfi og andlega heilsu myndgreiningarfólks. Allt fram á síðustu ár hafa hlutir sem ekki er hægt að rannsaka með myndgreiningu fengið lítið pláss á faglegum samkomum og umfjöllun um líðan fagfólksins sjálfs nær eingöngu takmarkast við líkamlega þáttinn.

Hvers vegna ekki?
Það eru örugglega bæði margar og flóknar ástæður fyrir því að andleg heilsa heilbrigðisstarfsfólks almennt hefur lítið verið til umræðu á hinum ýmsu ráðstefnum og þingum. Meðal annars má velta fyrir sér hvort fagfólk óttist að skjólstæðingarnir treysti því síður ef það opinberar að ekki líði öllum vel í vinnunni. Nú eða hvort einstaklingar hafi áhyggjur af að missa vinnuna ef upp kemst að þeir “ráði ekki við álagið”.
Hvað myndgreiningarfólk varðar þá getur ein ástæðan verið sú að stór hluti okkar er mjög tæknilega sinnaður og á e.t.v. erfitt með að ræða það sem “ekki sést á mynd”. Kanski veigra þeir sem skipuleggja ráðstefnur sér við að setja þannig efni á dagskrána, óttast að viðburðurinn þeirra verði ekki tekinn jafn alvarlega og fólk mæti ekki.

Þokast fram í sviðsljósið
Það má velta þessu fyrir sér fram og aftur en það eru áreiðanlega flestir sammála því að það hafi verið kominn tími til að brjóta ísinn og stóru samtökin í heimi myndgreiningarfólks, RSNA og ECR, ganga á undan með góðu fordæmi.
Það var töluvert fjallað um kulnun í starfi á RSNA ráðstefnunni í lok síðasta árs og á ECR ráðstefnunni nú í byrjun mars var vakin athygli á þessum málum á opnunarhátiðinni og í heiðursfyrirlestri á ráðstefnunni.
Stutta kynningu má sjá í viðtali AuntMinnieEurope við dr. Mauricio Castillo sem flutti fyrrnefndar heiðursfyrirlestur http://www.auntminnieeurope.com/index.aspx?sec=rca&sub=ecr_2017&pag=dis&itemId=614148 og í kjölfarið birtist áhugaverð frétt á vefsíðunni. http://www.auntminnieeurope.com/index.aspx?sec=rca&sub=ecr_2017&pag=dis&itemId=614164

Heilbrigðir heilbrigðisstarfsmenn
Íslenskt myndgreiningarfólk á áreiðanlega við svipuð vandamál að stríða og kollegar okkar erlendis og aldrei verður nógu oft undirstrikað mikilvægi þess að huga að eigin heilsu, bæði líkamlegri og andlegri.
Benda má á að kulnun í starfi er meðal þess sem verður til umfjöllunar á Norræna þinginu í Reykjavík í sumar.

.

Mar 26 2017

Sérfræðinefnd innan Lyfjastofnunar Evrópu mælir með að ákveðin MR-skuggaefni verði tekin af markaði

gdSérfræðinefnd innan Lyfjastofnunar Evrópu, Pharmacovigilance Risk Assessment Working Party (PRAC) sendi nýlega frá sér tilkynningu þar sem mælt er með að fjórar tegundir skuggaefna fyrir segulómrannsóknir verði teknar af markaði, vegna uppsöfnunar þeirra í heilavef. Næsta skref er að sérfræðinefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn, Committee for Medicinal Products for Human Use (CHMP) fer yfir málið og einnig hafa framleiðendur möguleika á að fara fram á endurumfjöllun.

Ráðleggingar í varúðarskyni
Þetta eru allt “linear” Gadolinium skuggaefni og sum meðal þeirra sem algengast er að nota hérlendis. Í grein hjá AuntMinnie Europe má meðal annars sjá að vörumerkin eru Magnevist frá Bayer Healthcare, MultiHance frá Bracco, Omniscan frá GE Healthcare og Optimark frá Guerbet.
Rétt er að undirstrika að öll skuggaefnin eru enn á markaði og engar takmarkanir á notkun þeirra. Í tilkynningu frá Lyfjastofnun Evrópu er einungis mælt með að þau verði tekin af markaði í varúðarskyni og eins og áður segir er bæði eftir að fjalla nánar um málið hjá stofnuninni og eins hafa framleiðendur tækfæri til að óska eftir endurupptöku þess.

Lyfjastofnun á Íslandi birtir nýjustu upplýsingar
Í frétt frá Lyfjastofnun hérlendis er meðal annars bent á að ekki hafi verið sýnt fram á heilaskaða vegna upphleðslu þessara efna og ekki sé heldur vitað um langtímaáhrif á heila en lítið sé til af gögnum til að sanna eða afsanna áhættu tengda þessari uppsöfnun í heila.
Arnartíðindi höfðu samband við Hrefnu Guðmundsdóttur, sérfræðing hjá Lyfjastofnun, og sagði hún erfitt að segja til um hvenær málslok yrðu. Að svo stöddu hefði Lyfjastofnun sent tilkynningu til Landspítala og til formanns Félags röntgenlækna á Íslandi, auk þess sem nýjustu upplýsingar væri alltaf að finna á vefsíðu stofnunarinnar.

Félag íslenskra röntgenlækna fylgist vel með
Hjá Maríönnu Garðarsdóttur, formanni FÍR, fengust þær upplýsingar að félagið hefði um nokkurn tíma vitað af þessari athugun á “linear” Gd skuggaefnum og í tengslum við það hefði nýlega verið haldinn fræðslufundur um þessi mál. Stjórn félagsins hefur verið í góðum samskiptum við Lyfjastofnun og fylgist grannt með málinu.
Maríanna bætti við að á Landspítalanum hefðu engar ákvarðanir verið teknar enn, enda eins og áður segir aðeins um ráðleggingar að ræða. Möguleikar á notkun skuggaefna þar sem Gd er bundið í hringlaga sameindir (macrocyclic) væru í skoðun en fyrst og fremst fylgst vel með umræðu, m.a. hvort einhverjir ákveða að hætta notkun “linear” skuggaefnanna.

Fyrirlestur um Gd uppsöfnun verður á Nordic Congress of Radiology & Radiography
Uppsöfnun á Gd í heilavef er eitt af því sem var til umfjöllunar á RSNA ráðstefnunni nú fyrir áramót og meðal þess sem hefur blásið nýju lífi í umræður um öryggismál við MR rannsóknir. Nokkur atriði um þetta má sjá í grein sem birtist hér á raforninn.is í ársbyrjun.
Einnig er rétt að minna á að strax fyrsta daginn á norræna þinginu sem haldið verður í Reykjavík dagana 29. júní til 1. júlí nk. verður Emanuel Kanal með fyrirlesturinn “Intracranial and total body gadolinium accumulation – update regarding findings and ramifications” sem enginn úr hópi myndgreiningarfólks ætti að láta framhjá sér fara.

Arnartíðindi þakka Hrefnu og Maríönnu fyrir.

.

Mar 13 2017

Þjónustukönnun meðal notenda heilbrigðisþjónustu

sakEmbætti Landlæknis setti nýlega af stað tilraunaverkefni sem snýst um þjónustukönnun meðal notenda heilbrigðisþjónustu. Til reynslu fer könnunin fram á fjórum stöðum á landinu, hún er gerð á rafrænan hátt og geta stjórnendur á stöðunum nýtt vikulegar niðurstöður til umbótastarfs. Áhugavert gæti verið fyrir röntgendeildir að gera slíkar þjónustukannanir hjá sér þegar verkefninu vindur fram.

Tilraunaverkefni á fjórum stöðum á landinu
Könnunin var nýlega sett af stað á Heilsugæslunni í Grafarvogi, Heilsugæslunni á Sauðárkróki, bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri og hjarta-, lungna- og augnskurðdeild Landspítala. Í frétt á vefsíðu Embættis landlæknis segir meðal annars að embættið vilji vekja athygli á hversu reynsla notenda sé verðmæt uppspretta upplýsinga sem nýtast í umbótastarfi og þar skipti þjónustukannanir miklu máli.

Áhugaverðar niðurstöður strax farnar að skila sér
Arnartíðindi leituðu upplýsinga hjá Lauru Scheving Thorsteinsson, sem er staðgengill sviðsstjóra sviðs eftirlits og gæða hjá Embætti landlæknis, og sagði hún að tilraunaverkefnið stæði í eitt ár en þegar væru farnar að skila sér áhugaverðar niðurstöður. Of snemmt væri þó að birta neitt ennþá en vonast væri til þess að næstu fréttir gætu birst í maí nk. Hún sagði mikilvægt að nýta vel tímann á meðan tilraunaverkefnið væri í gangi, sníða af vankanta og meta kosti og galla, ásamt því að ákveða framhaldið.

“Við höfum þegar heyrt frá fólki sem hefur mikinn áhuga á að geta gert slíka könnun hjá sér og við fögnum því að áhugi er fyrir hendi,” sagði Laura. “Það er hægt að gera þessar kannanir hvar sem er í heilbrigðisþjónustu og aðhæfa spurningalista ef þörf krefur, til dæmis mætti vel hugsa sér að gera svona könnun á myndgreiningardeild.”

Spennandi innlegg í gæðastarf
Í myndgreiningu, eins og annarsstaðar í heilbrigðisþjónustu, hefur fókus á gæði þjónustu aukist mjög á síðustu árum og hérlendis hefur meðal annars mátt merkja það á sífellt meiri áhuga og aðsókn á Gæðavísisráðstefnum Rafarnarins.
Málaflokkurinn fékk mikla athygli á síðustu RSNA ráðstefnu í Chicago og meðal þess sem fram kom á “Quality Improvement Symposium” ráðstefnunnar var að í niðurstöðum kannana hefur orðið vart við óvæntan mismun á því sem myndgreiningarfólk telur mikilvægast fyrir gæði þjónustunnar og hvað notendum þjónustunnar finnst mikilvægast.
Í grein í veftímaritinu Diagnostic Imaging má sjá að í starfi Commission on Patient-and Family-Centered Care hjá bandarísku samtökunum American College of Radiology hefur komið í ljós að um 90% af því sem sjúklingar telja hafa mest virði í þjónustunni sem þeir fá snýr að öðru en læknisfræðilega hlutanum. Nefnt er að til að meta raunverulegt virði heilbrigðisþjónustu í nútíma samfélagi sé nauðsynlegt að spyrja sjúklinga réttu spurninganna og nýta innlegg þeirra í að finna bestu lausnirnar.

Þjónustukannanir á myndgreiningardeildum?
Líklegt er að það væri mjög gagnlegt fyrir myndgreiningardeildir að geta gert þjónustukannanir hjá sér, eins og nú eru komnar af stað í tilraunaverkefni Embættis landlæknis. Það verður þess vegna sérlega áhugavert að fylgjast með framvindu verkefnisins og sjá hvert framhaldið verður.

Arnartíðindi þakka Lauru fyrir.
.

Mar 01 2017

ESR – Gæði & öryggi

esGæðamál og öryggi sjúklinga eiga alltaf að vera ofarlega á baugi og nú er upplagt að benda á nýlega uppfært efni í flokknum „Quality & Safety“ á vefsíðu European Society of Radiology. Þar eru m.a. góðar upplýsingar um ákvarðanastuðningskerfið ESR iGuide sem oft hefur verið minnst á hér á raforninn.is og var í brennidepli á einni af Gæðavísisráðstefnum Rafarnarins.

Rauður gæða- og öryggisþráður
Eins og segir á síðunni hjá ESR þá eru gæði þjónustu og öryggi sjúklinga rauður þráður í gegnum allt starf samtakanna. Ýmis verkefni, nefndir, rannsóknir og fleira er stöðugt í gangi og má lesa um það allt í fyrrnefndri „Quality & Safety“ undirsíðu.

ESR iGuide
Eitt af því stærsta og mikilvægasta er evrópskt ákvarðanastuðningskerfi fyrir myndgreiningu, ESR iGuide sem er byggt upp með þarfir tilvísandi lækna í huga en nýtist einnig til að auka gæði og öryggi á myndgreiningardeildum.

Í viðbót við þetta má einnig benda á helstu dagskrárliði sem tengjast iGuide á ECR 2017 og hægt er að fylgjast með, eða horfa á upptökur frá, á ECR Online.

Professional Challenges Session (PC 9)
Implementing and Evaluating Clinical Decision Support (CDS) for Imaging Referral Guidelines
Friday, March 3, 8:30-10:00, Studio 2017

ESR meets the United States of America: Precision imaging and patient experience (EM 2)
Clinical Decision Support lecture by Dr Keith Dreyer, Boston, MA/US
Future directions in decision support (ESR/ACR/RSNA leaders)
Saturday, March 4, 10:30-12:00, Room B

Scientific Session (SS 1805)
Clinical decision support and structured reporting
Sunday, March 5, 10:30-12:00, Room M

.

Mar 01 2017

ECR 2017

Blómapottur ársins. Mynd: Maríanna Garðarsdóttir

Blómapottur ársins. Mynd: Maríanna Garðarsdóttir

Stóra Evrópuráðstefna myndgreiningarfólks, ECR í Vínarborg, er alltaf glæsilegur og áhugaverður viðburður og í þetta sinn var hún haldin 1. – 5. mars. Það var frekar fámennt en sérlega góðmennt í Íslendingahópnum í ár og faglegur metnaður í fyrirrúmi eins og ætíð.
Arnartíðindi fylgdust með af hliðarlínunni og eitt og annað skemmtilegt skaut upp kollinum á Facebook.

Ráðstefna í stöðugri þróun
Að vanda var ráðstefnan haldin í Austria Center Vienna, þar sem umgjörðin er glæsileg ásamt því að húsakynni og tækni halda vel utanum svo stóran viðburð.
Það er European Society of Radiology sem heldur ráðstefnuna, hún er í sífelldri þróun og eitt af því sem lögð hefur verið áhersla á undanfarin ár er að miða dagskrá og markaðssetningu meira að geislafræðingum, auk þess sem tæknisýningunni hefur verið gert hærra undir höfði.

Stærri, fjölbreyttari, flottari
Dagskráin var geysilega fjölbreytt og hægt er að skoða hana bæði í heild og eftir ýmsum flokkum, t.d. alla dagskrárliði sem merktir eru sérlega áhugaverðir fyrir geislafræðinga.
Einnig má benda á mjög vandað yfirlit um útdrætti, “abstracts”, frá ECR 2017 sem birtist í aukahefti af tímaritinu “Insights into Imaging” og er hægt að hlaða niður frítt hjá Springer Link.

Íslendingar á ferð og flugi
Íslendingar áttu sinn fulltrúa í dagskránni en strax á fyrsta degi ráðstefnunnar stýrði Maríanna Garðarsdóttir, röntgenlæknir, Scientific Session SS 303 sem snerist um hjartarannsóknir og bar þá skemmtilegu yfirskrift “Cardiac function: What is hot?”
Auk þess var að sjálfsögðu lagt mikið í kynningu á Norræna þinginu, “Nordic Congress of Radiology” sem haldið verður í Reykjavík 29. júní – 1. júlí næstkomandi. Maríanna var þar fremst í flokki og fleiri Íslendinga mátti líka sjá á kynningarbás þingsins.

Aðgengi að efni frá ráðstefnunni
Þeir sem heima sátu áttu þess kost að fylgjast með ráðstefnunni á ECR Online, þar sem boðið var upp á beinar útsendingar á meðan hún stóð yfir. Einnig er hægt að horfa á upptökur frá dagskrárliðum og sú leið er áfram opin að ráðstefnunni lokinni. Þessi þjónusta er ókeypis og yfir 1500 dagskrárliðir aðgengilegir!

Einnig er Minna frænka í Evrópu með klassískt “RADCast” frá ECR 2017 þar sem hægt er að skoða fréttir, viðtöl, ljósmyndir, video og allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Svo má heldur ekki gleyma Facebook, bæði síðu ESR og síðu Rafarnarins 🙂

Raförninn þakkar þeim sem sendu myndir og annað skemmtilegt. Myndasyrpan hér fyrir neðan er í boði Örnu Ásmundardóttur hjá Röntgen Domus.

Myndgreining áberandi utandyra sem innan.

Myndgreining áberandi utandyra sem innan.


Stórir fyrirlestrasalir...

Stórir fyrirlestrasalir…


...og minni fyrirlestrasalir

…og minni fyrirlestrasalir


Alltaf skemmtiatriði í hádeginu

Alltaf skemmtiatriði í hádeginu


Biðröð þegar tæknisýningin var að opna

Biðröð þegar tæknisýningin var að opna


Mannfjöldinn kominn inn á tæknisýninguna

Mannfjöldinn kominn inn á tæknisýninguna


Liggur leiðin frá Vínarborg til Mars??

Liggur leiðin frá Vínarborg til Mars??


Æfing fyrir Marsferð

Æfing fyrir Marsferð


Þrívíddarprentari að prenta höfuðkúpu

Þrívíddarprentari að prenta höfuðkúpu


Hér er komin heil þrívíddarprentuð beinagrind, með meiru

Hér er komin heil þrívíddarprentuð beinagrind, með meiru


Lúxus úrlestrarstöð, draumur röntgenlæknisins :)

Lúxus úrlestrarstöð, draumur röntgenlæknisins :)


Ráðstefnugestir settu svip sinn á jarðlestakerfið

Ráðstefnugestir settu svip sinn á jarðlestakerfið


Sólarlag í hinni fögru Vínarborg

Sólarlag í hinni fögru Vínarborg

Feb 21 2017

Íslendingar á ECR 2017

Eins og undanfarin ár taka Arnartíðindi saman lista yfir íslenskt myndgreiningarfólk sem frést hefur að ætli á European Congress of Radiology í Vínarborg.
Þeir sem vilja láta bæta nafni sínu á listann eru beðnir að hafa samband við ritstjóra með tölvupósti (edda@raforninn.is), á Facebook eða í síma 860 3748.
Þeir sem vilja láta fjarlægja nafn sitt af listanum, eða óska eftir að það verði ekki birt, eru einnig beðnir að láta vita.

Arna Ásmundardóttir ………………………………….. LM Domus

Elsa Dögg Áslaugardóttir …………………………….. LM Domus

Guðmundur J. Elíasson ………………………………. LM Domus

Guðrún Dís Magnúsdóttir …………………………….. LM Domus

Hlöðver Þorsteinsson ………………………………… Einar Farestveit

Jörgen Albrechtsen …………………………………… LM Domus

Magnús Lúðvíksson ………………………………….. LM Domus

Maríanna Garðarsdóttir ………………………………. LSH

Rannveig Fannberg ………………………………….. Healthco

Skúli Óskar Kim ………………………………………. Regionshospitalet Silkeborg

.

Feb 07 2017

Framadagar háskólanna 2017

Frá Framadögum 2016

Frá Framadögum 2016

Framadagar háskólanna voru haldnir í Háskólanum í Reykjavík fimmtudaginn 9. febrúar og í ár tóku Raförninn og Image Owl í sameiningu þátt í þriðja sinn. Viðburðurinn er á vegum ungmennasamtakanna AIESEC og skipulagður af nemendum úr háskólum landsins, með það fyrir augum að tengja háskólanema og atvinnulífið.

.
Fastur liður í háskólalífinu
Framadagar hafa verið haldnir allt frá árinu 1994 og viðburðurinn fer sífellt stækkandi. Nemendur fá tækifæri til að nálgast upplýsingar um hvert fyrirtæki og komast í kynni við starfsmenn þess með því að heimsækja bása sem fyrirtækin setja upp, auk þess sem hægt er að sækja spennandi örfyrirlestra úr ýmsum áttum og fleira áhugavert er í boði. Upplýsingar er meðal annars hægt að fá á vefsíðu Framadaga og á Facebook.

Kynning á gæðamælingakerfum og fleiru
Ingvi Steinn Ólafsson hélt utanum þátttöku Rafarnarins/Image Owl í Framadögum en margir fleiri úr starfsmannahópnum komu að verkefninu.

Að sögn Ingva var höfuðmarkmiðið almenn kynning á starfsemi fyrirtækisins og voru hinar ýmsu þjónustur kynntar, meðal annars gæðamælingakerfin TQA og CatphanQA og TomoQA. Prófunarlikön (phantom) voru til sýnis og gestum sem komu í básinn bauðst að taka með sér minjagrip, sérlega flottan lyklahring sem er jafnframt vasaljós og flöskuopnari.

Starfsfólk Rafarnarins/Image Owl þakkar öllum sem kynntu sér starfsemi fyrirtækisins.

.

jan 27 2017

Framúrskarandi fyrirtæki 2016

Framuskarandi2016Raförninn hefur verið valinn eitt af framúrskarandi fyrirtækjum á Íslandi, sjötta árið í röð, og er í hópi traustustu fyrirtækja landsins. Starfsfólk Rafarnarins er stolt af þessari viðurkenningu og stefnir á að halda rekstrinum áfram á sömu braut, um leið og sífellt er unnið að því að veita viðskiptavinum sem besta þjónustu.

Síðastliðin sjö ár hefur Creditinfo unnið ítarlega greiningu sem sýnir rekstur hvaða íslensku fyrirtækja telst til fyrirmyndar. Að þessu sinni komust 624 fyrirtæki á listann af þeim rúmlega 35.000 sem skráð eru í hlutafélagaskrá. Á þennan lista komast eingöngu þau fyrirtæki sem staðist hafa styrkleikamat Creditinfo og uppfylla ströng skilyrði sem lögð eru til grundvallar við greininguna.

Við valið eru síðustu þrír ársreikningar fyrirtækja lagðir til grundvallar og þurfa þau meðal annars að sýna fram á jákvæðan rekstrarhagnað og ársniðurstöðu. Horft er til stöðugleika í rekstri frekar en afkomu einstakra ára, eignir þurfa að vera meira en 80 milljónir þrjú rekstrarár í röð og eigið fé 20% eða meira. Einnig þurfa fyrirtækin að vera í flokki 1-3 í CIP áhættumati Creditinfo.

Eins og áður segir hefur Raförninn hlotið þessa viðurkenningu ár hvert frá og með árinu 2011.

Sjá nánar á vef Creditinfo.

.

jan 09 2017

MR öryggismál

20160923_101522Þegar litið er á efni frá RSNA 2016 ber mikið á umfjöllun um sjálfvirk þekkingar- og ráðgjafarkerfi og möguleika til að láta þau “læra”. Notkun þrívíddarprentunar rís líka hátt og ýmislegt fleira nýstárlegt en eitt af því sem er kunnuglegra en fær nú endurnýjaða áherslu er öryggi við MRI rannsóknir. Þessi áhersla sést víðar, meðal annars á dagskrá Norrænu röntgenráðstefnunnar í Reykjavík næsta sumar.

Kunnugleg atriði og nýtt landslag
Síðastliðin 5 – 10 ár hefur þróun tækjabúnaðar, bæði segulómtækjanna sjálfra en ekki síst ýmiskonar tækja til meðhöndlunar sjúkdóma, fært MRI starfsfólki aukna möguleika en um leið gert umhverfið enn meira krefjandi. Allskyns ígræddir hlutir verða sífellt fjölbreyttari og hlutfall sjúklinga sem eru með þesskonar búnað hækkar stöðugt.
Tískusveiflur í líkamsskreytingum eru endalausar og oft erfitt að vita hvort eða hvar á líkamanum þær eru og hvort segulsviðið hefur áhrif á þær.
Notkun skuggaefna í æð hefur alltaf vissa hættu í för með sér og nýlegar upplýsingar um að Gadolinium geti safnast fyrir í heilavef bæta við flóru þeirra atriða sem hafa þarf í huga.
Það getur verið erfitt að samræma vandað öryggisferli og kröfuna um að starfsemin gangi sem hraðast fyrir sig og svona mætti lengi telja.
Ekkert af þessu er nýtt, nema þá helst vitneskjan um Gadolinium uppsöfnun í heilavef, en fjöldi tilvika og flækjustig er í stöðugum vexti og vandað og samræmt öryggisferli hefur aldrei verið mikilvægara.

Skuggaefni og uppsöfnun Gd í heilavef
Að vanda er að finna góða samantekt hjá Minnu frænku á efni frá RSNA, meðal annars þau fimm atriði sem ritstjórnarteymi vefsíðunnar metur stærst.
Í þeim hópi er umfjöllun um MRI skuggaefni og mögulega hættu af uppsöfnun Gadoliniums (Gd) í heilavef og í því sambandi má einnig benda á viðtal við Emanuel Kanal, röntgenlækni við University of Pittsburgh.

Meðal þeirra fyrstu sem rannsakaði og skrifaði um uppsöfnun Gadoliniums í heilavef eru Tomonori Kanda og félagar, eins og meðal annars má sjá í grein frá árinu 2013.
Eitt af því sem fram hefur komið er að uppbygging skuggaefnisins (linear GBCA / macrocyclic GBCA) virðist skipta máli varðandi uppsöfnun.

Nýjasta framvindan hvað varðar Gd uppsöfnun í heila eru tilmæli Lyfjastofnunar Evrópu um að ákveðnar tegundir „linear“ MR-skuggaefna verði teknar af markaði.

NSF
Nephrogenic systemic fibrosis af völdum Gadolinium skuggaefna er lítið í umræðunni núorðið, enda hafa viðbrögð við þeirri áhættu skilað því að ekki hefur komið upp staðfest dæmi um NSF tengt Gadolinium síðan árið 2009. Það er þó alltaf ástæða til að undistrika mikilvægi þess að athuga nýrnastarfsemi sjúklinga áður en nokkur tegund skuggaefnis er gefin í æð.

Segulsviðið og atriði tengd því
Eitt af því fjölmarga sem var áhugavert í umfjöllun um MRI öryggismál á RSNA 2016 bar yfirskriftina “Should I Scan That Patient: Updates and an Interactive Session on MR Safety and Regulations”.
Þar var meðal annars fyrirlesturinn „When to Push the Red Button“ sem fjallaði um hvernig lífshættulegar aðstæður gætu orðið til við segulómun og hvenær væri ástæða til að “quench-a” tækið. Einnig voru kynntar viðmiðunarreglur til að nota þegar þarf að gera segulómun af sjúklingi með gangráð eða annarskonar í ígræddan búnað við hjarta.

Annar fyrirlestrahópur kallaðist einfaldlega “MR Safety” og snerist meðal annars um rótargreiningu á hættulegum atvikum við MRI rannsóknir, hættur tengdar ígræddum tækjum og viðmiðunarreglur til að minnka áhættu við MRI rannsóknir almennt.
Glærur og fleira frá fyrirlestrunum má finna hér:
Real Safety Incidents
Conditional Pacemakers
Safety – Neurostimulator

Enn einn fyrirlestrahópur sem vert er að minnast á kallaðist “Safety Standards in MR-Getting More Safety ROI for Your MRI” og markmiðið þar var að auka skilning þátttakenda á MRI öryggismálum almennt og gefa hugmyndir um vandað öryggisferli til að nota í dagsins önn.

Dæmi um gagnlegar vefsíður
Fyrir þá sem vilja skoða meira um MRI öryggi gæti verið áhugavert að líta á:
Samantekt International Society for Magnetic Resonance in Medicine
MRIsafety.com
Síðu University of California um öryggi sjúklinga í MRI
Vefsíðu Institute for Magnetic Resonance Safety, Education, and Research

Á dagskrá Nordic Congress í Reykjavík 2017
Í framhaldi af ofanskráðu er ekki úr vegi að vekja athygli á að Emanuel Kanal verður með tvo fyrirlestra á norrænu þingi myndgreiningarfólks sem haldið verður í Reykjavík dagana 29. júní til 1. júlí nk.
Strax að morgni fyrsta dagsins er fyrirlesturinn “New standards for the MR safety organizational structure for MR sites worldwide” og í kjölfar hans kemur “Intracranial and total body gadolinium accumulation – update regarding findings and ramifications”.
Hvort tveggja eru dagskráratriði sem myndgreiningarfólk ætti ekki að láta framhjá sér fara.

.

Eldri greinar «