Fyrir skömmu kom út, á vegum bresku geislavarnastofnunarinnar, ný skýrsla um möguleg skaðleg áhrif geislunar frá GSM símum. Því miður er þar hvorki sagt af né á.
Ný skýrsla en fátt nýtt
Það sem mér finnst fáránlegt er að breska geislavarnastofnunin skyldi gefa út sérstaka yfirlýsingu í framhaldi af þessari skýrslu og kalla á nýjan skammt af hræðsluáróðri, án þess að hafa sterkari rök en áður til að benda á. Allt frá því að Stewart skýrslan kom út, árið 2000, hafa geislavarnastofnanir heimsins gefið þær upplýsingar að engar tryggar rannsóknaniðurstöður hafi fært sönnur á skaðsemi GSM notkunar, en sumar þeirra bendi til að um skaðleg áhrif geti verið að ræða. Vegna þess síðarnefnda hefur verið mælt með að fullorðnir takmarki GSM notkun barna og noti sjálfir handfrjálsan búnað sem, skv. þessari nýju bresku skýrslu, minnkar geislun á höfuð um helming. Þetta er einfaldlega í fullu gildi og hefur ekkert breyst.
Geislavarnir ríkisins með gott innlegg
Á vef Geislavarna (íslenska) ríkisins er nýbúið að birta vel unna grein um þetta mál. Í henni eru tenglar í nýju bresku skýrsluna, Stewart skýrsluna frá 2000 og yfirlýsingu frá norrænu geislavarnastofnununum, ásamt nokkrum blaðagreinum, svo eitthvað sé nefnt. Einnig má benda á grein um niðurstöður sænskrar rannsóknar sem leiddi í ljós aukna hættu á acustic neurinoma, góðkynja æxli á heyrnartaug, hjá þeim sem notuðu farsíma mikið. Þessar rannsóknaniðurstöður eru eitt af því sem bent er á í nýju bresku skýrslunni en á það ber að líta að á árunum sem þessi rannsókn tekur til voru eingöngu NMT símar í notkun í Svíþjóð og geislun frá þeim er af allt annari tíðni en frá GSM símum. Það er því ekki hægt að yfirfæra þessar niðurstöður beint á GSM notkun. Ekki má heldur gleyma því að geislun frá farsímum er ójónandi geislun og því allt annars eðlis en t.d. röntgengeislun. Tæknilega séð er GSM sími útvarp (móttakari og sendir) og einfaldar útskýringar á því má finna á howstuffworks.com. Þar er einnig hægt að lesa nánar um geislun frá farsímum.
„Úlfur, úlfur“
Fréttaflutningur sem hefur það að markmiði að kynda undir ótta fólks, án þess að mjög haldbær rök fylgi með getur verið skaðlegur. Mögulegt er að geislun frá farsímum hafi einhver skaðleg áhrif á heilsuna en á meðan það er ekki sannað er allt of auðvelt að afskrifa fréttirnar einfaldlega sem hræðsluáróður og þá er búið að setja geislavarnastofnanir í sömu aðstöðu og drenginn sem hrópaði „úlfur, úlfur“. Fólk hættir að taka mark á þessu og allar aðvaranir hverfa í skuggann af geislandi auglýsingum símafyrirtækjanna sem beina herferðum sínum ekki síst að unglingum, og jafnvel börnum, sem ættu einmitt síst að nota farsíma í óhófi.
17.01.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is