www.radiology-courses.com
Starfsfólk Rafarnarins rekst oft á athyglisverðar vefsíður. Sumar standast ekki nánari athugun en aðrar fá sinn sess, annað hvort í flokknum “Tenglar” eða “Upplýsingaöflun”. Safnið er orðið stórt og bætist í það jafnt og þétt, ein slóð í dag, önnur á morgun.
Slóð dagsins
Slóð dagsins í dag er www.radiology-courses.com. Vefsetur þar sem boðið er upp á vandað kennsluefni á vefnum og hægt er að skrá sig á athyglisverð námskeið sem fara fram í London.
Kennsluefnið á vefnum er frítt og námskeiðin kosta 100 – 125 pund hvert en í sumum tilvikum er hægt að bóka sig á fleiri en eitt námskeið í röð, á lægra verði.
Frítt kennsluefni á vefnum
Vef-kennsluefnið snýst um líffærafræði á sneiðmyndum (cross sectional anatomy) og æfingar í úrlestri ýmissa myndgreiningarrannsókna. Hvort tveggja getur nýst prýðilega unglæknum, geislafræðingum og fólki í öðrum greinum heilbrigðisgeirans sem vill auka þekkingu sína.
Dagsnámskeið í London
Námskeiðin eru dagsnámskeið, ýmist sniðin að þörfum röntgensérfræðinga, unglækna eða geislafræðinga en allir sem telja sig hafa gagn af þeim eru velkomnir.
Fyrir geislafræðinga eru tvö námskeið sérlega áugaverð: “The Red Dot Trauma Course” sem ætlað er að auka færni geislafræðinga í að koma auga á óeðlieg atriði á beinamyndum, og einnig “CXR and AXR Film Interpretation Course” sem snýst um lungna- og kviðarholsrannsóknir.
Látið ekki orðið “Film” fæla ykkur frá, eingöngu er unnið með myndir á stafrænu formi!
Fleiri námskeið í sömu ferð
Hjá Radiology Courses eru námskeiðin oft sett upp þannig að tvö skyld námskeið eru kennd sömu helgina og þannig er því einmitt varið með þessi tvö. Fargjald til London er ekki hátt og ég er viss um að hvaða myndgreiningarstaður sem er mundi græða á að senda geislafræðinga á svona námskeið.
Gott tækifæri til símenntunar
Flestir geislafræðingar hérlendis vinna stóran hluta vinnu sinnar sjálfstætt og þurfa að hafa færni til að ákveða í hvaða tilvikum sérmyndir eru nauðsynlegar og hvenær óhætt er að taka aðeins lágmarksfjölda mynda. Geislafræðinemar fá góða kennslu í líffærafræði og því hvernig eðlileg rannsókn lítur út, ásamt vandaðri kynningu á því hvernig helstu sjúkdómar sýna sig á mynd. Með aukinni starfsreynslu geta geislafræðingar svo safnað mikilli þekkingu og mikilvægt er að vera alltaf vakandi fyrir góðum tækifærum til þess.
16.04.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is