Wilhelm Konrad á netinu


Í tilefni Röntgendagsins gerði ég ákaflega óvísindalega könnun á þeirri mynd sem netið gefur af manninum sem veitti okkur öllum vinnu: Wilhelm Konrad Röntgen.
Hvað finnur sá sem leitar að honum á YouTube, Facebook eða Wikipediu? Nú, eða Google?

Til að einfalda málið ákvað ég að nota ensku útgáfuna af nafninu, Wilhelm Conrad Roentgen, og leggja mesta áherslu á YouTube. Hversu mikið skyldi vera til af myndum með herra Roentgen í aðalhlutverki?

Þær reyndust fleiri en ég bjóst við en eins og í Hollywood þá fljóta heilmargar B-myndir með. Ritstjóri Arnartíðinda brá sér því í gervi kvikmyndagagnrýnanda og hér á eftir fer samantekt á nokkrum myndum sem gaman getur verið að láta rúlla á skjánum.

Kynningarmyndir um notkun geislanna okkar hafa verið gerðar af ýmsu tilefni. Eina fann ég í flokki sem heitir “Medical Milestones”. Hún er stutt og svosem engar stórfenglegar upplýsingar á ferðinni en myndin er skemmtileg á að horfa.
 
Hlaðvarp (podcast) hjá National Geographic býður upp á flotta mynd um geislana sem guðfaðir myndgreiningarfólks uppgötvaði.

Nokkuð er um myndir sem má flokka sem kennsluefni. “Gallinn” er hvað fagið okkar þróast hratt, mynd sem sýnir söguna frá uppgötvun geislans til nýjustu tækni þegar hún er gerð getur verið orðin endaslepp stuttu seinna, því þá vantar eitthvað sem er nýkomið fram. Þannig er það t.d. um mynd sem segir í grundvallaratriðum frá notkun röntgengeislans en þar er eingöngu filma nefnd sem myndmóttakari.
Önnur mynd sem gæti fallið í flokk kennslumynda skartar Nefertiti drottningu í Egyptalandi sem aukaleikara.

Í klassíska flokknum mæli ég eindregið með mynd sem inniheldur upptöku frá fyrirlestri sjálfs William Coolidge um lampann sem hann þróaði og geislana sem frá lampanum berast.

Teiknimyndir… ja, ekki um auðugan garð að gresja. Sú eina sem ég rakst á vekur í huga mínum eina af uppáhalds setningum föður míns heitins: “Ekki er nú öll vitleysan eins”.

Þegar farið er frá YouTube yfir í vinsælasta vefsamfélag íslendinga, Facebook, er hægt að finna heilmargar síður með nafni Wilhelms Conrad. Hinum og þessum hefur þótt fyndið að búa til síðu fyrir hann en því miður fann ég enga með áhugaverðu innihaldi.

Wikipedia lumar á gríðarlegum upplýsingum, meðal annars um Wilhelm Conrad Roentgen. Eins og Wikipediu er von og vísa leiða tenglar á tengla ofan fólk áfram í hina ýmsu flokka sem tengjast ævistarfi hans.

Loks má nefna að leit á Google skilar u.þ.b. 17.800 niðurstöðum. Myndgreiningarfólk getur dundað sér lengi við að skoða eitthvað af þeim!


Á Röntgendaginn árið 2010.
Edda Aradóttir
edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *