WHO og myndgreining í Tanzaníu


#img 2 #Um Tanzaníu

Tanzanía er stórt land í austur Afríku. Það varð til árið 1964, þegar Tanganyika og Zanzibar sameinuðust. Stærðin er 945 þús. ferkm og íbúafjöldinn um 38 milljónir, sem skiptast í um 140 ættbálka sem tala fjölda tungumála. Opinbert sameiginlegt mál er swahili en enska er mjög útbreidd og er viðurkennt viðskiptamál. Allir sem við hittum í heilbrigðisgeiranum töluðu reiprennandi ensku og sumir reyndar líka þýsku.
 Fleiri myndir á myndasíðu

Hagur landsmanna
Landið er ríkt af auðlindum og náttúrugæðum. Hagur þorra fólks er bágborinn en hagvöxtur hefur þó verið verulegur á síðustu árum. Friður hefur ríkt í áratugi, þrátt fyrir margvísleg trúarbrögð. Múslimar eru t.d. um þriðjungur landsmanna og 98% íbúa Zanzibar.
Höfuðborgin er Dodoma en fyrrverandi höfuðborg Dar es Salaam miklu stærri og ríkari og virkar að flestu leyti enn sem höfuðborg.
Dar es Salaam er með malbikuð stræti og þar er töluvert af nýlegum, góðum byggingum. Það er veruleg bílaumferð og mannlíf líflegt að sjá. Verðlag í ferðamannabúðum og hótelum er svipað og í Evrópu eða Bandaríkjunum. Leigubílar voru ódýrir og mjög hreinir.

Heilbrigðisstefna
Stjórnvöld teljast höll undir socialisma og aðgangur að heilbrigðisþjónustu á að vera ókeypis. Sambúð stjórnvalda og einkarekinnar heilbrigðisþjónustu hefur verið stormasöm á köflum, en núna virðist stjórnvöldum ljós nauðsyn þess að einkaheilbrigðisrekstur hafi nothæft rekstarumhverfi og hafa sett um það lög.
Stjórnvöld hafa áhuga á meiri og betri heilbrigðisþjónustu. Á myndgreiningarsviðinu hefur þetta meðal annars þýtt að upp hafa verið sett um 140 WHIS-rad tæki um allt land.
Veiki hlekkurinn varðandi tæknileg myndgæði er auðvitað framköllunin sem fólki gengur illa að reka. Að jafnaði er talið að 80% af öllum myndum sem teknar eru þar sem ekki er skilvirkt eftirlit með framköllun séu ónýtar.

Stafræn myndgreining
WHO styður því verkefni stjórnvalda við að koma myndgreiningu í Tanzaníu á stafrænt form. Ef það tekst gæti það orðið fyrirmynd fátækra ríkja.
Ég heimsótti nýlega, í boði yfirmanns myndgreingarmála hjá WHO, fyrsta samvinnuverkefni WHO og Ocean Road Cancer Institute í Dar es Salaam sem er sjálfseignarstofnun. WHO hefur veitt þeim viðurkenninguna “center of exellence” í myndgreiningu og var skjal því til staðfestingar afhent í þessari ferð
Fyrsti liður í nýja verkefninu var að setja upp CR lesara og úrlestrartölvu, en fyrir var WHIS-rad röntgentæki. Búið var að gera á annað hundrað rannsóknir á rúmum tveimur mánuðum. Menn glíma við ýmis byrjunarvandamál en það er mikill hugur í starfsfóki og stjórnendum að stíga næstu skref í átt að stafrænni röntgengreiningu.

Upplýsingatækni í bernsku
Heilbrigðisupplýsingakerfi eru enn í bernsku í þessu landi og t.d. en ekkert kennitölukerfi (venjulega eru pólitíkusar óðir í að koma slíku á til að fá skilvirkt skattkerfi). Kennitölukerfi er sagt í bígerð og stefnt að framkvæmdum innan 3 til 5 ára. Þetta þýðir að hættan á að blanda saman upplýsingum sjúklinga er veruleg og minnkar ekki við að skipta yfir í rafræn kerfi.

Íslensk WHO samstarfsmiðstöð
Dr Harald Ostensen hefur áhuga á að til verði WHO collaborating center í myndgreiningu á Íslandi, m.a. til að styðja við framgang myndgreiningar í fátækari löndum heims. Ég held að það sé kjörið samvinnuverkefni fyrir greinina og gæti líka nýst til undirbúnings við að myndgreiningarfólk fari almennt að hugsa út fyrir landsteinana.
Til að auka gæði þjónustu þarf allsstaðar að tryggja stöðug tæknileg gæði. Það er auðvitað dagleg áskorun hvar sem er og ástandið í framköllun sem ég sá á Landspítalanum í Tanzaníu er ekki langt frá því sem var á aðalsjúkrahúsunum á Íslandi þegar ég kom þar fyrst til verka 1980. Stafræna tæknin býður uppp á auðveldari leiðir til stöðlunar, samvinnu og eftirlits.

WHO hefur unnið gott starf
WHO hefur lagt mikið af mörkum til að staðla röntgenbúnað og allt verklag við myndatökurnar. Einnig er reynt að staðla verklag við úrlestur m.a. til að reyn að tryggja einhver lágmarksgæði þar sem ekki starfa röntgensérfræðingar. Á næstu árum þarf að veita Tanzaníu tækniaðstoð, þannig að sá búnaður sem settur verður upp nýtist sem best. Veita þarf aðstoð við þjálfun og símenntun allra starfstétta í myndgreiningu. Þar að auki getur þurft að hanna sérstakar tæknilausnir til að leysa einstök verkefni.

Tækifæri fyrir íslenska myndgreiningu
Raförninn hefur í 5 ár rannsakað og prófað ókeypis eða ódýran hugbúnað til myndgreiningar. Það er ljóst að slíkar lausnir gætu hentað mjög vel í stafræn verkefni WHO í Tanzaníu og víðar í Afríku.
Mikill uppgangur er í allri samskiptatækni í landi eins og Tanzaniu og því má búast við að margir hafi aðgang að nettengingum. Þetta þýðir að í náinni framtíð er hugsanlega hægt að stýra allri stöðlun á tækni og verklagi miðlægt sem gæti verið mjög hagkvæmt og jafnframt aukið gæði myndgreiningar mikið. WHO hefur t.d. áhuga á að setja sinn “Gæðavísi” á vefinn.
Hér gæti verið skemmtilegt tækifæri fyrir alla sem koma að myndgreiningargeiranum á Íslandi. Þetta er auðvitað nokkuð langt í burtu, eða um 9 til 10 tíma flug frá Hollandi, sem er þó alls ekki meira en menn leggja á sig í hefðbundnum skemmtiferðum. 

09.10.06 Smári Kristinsson  smari@raforninn.is   
#img 1 #      

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *