Walkstation

Eins og veðrið er búið að vera á landinu um helgina má búast við að flestir séu með léttan sólsting og kunni að meta faglegt léttmeti! Röntgenlæknar sem hafa áhyggjur af línunum, eftir grillmat og annað góðgæti helgarinnar, geta andað léttar.


#img 1 #Úrlestrarstöð með sambyggðu göngubretti.

Það er, eins og svo oft áður, Minna frænka í Ameríku sem kynnir nýjung í myndgreiningunni. „Walkstation“ kallast hún á ensku og ég óska hér með eftir skemmtilegu, íslensku orði yfir fyrirbærið. Um er að ræða úrlestrarstöð með sambyggðu göngubretti sem hægt er að stilla á hraða frá 0.5 – 3.5 km/klst. Brettið er sérstaklega hljóðlátt til að forðast truflanir.
Röntgenlæknirinn getur valið um að lesa sitjandi eða standandi og nota brettið til að hreyfa sig þegar hann tekur pásu, eða lesa gangandi á brettinu.

Framkvæmd og niðurstöður.
Það voru hugmyndaríkir rannsakendur við University of Maryland í Baltimore, USA, sem gerðu tilraun með „walkstation“ stöðina. Átta læknar, fjórir sérfræðingar og fjórir unglæknar, framkvæmdu þrjár úrlestrarlotur, sitjandi, standandi og gangandi (á 1.75 km hraða), og réði tilviljun röð líkamsstöðunnar. Þeir fengu aðeins 5 sekúndur til að líta á hverja mynd, fimm myndir til að æfa sig á og svo 20 valdar PA lungnamyndir til greiningar.
#img 2 #Það sem þeir þurftu að segja til um var hvort hnútur sæist á lungnamyndunum eða ekki, hvoru megin hann væri og hvort hann væri í efri, mið eða neðri hluta lungans.
Ekki mældist marktækur munur á frammistöðu læknanna (p = 0.369) eftir því hvort þeir lásu úr sitjandi, standandi eða gangandi.

Í seinni hluta rannsóknarinnar var fylgst með hjartslætti og blóðþrýstingi læknanna á meðan þeir stóðu kyrrir á göngubrettinu, skoðuðu lungnamyndir standandi á brettinu, skoðuðu myndir gangandi og lásu inn svör gangandi. Lítill munur reyndist vera á hjartslætti og blóðþrýstingi í hvaða líkamsstöðu sem læknarnir unnu en hvort tveggja hækkaði lítið eitt á meðan þeir lásu inn svör, hvort sem þeir voru í kyrrstöðu eða gangandi. 

Ýmsar takmarkanir en skemmtileg hugmynd.
Rannsakendur taka fram að ýmsar takmarkanir séu á rannsókninni , til dæmis gengu
#img 3 #læknarnir mjög stutt á brettinu, hópurinn var ákaflega fámennur og myndirnar sérvaldar en ekki samskonar og gera má ráð fyrir á venjulegum vinnudegi.

Hugmyndin er skemmtileg, eins og margar aðrar sem sést hafa og miða að þægilegu og afkastahvetjandi umhverfi fyrir röntgenlækna. Næði, góðir og rétt stilltir skjáir, rétt lýsing og hitastig, ferskt loft og stillanleg borð og stólar eru meðal þess sem mér finnst sjálfsagt. Pottaplöntur, Mozart og Walkstation eru e.t.v. ekki fyrir alla… en hver veit! 

13.07.09 Edda Aradóttir ea@ro.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *