Björn Sigurðsson, röntgensérfræðingur, starfar á myndgreiningardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Eftir hann er þessi vandaða grein um sjálfan Wilhelm Conrad Röntgen.
Fyrir meira en einni öld, þann 8. nóvember 1895, uppgötvaði Wilhelm Conrad Röntgen geisla þá, sem við hann eru kenndir og við notum til myndrænnar sjúkdómsgreiningar. Hér er ætlunin að hverfa aftur í tímann, rifja upp atburði, aðstæður og umhverfi og kynnast jafnframt nokkrum samtímamönnum Röntgens.
Ætt og uppruni
Þá var í þýska ríkinu Nieder Rhein ( Neðra Rínarlandi ) bærinn Lennep, miðstöð textílviðskipta, nú hluti borgarinnar Remscheid um 40 km austan við Düsseldorf, ekki langt frá Wuppertal og stáliðnaðarborginni Solingen. Þar fæddist Wilhelm Conrad Röntgen 27. mars 1845. Faðir hans, Friedrich Conrad Röntgen, var vel stæður vefnaðarvörukaupmaður sem kvænst hafði frænku sinni Charlotte Konstanze Frowein frá Hollandi. Móðurættin kom þó frá Lennep en átti ítalska forfeður frá sautjándu öld. Wilhelm Conrad, sem fæddist þegar móðir hans var 39 ára, var eina barn foreldranna. Árið 1848, þegar hann var þriggja ára, flutti fjölskyldan til Hollands, fyrst til Apeldoorn, þar sem móðurforeldrarnir bjuggu, en síðan til Utrecht. Ástæða flutninganna mun hafa verið hinn pólitíski óróleiki í Evrópu á þeim tímum. (Það var í Apeldoorn sem kanadísk hersveit vann sigur á Þjóðverjum 1945.)
Námsárin
Fjölskyldan Röntgen fékk hollenskan ríkisborgararétt og þar gekk Wilhelm Conrad í skóla, en lauk aldrei stúdentsprófi, því honum var vísað frá námi.
Ástæðan var sú, að skólafélagi hafði teiknað skopmynd af kennara á eldhlífina framan við ofninn, en grunur féll á Wilhelm Conrad, sem var þekktur spaugari, en hann vildi ekki koma upp um listamanninn og var því sjálfur rekinn úr skólanum. Hann reyndi að ganga til prófs sem utanskólanemandi, en var felldur. Í staðinn hélt hann áfram námi við véltækniskóla í Utrecht og lagði jafnframt stund á grísku og latínu með sjálfsnámi. Um tíma sótti hann fyrirlestra í náttúruvísindum við heimspekideild Háskólans í Utrecht, en meðal fyrirlesaranna var Buys Ballot, sá sem gerði tilraunina með blásarasveit á járnbrautarvagni til að staðfesta reglu Dopplers um hljóð. Á henni byggist notkun ómtækja (með Doppler) til að meta hraða blóðflæðis í æðum. Ballot er samt þekktari sem stofnandi hollensku veðurstofunnar.
Hugur Röntgens stóð til náms í eðlisfræði, en réttindaleysi hindraði aðgang að háskóla. Ungur Svisslendingur í Utrecht, Thormann að nafni sagði honum þá frá hinum þekkta Polytekniska skóla í Zürich, sem tæki við nemendum án stúdentsprófs. Röntgen fékk þar skólavist án inntökuprófs og hóf þriggja ára nám í vélaverkfræði haustið 1865, fyrstu tvö árin með slökum árangri og varaði rektor hann við. Hann varði miklum tíma til siglinga á Zürichvatninu, fjallgöngu o.fl. og var enginn meinlætamaður í klæðnaði eða öðru. Á kránni “Zum grünen Glas” heillaðist hann af Berthu, einni af dætrum veitingamannsins Johanns Gottfried Ludwig, sem flúið hafði frá þýsku borginni Jena til Sviss 1830 vegna “byltingakenndrar stafsemi”. Auk veitingamennskunnar fékkst Ludwig við einkakennslu í klassískum málum og kenndi skylmingar við háskólann. Þrátt fyrir óánægju foreldra Wilhelms Conrads, kom síðar til brúðkaups í Apeldoorn 7. júlí árið 1872. Síðasta námsárið við Polytekniska skólann tók Röntgen sig á og tók lokapróf, en 22. júní árið eftir, 1869, þá 24 ára lauk hann doktorsprófi við Háskólann í Zürich, þar eð Polytekniski skólinn hafði ekki réttindi til að veita doktorsgráðu. Doktorsritgerðin, sem bar titilinn “Studien über Gase,” fellur nánast undir stærðfræðilega eðlisfræði og fjallar um almennu gaslögmálin með sérstöku tilliti til skilyrðanna við alkul. Hugmyndin mun hafa komið frá prófessor Clausius, sem var einn þeirra sem mótuðu aðra thermodynamisku meginregluna, en það er meðal annars hún sem kollvarpar hugmyndinni um perpetuum mobile, eilífðarvélina. Clausius setti einnig fram kenninguna um klofin mólekúl elektrolytanna, sem síðar var þróuð af sænska eðlis- og efnafræðingnum Svante Arrhenius (1859-1927), Nóbelsverðlaunahafa í efnafræði 1903.
Rannsóknir og kennsla
Námsfélagi Röntgens í Zürich, Albert að nafni, var nákunnugur nýskipuðum prófessor í tilraunaeðlisfræði við Polytekniska skólann, August Kundt. Báðir komu þeir frá Schwerin í Mecklenburg. Í sögu eðlisfræðinnar er Kundt þekktur fyrir aðferð til að mæla hljóðhraða. (Breytilegur hljóðhraði í mismunandi vefjum er ein af undirstöðum ómtækninnar.) Albert kynnti Röntgen fyrir Kundt, og varð það upphafið að löngu samstarfi þeirra. Þeir mættust á götu og Kundt spurði Röntgen: “Was wollen Sie eigentlich in Ihrem Leben?” og Röntgen varð að viðurkenna að hann hefði lítið fyrir stafni. Kundt réð hann þá til sín sem aðstoðarmann.
Árið 1871 varð Kundt prófessor í Würzburg og tók Röntgen með sér þangað. Háskólinn var gömul stofnun, en fyrstu drög að skólanum eru allt frá 1402, en 1582 stofnaði furstabiskupinn Julius Echter þar háskóla, en nokkrum árum fyrr hafði hann stofnað sjúkrahús í Würzburg, Julius Hospital, og lagt því til tekjustofna til rekstrar, ( skóga, búgarða, vínekrur o.fl.). Í þrjátíuárastríðinu (1618-1648) var Würzburg tekin af herjum Gústafs II. Adolfs, sem létu greipar sópa og fluttu þaðan stórt bókasafn til Uppsala. Árið 1866 lauk þýska stríðinu þegar Prússar tóku með áhlaupi virkið í Würzburg.
Í Würzburg vann Röntgen ásamt handleiðara sínum m.a. að rannsóknum á eðlisvarma lofttegunda. Hann sóttist eftir dósentsstöðu, en var hafnað, þar eð hann hafði ekki stúdentspróf og ónóga kunnáttu í latínu og grísku.
Að tveim árum liðnum fluttust þeir Kundt til háskólans í Strassburg. Þar var franskur háskóli frá 1621, sem eftir fransk-þýska stríðið 1870 -71 var opnaður að nýju sem þýskur skóli, en stórt bókasafn skólans hafði brunnið í umsátrinu 1870. Í Strassburg varð Röntgen dósent 1874. Þar tókst honum ásamt Kundt að sanna snúning planpólariseraðs ljóss í lofttegundum, en það var nokkuð sem enska efna- og eðlisfræðingnum Michael Faraday (1791-1867) hafði ekki tekist. Vegna frammistöðu sinnar í vísindum og hæfni í tilraunum fékk hann fimm árum síðar (1879) prófessorsstöðu í Giessen, háskóla frá 1607. Hann var nú að öllu leyti vel settur og aldraðir foreldrar hans fluttu einnig þangað. Í Giessen sýndi hann fram á myndun segulsviðs þegar leiðandi efni er látið hreyfast í rafsviði, -eins og Maxwell hafði sagt fyrir 1885 – svokallaðan hliðrunarstraum Maxwells – sem Jules-Henri Poincaré og margir aðrir eðlisfræðingar kölluðu í virðingarskyni Röntgenstrauminn. Fátt hefur varðveitst frá þeim tíma í Giessen, því borgin var lögð í rústir með loftárásum í síðari heimsstyrjöldinni. Árið 1888 var Röntgen boðin staða prófessors í eðlisfræði við Julius Maximilian háskólann í Würzburg sem eftirmaður Kohlrausch (1840-1910), en skömmu áður hafði hann afþakkað prófessorsstöðu í Utrecht eftir Buys Ballot, sem áður var minnst á. Tilnefningin í Würzburg var honum einkar kærkomin, þar eð honum hafði áður verið hafnað þar sem dósent. Hann varð forstöðumaður Eðlisfræðistofnunarinnar og fékk einnig embættisbústað. Árið 1894, þá 49 ára, varð Röntgen rektor skólans. Hann var ötull vísindamaður og birti fjölda greina í hinu virta tímariti Annalen der Physik. Fyrirlestrar Röntgens voru jafnan vel undirbúnir, fluttir í hröðum takti með lágri rödd. Hann þótti erfiður prófandi, sem spurði ólíklegustu spurninga og höfðu ýmsir beyg af honum, ekki síst læknanemarnir. Gæti próftaki ekki svarað sagði Röntgen: “Wenn Sie es nicht Wissen, muss ich es Ihnen sagen,” og þar með var prófinu lokið. Þrátt fyrir reglubundna fyrirlestra og sýnikennslu með tilraunum, var hann eftir sem áður útilífsmaður og stundaði gjarnan fjallgöngur og veiðiskap. Síðla dags sást hann oft halda að heiman klæddur grágrænum veiðifötum með byssu um öxl áleiðis að veiða rádýr. Eigin rannsóknir fékkst hann einkum við um kvöld og nætur, en e.t.v. auðveldaði það uppgötvun hans, þar sem algjör myrkvun er nauðsynleg til að greina daufan ljósbjarma.
Eðlisfræðin á tímum Röntgens
Það var í Würzburg sem Röntgen gerði sína merku uppgötvun fyrir 100 árum.
Uppgötvun eða uppfinning kemur venjulega fram á réttum tíma, og því er rétt að staldra við og athuga hvar eðlisfræðin var á vegi stödd, þegar hér var komið sögu og hvaða tækni og tæki stóðu til boða.
Forngrikkir höfðu síðan um 600 f. Kr. nokkra vitneskju um statiskt rafmagn, m.a. að hægt var að framkalla það með núningi vissra efna.
Englendingurinn William Gilbert á 16. öld mun hafa verið fyrstur til að rannsaka vísindalega í nútíma skilningi rafmagn og segulmagn. Á 17. öldinni gat Evangelista Torricelli (1608-47) eðlis- og stærðfræðingur, eftirmaður Galileis sem prófessor í Flórens, útbúið lofttæmi (út frá því þróaðist kvikasilfurs loftvogin) og Otto von Guericke (1602-86) eðlisfræðingur og borgarstjóri í Magdeburg þróaði áfram möguleika lofttæmis og sýndi það m.a. með hinum frægu Magdeburgar hálfkúlum. Francis Hauksbee leiddi rafmagn gegnum “lofttæmi” og kannaði sjálflýsandi eiginleika kvikasilfurs (fosforescens), sem Picard og Bernoulli höfðu uppgötvað. Rafmagnsfyrirbæri vöktu mikinn áhuga og á átjándu öldinni gerði Jean Antoine (Abbé) Nollet frekari tilraunir.
Sá sem sennilega var fyrstur til að framkalla orku í ætt við röntgengeisla var Englendingurinn William Morgan 1785, en hann var að gera tilraunir í lofttæmi, þegar glerpípa sprakk og litafyrirbæri komu í ljós. Breski eðlis- og efnafræðingurinn Michael Faraday (1791-1867) fékkst við grundvallar rannsóknir rafmagns og segulsviðs m.a. elektro-magnetiska induktion eða s.k. spanstraum. Árið 1838 varð hann var við einkennileg ljósfyrirbæri þegar hann leiddi rafstraum gegnum þynntar lofttegundir í glerhylki með stillanlegu bili milli rafskautanna. Við hæfilegt bil milli skautanna, sem hann kallaði anóðu og katóðu, sást við jákvæða skautið, anóðuna, purpurarauð ljósrák, sem teygði sig í áttina að neikvæða skautinu, katóðunni eða bakskautinu, en var alltaf aðskilin frá því af dökkri rák.
Fleiri tóku að rannsaka þetta og Johann Heinrich Geissler í Bonn (1815-1879) framleiddi mjög vel lofttæmda og jafnvel loftskipta rafeindalampa og um 1850 smíðaði Heinrich Daniel Ruhmkorff í París spanspólur, sem gáfu hærri spennu og meiri straum en áður hafði fengist, og fleygði þá enn fram tilraunum með rafeindalampana. Við tilraunir með bakskautsgeisla, svo nefnda af þýska eðlisfræðingnum Eugen Goldstein, tók Julius Plücker (1801-68) eftir grænleitum flúrljóma frá þeirri hlið lampans sem var andspænis bakskautinu og nemanda hans, Johann Wilhelm Hittorf (1824-1914) tókst að sveigja geislann í segulsviði. Bretinn Sir William Crookes (1832-1919) er á sama tíma, eða um 1879, að gera svipaðar tilraunir með mjög vel lofttæmda lampa og varð þá m.a. var við að ljósmyndaplötur svertust þótt þær væru niðri í skúffu, en setti það ekki í samband við lampann, sem sendi frá sér röntgengeisla án þess að honum væri það ljóst. Hann taldi plöturnar gallaðar og fékk þær bættar.
Í Cambridge hafði Clerk Maxwell (1831-79) nýlega lagt fram kenninguna um elektro-magnetiska eiginleika ljóssins. Þar með var hafið það ferli sem smám saman leiddi til uppgötvunar röntgengeislanna. Hemann von Helmholtz (1821-94), þýskur eðlis- og lífeðlisfræðingur, sem var m.a. áhugasamur um ljósfræði og augnlækningar, (hann fann m.a. upp augnspegilinn, opthalmoskópið) vann áfram með ljóskenningar Maxwells og fékk aðstoðarmanni sínum, Heinrich Herz (1857-94) það verkefni að framkalla elektro-magnetiskar bylgjur utan hins sýnilega litrófs ljóssins. Herz tókst árið 1888 að framkalla það sem í dag eru kallaðar útvarpsbylgjur. Helmholtz áleit að einnig ættu að finnast bylgjur með styttri bylgjulengd en ljóssins og að þær gætu smogið gegnum ógagnsætt efni. Hann fékk því öðrum nemendum sínum það viðfangsefni að leita að þeim, m.a. frá rafeindalömpum. Herz sýndi að bakskautsgeislarnir komust gegnum þunna álfilmu inni í lampanum og fékk því annan nemanda Helmholtz, Philipp Lenard að nafni (1862-1947), til að búa til lampa með álglugga. Með þeirra tíma tækni náði geislunin 7-8 cm út fyrir lampann. Lenard sýndi 1892 að segull gat breytt stefnu bakskautsgeislanna og þeir gátu látið ýmis efni flúrljóma og svert ljósmyndaplötur. Það sem Lenard áttaði sig ekki á var að hann var að fást við bæði bakskauts- og röntgengeisla, en greindi ekki þar á milli.
Stóra uppgötvunin
Röntgen gerði uppgötvun sína, þegar hann endurtók tilraunir Lenards með nokkrum breytingum. Í tilraunum sínum vann Röntgen með mismunandi gerðir rafeindalampa, Crookes, Hittorfs og Lenards, og hann notaði 40 – 60 kV spennu yfir rafskautin sem voru úr platínu. Straumgjafinn var 32 V blý-rafgeymir og spennuna jók hann með Ruhmkorffs spanspólu með Deprés sírofa sem rauf strauminn 15 – 20 sinnum á sekúndu og gaf þannig púlsaðan jafnstraum til prímeru vafninga spólunnar, en í sekúnderu spólunni voru 200.000 koparvírs vafningar og spennan var stillt með opnu neistabili.
Föstudaginn 8. nóvember 1895 hafði hann hulið lampann svörtum pappír til að útiloka útfjólublátt ljós og myrkvað herbergið. Á nálægu borði lá plata húðuð platínu-barium-cyanati, sem notuð var við þessar tilraunir, þar sem vitað var að efnið flúrljómaði við bakskautsgeisla Lenards. Þá sá hann sér til undrunar að platan flúrljómaði þegar straumi var hleypt á lampann, jafnvel þó fjarlægðin væri slík (um 1 metri) að bakskautsgeislarnir næðu ekki til hennar auk heldur var lampinn ekki með álglugga. Hann fann að geislarnir komu frá lampanum og smugu gegnum 1000 blaðsíðna þykka bók og jafnvel mjúkvefi handarinnar. Mjög trúlega vann Röntgen með hærri spennu yfir lampann en Lenard, sem einnig hafði þunna málmkápu á sínum lampa, sem hefur getað stöðvað daufa röntgengeislun, auk þess sem hann notaði keton sem flúrljómandi efni, en Röntgen sýndi að ólíkt platínu-baríum-cýanati var það ónæmt fyrir vissum geislum. Þannig var fundin ný tegund langdrægra smjúgandi geisla, sem varð til þar sem bakskautsgeislarnir hittu lampaglerið.
Næstu vikurnar var Röntgen niðursokkinn í rannsóknir á eiginleikum geislanna, hann fann að þeir smugu misjafnlega gegnum hin ýmsu efni, en blý, þó ekki væri nema þynna, sleppti þeim ekki í gegn. Hann gegnlýsti hurðina milli tveggja rannsóknarstofa og sá einkennilega lóðrétta línu í viðnum. Í ljós kom að hurðin hafði verið máluð með málningu sem innihélt blýhvítu. Eiginleikar glers voru í hlutfalli við blýinnihald þess og hann ályktaði út frá athugunum sínum, að gegnlýsanleiki efna fari minnkandi með vaxandi eðlisþyngd þeirra eða þéttleika. Sömuleiðis minnkaði gegnlýsanleikinn með aukinni þykkt efnis, en það samsvarar lögmáli Beers um sýnilegt ljós. Segull gat ekki sveigt geislana af leið. Það var ekki hægt að brjóta þá með prismum hvort heldur þeir voru úr gleri, málmum eða vökva og linsur og speglar höfðu engin áhrif á stefnu þeirra. Hann fann einnig að þeir svertu ljósmyndaplötur, þannig að hann gat staðfest niðurstöður sínar með myndum. Andrúmsloftið hafði ekki merkjanleg áhrif á útbreiðslu þeirra og styrkleikinn fylgdi kvaðrat-reglunni. Þann 22. desember sýndi hann Berthu, konu sinni, hvers hann hafði orðið vísari og tók mynd af hönd hennar á ljósmyndaplötu með X-geislunum eins og hann kallaði þá, en lýsingartími myndarinnar var heilar 15 mínútur. Henni var að sögn mjög brugðið við að sjá mynd af eigin handarbeinum. Við vin sinn dýrafræðiprófessorinn Bovery sagði hann: “Ich hab´ etwas interessantes entdeckt, aber ich weiss nicht ob meine Beobachtungen korrekt sind.”
Kynning geislanna
Laugardaginn 28. desember 1895 hafði hann lokið við handrit sitt “Über eine neue Art von Strahlen (Vorläufige Mitteilung)” og afhenti það ritara Physikalisch-Medizinische Gesellschaft í Würzburg til tafarlausrar prentunar. Á nýársdag 1896 sendi hann sérprentanir með titlinum “Eine neue Art von Strahlen” ásamt kópíum af nokkrum röntgenmyndum m.a. af hönd Berthu Röntgen, nokkrum málmlóðum í tréöskju og áttavitanál í málmdós til starfsbræðra sinna; Warburg í Berlín, Exner í Wien, Poincaré í París, Voller í Hamborg, Schuster í Manchester og Kohlrausch í Strassburg. “Nú halda þeir að Röntgen sé orðinn vitlaus” sagði Wilhelm Conrad við Berthu, vitandi hver viðbrögðin yrðu. Og viti menn, sunnudaginn 5. janúar birti Vínar-blaðið Freie Presse fréttina á forsíðu, – greinilega hafði tauga-lífeðlisfræðingurinn Exner sagt syni útgefandans, E. Lecher sem var læknir frá þessu. Röntgen var með símskeyti kallaður til Berlínar og þriðjudaginn 14. janúar sýndi hann Wilhelm II keisara geislana í Potsdam og var sæmdur orðu. Fimmtudaginn 23. janúar 1896 flutti Röntgen frægan fyrirlestur í Physikalisch-Medizinische Gesellschaft í Würzburg,en sá félagsskapur var stofnaður 1849 af anatómíuprófessornum Albert von Kölliker, sem var virtur histolog og embryolog. Margir virtir vísindamenn voru viðstaddir er Röntgen kynnti uppgötvun sína og sýndi nokkrar tilraunir. Eftir fyrirlesturinn bauðst Röntgen til að taka mynd af hönd Köllikers og að skammri stundu liðinni var myndin sýnd við mikinn fögnuð áhorfenda og Kölliker sem þá var um áttrætt sagði að á sínum 47 árum í félagsskapnum hefði hann hvorki heyrt né séð neitt sem jafnaðist á við þetta og lagði til að nýju geislarnir yrðu kallaðir Röntgengeislar. Hefur það nafn verið notað síðan í flestum Evrópulöndum, en enskumælandi þjóðir nota heitið X-Ray. Þetta varð eini fyrirlesturinn sem Röntgen flutti opinberlega um uppgötvun sína, en í háskólanum flutti hann fyrirlestra um þetta efni fyrir nemendur í eðlis- og læknisfræði og hóf þá jafnan með orðunum: “Da hat man im November 1895 eine neue Art von Strahlen entdeckt, welche die folgenden, auffälligen Eigenschaften zeigen”. Geislana kallaði hann jafnan X-geisla en ekki röntgengeisla.
Nánari rannsóknir
Eftir nokkurra vikna tilstand kringum kynningu nýju geislanna hélt Röntgen áfram rannsóknum sínum og 9.mars 1896 birti hann aðra grein sína, ”Eine neue Art von Strahlen, II. Mitteilung” en þar skýrði hann frá því, að geislunin verkaði þannig á andrúmsloftið að það verður rafleiðandi. Þetta átti einnig við um aðrar lofttegundir svo sem vetni. Áhrifin minnka í hlutfalli við loftþrýstinginn. Þetta stafar af jónun lofttegunda og þar með voru fundnar forsendur fyrir mælingu á styrk geislunar. Hann fann einnig að öll efni sem urðu fyrir bakskautsgeislun sendu frá sér röntgengeisla, og geislunin var í hlutfalli við eðlisþyngd efnisins. Þannig var platína heppileg, þar sem hún hefur einnig hátt bræðslumark. Ári seinna, þann 10. mars 1897 birtist þriðja og síðasta grein Röntgens um geislana, “Weitere Beobachtungen über die Eigenschaften der X-Strahlen”. Í þessu verki greinir hann frá dreifigeislun í andrúmslofti, þ.e. einnig þar verður til sekúnder geislun. Hann sýnir einnig að geislunin frá lampaveggnum dreifist jafnt í allar áttir en ekki mest í 90° stefnu frá geisluðum fleti, þ.e.a.s. Lamberts lögmál um ljós gildir ekki fyrir röntgengeisla. Ennfremur varð ljóst að því meir sem lampinn var lofttæmdur þeim mun harðari og smeygari urðu röntgen-geislarnir, en með vaxandi lofttæmi þurfti að hækka spennuna yfir lampann. Þar með hafði hann svo rækilega lýst fræðilega mörgum meginatriðum geislanna, sem hann uppgötvaði, að engar merkar nýjungar á þessu sviði litu dagsins ljós næstu 10 árin.
Viðurkenningar til handa Röntgen
Fréttin um nýju geislana flaug um heiminn í ársbyrjun 1896 og greinar birtust í ameríska ritinu Science 15. janúar og 14. febrúar, í enska ritinu Nature 23 janúar og í franska ritinu L´Eclairage Electrique 8.febrúar.
Og hér á Íslandi birtist nokkrum vikum síðar stutt grein í Eimreiðinni eftir Nikulás Runólfsson, íslenzkan eðlisfræðing við Kaupmannahafnar háskóla, um “Röntgens-geisla, sem ganga gegnum líkama manna og dýra, en þó ekki eins vel gegnum beinin.”
Alls birtust á árinu 1896 um 1000 greinar um þetta og 49 bækur. Í kjölfarið fylgdi svo læknisfræðileg notkun geislanna og 12. nóvember 1896 flutti brautryðjandi þýskra bæklunarlækninga, Albert Hoffa fyrirlestur í Physikalisch-Medizinische Gesellschaft í Würzburg um “Demonstrationen mit Röntgenstrahlen”. Hann staðfesti að væntingar manna um læknisfræðilega notkun geislanna hefðu meira en rætst og sýndi eina 6 fermetra af röntgenmyndum frá ýmsum sviðum læknisfræðinnar.
Röntgen hlotnaðist margvíslegur heiður fyrir afrek sín og Luitpold prins í Bayern bauð honum aðalstitilinn “von Röntgen”, en þessi hæverski og vinnusami maður kærði sig kollóttan. Hann mat þó hyllingu stúdentanna og blysför við bústað sinn og stofnunina á Pleicher Ring eftir heimkomuna frá sýningunni fyrir keisarann í Potsdam.
Röntgen var kallaður til prófessorsstöðu við háskólann í München árið 1900 og hélt þar áfam rannsóknum á piezo-elektriskum áhrifum kristalla, sem hann hafði byrjað á í Giessen og lagði þar með grunninn að piezo-optik.
Röntgen hagnaðist aldrei fjárhagslega á uppgötvun sinni og vildi ekki taka einkaleyfi á henni, því hann vildi að allir nytu góðs af og hefðu frjálsan aðgang að þessari nýjung. Viðskiptatilboðum, sem gátu fært honum drjúgar tekjur, hafnaði hann, Honum voru veitt Nóbelsverðlaunin árið 1901, þegar þau voru veitt í fyrsta sinn fyrir afrek í eðlisfræði og mun Svante Arrhenius (1859-1927, sænskur efna- og eðlisfræðingur, Nóbelsverðlaunahafi í efnafr. 1903) hafa stuðlað að vali hans, en sjálfur hafði Röntgen stungið upp á Kelvin lávarði (1824-1907 skozkur eðlisfr.) Ráðgefandi Nóbels-nefndin í eðlisfræði hafði lagt til að verðlaunin skiptust milli Röntgen og Lenards, sem var brautryðjandi í rannsóknum bakskautsgeisla eins og áður var getið, en Vísinda-akademían réð valinu. Röntgen var lengi tregur, en lét loks til leiðast, sótti um leyfi frá störfum og fór til Stokkhólms. Yfir Eystrasaltið var farið á gufuskipi frá Sassnitz til Trelleborgar og var sjólag svo vont að hann varð sjóveikur og vildi helst hætta við áframhald ferðarinnar. Hann hélt þó áfram til Stokkhólms og afhending Nóbelsverðlaunanna fór fram 10. desember í sal Músík-akademíunnar. Þáverandi krónprins, Gustav, (síðar Gustav V) afhenti verðlaunin því Oscar konungur II var þá orðinn gamall og heilsutæpur.
Í Nóbelsveislunni flutti hann frábæra ræðu og talaði um norræna goðafræði og geislana, en hann flutti engan Nóbelsfyrirlestur, sagðist vera of niðursokkinn í rannsóknir á óskyldum hlutum. Hann hélt heimleiðis daginn eftir Nóbels hátíðina og er enn í dag eini verðlaunahafinn sem hefur hafnað Nóbelsfyrirlestri. Verðlaunaféð, 50.000 sænskar krónur lét Röntgen renna til Háskólans í Würzburg. Vini sínum, Bovery, skrifaði hann eftir heimkomuna, að Nóbelshátíðin hafi verið þolanleg og að Svíar kunni að skipuleggja svona lagað á mjög smekklegan hátt.
Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914-18 endursendi Röntgen öll heiðursmerki og viðurkenningar, sem hann hafði fengið frá þeim þjóðum sem áttu í stríði við Þýskaland eða gaf ríkinu gullið til niðurbræðslu.
Síðustu ár og ævilok
Þau Berta eignuðust engin börn, en tóku að sér systurdóttur Bertu og ættleiddu hana síðar. Eftir langvarandi veikindi dó Berta Röntgen í október árið 1919. Vorið 1920 lét Röntgen af embætti, en fékkst áfram við hugðarefni sín. Eftir stríðið varð hann bláfátækur vegna verðbólgunnar sem þá geisaði í Þýskalandi , en 1923 jafngilti ein billjón marka um fjórum ísl. kr. í dag.
Á efri árum rifjast upp minningar æskuáranna, þess tíma er blóðið rennur hraðar í æðum og atvik festast betur í minni. Wilhelm Conrad skifar 12. nóvember 1922, nokkrum mánuðum áður en hann deyr, námsfélaga sínum og vini frá Zürich, E.L. Albert, sem síðar hafði gert vegi og vatnsveitur bæði í Rússlandi og Svíþjóð, og minnir hann á æskuárin og að það hafi verið hann sem hafði kynnt hann fyrir Kundt, og bætir við: Von “Moselblümchen” ist jetzt nicht mehr die Rede… etc. Moselblümchen var greinilega vínið sem drukkið var í glaðra vina hópi á kránum “Voginni” og “Græna glasinu” hjá Johann Gottfried Ludwig. (Verðandi tengdaföður.)
Wilhelm Conrad Röntgen dó af krabbameini í þarmi 10. febrúar 1923 á 78. aldursári og var lagður til hinstu hvíldar í Alte Friedhof í Giessen við hlið eiginkonu og foreldra.
Hver eftirmæli hann hefur hlotið vitum við öll en um tíma eftir lát hans voru blikur á lofti. Lenard, sem áður var sagt frá og rannsakað hafði bakskautsgeislana, m.a. með því að sleppa þeim út í loftið gegnum álglugga á lampanum, skrifaðist á við Röntgen og viðurkenndi smám saman uppgötvun hans, en framan af taldi hann að hér væri um að ræða annarskonar bakskautsgeisla, sem segulmagn verkaði ekki á. Þessu hélt hann fram á fundi með British Association for the Advancement of Science í september 1896. Þegar Röntgen fékk Nóbelsverðolaunin 1901, hætti Lenard öllum samskiptum við hann, og það breytti engu þar um, að hann fékk verðlaunin sjálfur árið 1905 fyrir bakskautsgeislana. Á dögum þriðja ríkisins var Lenard handgenginn nazistum og hafði mikil völd á sviði vísindanna. Hann sneri sér þá að fölsun sögunnar til að afmá nafn Röntgens úr sögu vísindanna. Einstein hlaut sömu örlög, en við vitum hvernig fór. Þegar röntgenlæknirinn Etter frá Pittsburg heimsótti Lenard að stríðinu loknu 1945, spurði hann Lenard hvort Röntgen hafi verið Gyðingur. “Nei,” svaraði Lenard, “en hann átti vini meðal Gyðinga og hagaði sér sem slíkur.”
Röntgen hafði sjálfur fyrir löngu séð í gegnum Lenard og komið bréfum sem þeim fóru í milli fyrir í öryggisgeymslu stofnunar sinnar í Würzburg. Eftirmenn hans á stofnuninni sendu nokkrum þýskum vísindamönnum afrit af bréfunum til þess að nazistarnir gætu ekki eytt öllum sönnunargögnum. Að öðru leyti hafði hann mælt svo fyrir í erfðaskrá sinni að öll önnur gögn hans yrðu brennd að honum látnum. Af handritinu frá 28. desember 1895 hefur aðeins forsíðan varðveist.
Í Remscheid /Lennep var árið 1932 stofnað safn, Deutsches Roentgen Museum, að tilstuðlan þýska röntgenfræðafélagsins og hefur það vaxið og dafnað síðan og er fjölsótt af þeim sem fræðast vilja um upphaf og þróun myndgreiningar.
Björn Sigurðsson, 2002.
Unnið 05.08.03 Edda Aradóttir.