Um daginn rakst ég á vísindarannsókn þar sem MRI var notað og hún vakti athygli mína. Það fer eftir áhugasviði fólks hvort því finnst viðfangsefnið merkilegt en það er einfalt og það var framkvæmdin líka. Gott dæmi um að vísindavinna þarf ekki að vera erfið og tímafrek.
Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í maíhefti American Journal of Sports Medicine.
Í hverju skrefi á hlaupum tekur hvort hné við höggi sem jafngildir tvö- eða þrefaldri þyngd hlauparans. Það hljómar því ekki ólíklega að brjóskið í hnjáliðunum pressist saman við langhlaup. Í fyrrnefndri rannsókn voru hné hlauparanna mynduð fyrir 20 km hlaup, strax eftir hlaupið og að lokum einni klukkustund eftir hlaup.
Rannsakendur komust að því að strax að hlaupi loknu var brjóskhæðin minni en fyrir hlaup, að mestu vegna minnkaðs vökvainnihalds, en aðeins klukkustund seinna var hún orðin nær eðlileg aftur. Einungis liðmánarnir áttu lítillega eftir að jafna sig.
Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar er óþarfi að hafa áhyggjur af að hlaup skemmi brjóskið í hnjánum eða valdi bólgubreytingum, nema maður eigi við meiðsl að stríða, sé of þungur, hjólbeinóttur eða kiðfættur.
Rannsakendur mynduðu aðeins tíu hlaupara og þess vegna má sjálfsagt deila um hvort niðurstöðurnar séu marktækar en þær eru samhljóða. Það þurfa ekki allar rannsóknir að vera risavaxnar og breyta heiminum! Myndgreiningarfólk virðist láta vísindavinnu vaxa sér í augum og þess vegna er skammarlega lítið um hana í faginu okkar hérlendis.
Þau fáu úr okkar hópi sem hafa lagt vinnu í rannsóknir síðustu árin hafa unnið mjög glæsileg verkefni sem vakið hafa athygli bæði hér á landi og erlendis. Það er faginu til sóma og óskandi að fleiri færu að dæmi þeirra. Við megum þó ekki gleyma því að fáir eru smiðir í fyrsta sinn og lítil, einföld verkefni eru líka vísindavinna. Vinna sem æfir mann í vinnubrögðum, hressir heilastarfsemina og eykur sjálfstraustið.
Ég hvet myndgreiningarfólk til að nota sumarið í að efla líkama og sál. Til dæmis með því að fara út að hlaupa, óhrætt um brjóskið í hnjánum! Síðan mætum við tvíefld til vinnu í haust og byrjum að æfa vísindavinnu.
02.06.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is