Vísindaferð á Monte Rosa


Í lok ágúst gengu félagar úr FÍFL ( Félag Íslenskra Fjalla Lækna ) á Monte Rosa, næst hæsta fjall Evrópu ( 4634m ). Gangan var samvinnuverkefni fjögurra íslenskra og þriggja sænskra lækna. Með í för voru Tómas Guðbjartsson, Engilbert Sigurðsson, Magnús Gottfreðsson og Orri Einarsson. Svíarnir voru þeir Ingvar Syk, Per Edroth og Henrik Jonsson sem var leiðangursstjóri.

Tilgangur ferðarinnar var að kanna áhrif þunna loftsins á líkama og sál. Gerð voru taugasálfræðileg próf í mismunandi hæð og samtímis voru teknar blóðprufur úr leiðangursmönnum. Verið er að vinna úr niðurstöðum prófanna.


#img 1 #Leiðangursmenn höfðu aðsetur í Alagna í Ítalíu sem er mjög fallegur fjallabær við rætur Alpanna. Bærinn er í rúmlega 1000m hæð og liggur vel við göngum að sumarlagi og á veturna eru stunduð skíði. Andrúmsloftið er afslappað og fólkið einstaklega hlýlegt. Tómas Guðbjartsson sem var komin á undan okkur hinum í þorpið og fékk það verkefni að finna aðstöðu til að horfa á úrslitaleikinn í handbolta á EM sem tókst eftir nokkra eftirgrennslan. Reyndar urðu úrslitin leiðangursmönnum lítt að skapi.


#img 2 #
Daginn eftir komuna til Ítalíu var haldið til fjalla og gist í fjallaskála til hæðaraðlögunar. Þessir Ítölsku fjallaskálar eru vel búnir og þar má fá úrvalsmat og vín við hæfi. Uppábúin flet þannig að ekki væsir um mann. Reyndar áttu leiðangursmenn flestir nokkuð erfitt með svefn í þunna loftinu og ágerðist það eftir því sem ofar dró.


#img 3 #
Við gengum niður í fjallaþorpið daginn eftir í blíðviðri eftir grösugum fjalladal. Náttúrufegurðin á þessum slóðum er engu lík. Matarmenning Ítala er vel kunn og gerðu leiðangursmenn sér sérstakt far um að neyta kræsinga á góðum fjölskyldustað. Vín voru sótt úr efstu hillum. Vertinn veitti því athygli að hér voru lífsnautnamenn á ferð og dró síðasta kvöldið fram rykfallna flösku af úrvals Barolo víni sem sló öllu við sem áður hafði verið dreypt á.#img 4 #
Á þriðja degi var síðan haldið á Rósu í fylgd tveggja leiðsögumanna. Þetta voru veðurbitnir fjallajaxlar, hoknir af reynslu. Sá sem fór fyrir var ameríkumaður af þýskum ættum Armin. Hann þekkti hvern stein í hlíðum fjallsins og leiddi okkur upp á fjallið með styrkri hendi. Það er reyndar ótrúlegt að fylgjast með og tala við svona jaxla sem hafa lífsviðurværi sitt af fjallgöngum. 
    


#img 5 #
Ferðin á tindin gékk vel enda allir leiðangursmenn í hörkuformi og í raun unun að sjá hvernig vel þjálfaðir líkamarnir brugðust við álaginu. Leiðangurstjórinn sænski fékk reyndar snert af háfjallaveiki og varð fámáll síðasta legginn, greinilega þjáður, því annars var hann málugur.#img 6 #


#img 7 #
 Upp í hæsta skálanum sem er í um 4500m hæð nutum við ólýsanlegs útsýnis í glampandi sól. Þar mátti sjá niður að Matterhorni og það glitti í MT. Blanc.

29.09.08 Orri Einarsson, röntgenlæknir, FSA.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *