Nýjustu fréttir af tækni sem byggir á þrívíddar ómun gætu bent til fækkunar í röðum skurðlækna á komandi árum. Um er að ræða róbóta sem geta framkvæmt skurðaðgerðir án stjórnunar skurðlæknis. Hvernig líst fólki á að sjá dr. Robot á lista skurðstofunnar yfir þá sem framkvæma aðgerðir dagsins?
Gæti fljótt gefið þekktri tækni aukið öryggi.
Til skemmri tíma litið er vonast til að tæknin auki öryggi við meðferðar- og rannsóknamöguleika sem þegar eru í boði. Niðurstöður frumrannsókna, sem gerðar voru við Duke háskóla í North Carolina í Bandaríkjunum, benda til þess að þær vonir geti ræst í fyrirsjáanlegri framtíð.
Þrívíddar-ómtækni sem þróuð hefur verið við háskólann var notuð til að stjórna einföldum róbóta, með hjálp gervigreindarforrits. Fjöldi verkefna var lagður fyrir róbótann og í mörgum tilvikum gat hann leyst þau með stjórn tölvunnar. Aðstandendur tilraunaverkefnisins eru mjög bjartsýnir vegna þess hve niðurstöðurnar lofa góðu þrátt fyrir að vélbúnaðurinn hafi verið nokkuð grófgerður.
Gæti innan tíðar leyst skyggningu af hólmi við æðaþræðingar.
Það sem gerir svona stjórnun mögulega er nýjasta ómtæknin sem gefur hárnákvæmar þrívíddarmyndir í rauntíma. Aðal verkefni róbótans var að láta nálarodd snerta odd annarrar nálar, inni í gerviæð. Stjórnun nálarinnar sem róbótinn hélt á var byggð á örsmáum ómhaus, festum á æðaþræðingalegg.
Þarna er strax kominn áhugaverður möguleiki á notkun tækninnar við æðaþræðingar, sem gæti leyst skyggninguna af hólmi og sparað sjúklingum háan geislaskammt. Framtíðarsýn vísindamannanna við Duke háskóla er að þróa tæknina betur og tengja hana háþróuðum róbótum líkum þeim sem þegar eru í notkun á skurðstofum. Þannig gæti náðst það markmið að búa til skurðlæknis-róbóta sem þyrfti ekki mannlega stjórnun.
Gæti í framtíðinni leyst skurðlækna af hólmi.
Hér í eina tíð vakti tilhugsunin um vélmenni með eigin greind ótta hjá flestum. Fólk sá fyrir sér einhverskonar vélræn illmenni sem í besta falli mundu gera alla atvinnulausa og í versta falli ráðast gegn skapara sínum og útrýma mannkyninu. Nú eru róbótar að störfum á fjölmörgum stöðum, í iðnaði t.d., og litlir þjónar eins og Roomba og Scoomba hreinsa ryk og óhreinindi á ótal heimilum um víða veröld. Þeir sem eiga dýran Lexxus með hreyfistjórnkerfi geta látið hann leggja sjálfan og svona mætti lengi telja.
Veröldin hefur séð sláandi tækniþróun á síðustu áratugum og þegar skurðlækna-róbótarnir verða komnir á framleiðslustig er líklegt að fólk verði orðið svo vant sjálfvirkum vitvélum að það hiki ekki við að leggjast undir hnífinn hjá doktor Robot.
Það er spurning hvort röntgenlæknirinn verður þá doktor Cad…
30.08.09 Edda Aradóttir ea@ro.is