Vinna og heilsa

Rétt líkamsbeiting og þjálfun er mikilvæg til að halda heilsunni. Hjá Þórhöllu Andrésdóttur, sjúkraþjálfara hjá Eflingu ehf. og líkamsræktarstöðinni Bjargi, á Akureyri, fengust nokkur góð ráð.
Þetta eru almennar ráðleggingar og aðalmarkmiðið er að minna starfsfólk í myndgreiningu á hversu dýrmæt heilsan er. Til að geta sinnt sinni vinnu sem best þarf líka að sinna líkamanum.



Nokkrar ráðleggingar um góða líkamsstöðu og rétta líkamsbeitingu.





#img 1 #Holl hreyfing er mikilvæg til að halda góðri heilsu, minnka streitu og koma í veg fyrir ýmsa líkamlega kvilla. Einnig skiptir miklu máli að beita líkamanum rétt við dagleg störf.


Huga þarf að góðri líkamsstöðu. Ef hún er slæm raskast jafnvægi milli vöðvahópa. Vöðvarnir hafa tilhneigingu til að verða stuttir og stífir annars vegar og langir og slappir hins vegar.
Til að bæta líkamsstöðuna þarf oftast að teygja stutta vöðva og styrkja slappa vöðva. Daglega dags þarf að hugsa um að:


         
                              –          
Slaka vel á öxlum.


                                        –           Rétta vel úr baki.


                                        –           Yfirstrekkja ekki hné.




Við tölvuvinnu og aðra vinnu sem setið er við þarf að kynna sér vel stillingamöguleika stólsins. Þar má nefna:

                                        –
         
Hæðar- og hallastillingu setu
                                        –          Hæðar- og hallastillingu baks.
                                        –          Hæðarstillingu arma.



Æskilegt er að breyta stillingum stólsins annað slagið því tilbreyting gerir líkamanum gott. Annað sem vert er að reyna er að æfa sig í að nota tölvumúsina til skiptis með hægri og vinstri hendi. Þetta getur minnkað verulega líkurnar á álagseinkennum frá öxlum.


Rétt er að hafa í huga að engin vinnustelling er svo góð að æskilegt sé að halda henni óbreyttri í langan tíma. Ráðlegt er að auka fjölbreytni og skipta oft um vinnustellingu. Einnig að standa reglulega upp ef vinnan krefst langrar setu. Gott er að athuga vinnuaðstöðuna með tilliti til þess hvort hana megi ef til vill bæta.


Miklu getur breytt að brjóta upp langar vinnutarnir með stuttum hvíldarhléum. Hvíldartímann er gott að nota til að gera léttar æfingar og teygja vel úr sér eða þá slaka á í góðri hvíldarstellingu.


Það borgar sig að huga að þessum hlutum áður en vandamál koma upp.


 

Þórhalla Andrésdóttir, sjúkraþjálfari. 

Fyrir þá sem vilja vita meira má benda á  Sjúkraþjálfun.is
Einnig eru margar líkamsræktarstöðvar með vefsíður þar sem finna má upplýsingar um starfsemi þeirra. Þar er einfaldast að nota leit.is – heilsa.
Það ætti hver að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, mikilvægast er að hætta að finna sér afsakanir fyrir að gera ekki neitt. Til dæmis þessa algengu: „Ég hef ekki tíma“. Því eins og stendur á einhverri síðunni: Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun.
Edda Aradóttir.

   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *