Undirritaður hefur lengi verið á þeirri skoðun að samræmingar sé þörf þegar kemur að því að ákveða hvaða gildi á að miða við í ómskoðun á hálsslagæðum. Þegar fræðin eru skoðuð kemur í ljós að verið er að nota töluvert mismunadi nálgun að vandamálinu. Sumir fræðimenn hafa fyrst og fremst viljað styðjast við peak systolic velocity (PSV) meðan aðrir nota hlutfallið milli hraða í ICA (internal carotid artery) og CCA (common carotid artery) sem aðalviðmiðun (ICA/CCA PSV ratio). PSV gildin hafa verið mismunandi frá einni grein til annarar.
Í nóvember á síðasta ári birtist grein í Radiology 2003;229:340-346 þar sem Society of Radiologists in Ultrasound gefur út sameiginlegt álit (consensus) á framkvæmd og túlkun ómskoðunar á hálsslagæðum með tilliti til þrengsla í upptökum ICA. Mér finnst lesningin afar gagnleg og ættu allir sem eitthvað koma að greiningu hálsæðaþrengsla að kynna sér greinina. Myndgreiningardeild FSA hefur þegar tekið viðmiðunargildin upp.
Hámarkshraði í internal carotid artery (ICA PSV) og tilvera skellumyndana (plaque) eru aðalatriðin í greiningunni. Stuðst er við ICA/CCA PSV hlutfallið og ICA end diastolic velocity þegar klínískir eða tæknilegir þættir gefa til kynna að ICA PSV gefi ekki rétta mynd af stigi sjúkdómsins. Hér að neðan eru rakin helstu atriðin varðandi túlkun á niðurstöðu ómskoðunar.
1. ICA er dæmd eðlileg þegar ICA PSV er lægra en 125 cm/sek og ekki eru til staðar skellur eða intimaþykknun.
2. Minna en 50% þrengsli í ICA þegar ICA PSV er lægra en 125 cm/sek og til staðar eru skellur eða intimaþykknun.
3. Greind eru 50%-69% þrengsli í ICA þegar ICA PSV er 125-230 cm/sek og skellur eru til staðar.
4. Yfir 70% ICA þrengsli þegar ICA PSV er hærra en 230 cm/sek og til staðar eru skellur og þrenging á lumeni.
5. Ef ICA er nærri lokuð (near occlusion) þá getur blóðflæðishraðinn hvort sem er verið hár, lágur eða ekki mælanlegur. Greiningin byggist á því að sjá mjög þröngt lumen við skoðun með litadoppler eða power doppler.
6. Alger lokun á ICA er greind þegar ekkert lumen er sjánlegt og ekki er hægt að fá fram neitt flæði. Oft er gerð MR angiografia, CT angiografia eða hefðbundin angiografia til að staðfesta niðurstöðuna.
11. janúar 2004
Halldór Benediktsson, forstöðulæknir
Myndgreiningardeild FSA