Það er rækilega prentað inn í allt myndgreiningarfólk að vera vakandi fyrir skuggaefnisviðbrögðum (“ofnæmi”). Hinsvegar vantar talsvert upp á að öllum sé nógu ofarlega í huga að umgangast skuggaefni m.t.t. þess hve skaðleg þau eru fyrir nýrun.
Ósýnilegur óvinur
Skv. skilgreining ESUR (European Society of Urogenital Radiology) er skuggaefnisorsökuð nýrnabilun: „Ástand þar sem versnun verður á nýrnastarfsemi með serum kreatinín hækkun sem er >25% eða 44 µmol/L innan 3 daga eftir rannsókn þar sem joðskuggaefni hefur verið gefið í æð og þar sem engin önnur skýring finnst.“
Skuggaefnisorsökuð nýrnabilun (SON) getur gengið yfir án þess að nokkur verði þess var. Hún er ósýnileg hætta sem skapar meira heilsufarsvandamál en skuggaefnisviðbrögð. Hún er að öllum líkindum algengari en skuggaefnisviðbrögðin og minnkar lífslíkur þó svo hún gangi til baka á nokkrum dögum. Ég hef ekki séð rannsóknaniðurstöður sem benda til þess að skuggaefnisviðbrögð sem ganga yfir af sjálfu sér minnki lífslíkur.
Algengari en skuggaefnisviðbrögð
Í september sl. birtist grein í AJR þar sem fram koma niðurstöður stórrar rannsóknar (298.491 sjúklingur) frá Mayo Clinic í Bandaríkjunum um algengi skuggaefnisviðbragða. Í örstuttu máli er niðurstaðan sú að skuggaefnisviðbrögð af lágosmólar joðskuggaefnum koma fyrir í 0.15% af þeim skiptum sem skuggaefni er gefið.
Í vefriti Bandarískra hjartasérfræðinga, Controversies and Consensus in Imaging and Intervention (C2I2), segir að skuggaefnisorsökuð nýrnabilun komi fyrir í um 7% af þeim skiptum sem skuggaefni er gefið en í fyrirlestri Viktors Sighvatssonar, röntgenlæknis, frá Gæðavísisráðstefnu Rafarnarins 2009 kom fram hlutfallið 5%. Hvort sem er réttara, þá er SON algengari en skuggaefnisviðbrögðin.
Auk þessa kom fram í fyrirlestri Viktors að SON: Kemur fyrir í 5.5-12% tilfella hjá sjúkl. með skerta nýrnastarfsemi, sést hjá allt að 50% sjúkl. með nýrnabilun og sykursýki, kemur fyrir í 20% tilfella hjá sjl sem fara í akút CT.
Þekkt hætta, undarlega lítil viðbrögð
SON og áhættuþættir hennar hafa verið þekkt lengi og það er undarlegt hversu litla athygli þessi alvarlegi fylgifiskur notkunar á joðskuggaefnum hefur fengið í myndgreiningarsamfélaginu hérlendis.
Einfaldar vinnureglur sem virka
Það er auðvelt að setja einfaldar og skýrar vinnureglur sem minnka hættu á SON mjög mikið. Ótal rannsóknir hafa verið gerðar og ótal greinar skrifaðar en eins og fram kemur í nýlegri samantekt í Acta Radiologica þá breytir það engu um það sem gildir til að forðast SON. Hægt er að einfalda það niður í fjórar meginreglur:
Nota skal allra minnsta skuggaefnisskammt sem hægt er að komast af með.
– Reikna áætlaðan gaukulsíunarhraða (estimated Glomerular filtration rate) með Cockroft-Gault formúlu, út frá se-kreatín gildi, aldri, kyni og þyngd sjúklings.
Sjúklingur skal vera vel vökvaður.
Gera skal hlé á töku lyfja sem hafa áhrif á nýrnastarfsemi (nephrotoxic).
Forðast skal endurteknar skuggaefnisrannsóknir innan 48 klst.
Hundurinn sagði ekki ég…
Það er fyrsta og mikilvægasta reglan sem gengið hefur verst að koma á. Hvernig skyldi standa á því?
Getur verið að engin stofnun eða fyrirtæki vilji verða fyrst til að taka upp strangari reglur um skuggaefnisgjöf?
Getur verið að hræðslan við að “vera með of mikið vesen” sé sterkari en umhyggjan fyrir sjúklingnum?
Getur það virkilega verið?
15.03.10 Edda Aradóttir ea@ro.is