Við upphaf ársins 2011


Áföll eru reglan og varnir eru nauðsyn
Kollsteypur eru regla en ekki undantekning sem allt líf á jörðinni þarf að kljást við. Þetta gildir jafnt um einstaklinga, fjölskyldur fyrirtæki og þjóðfélög. Varnirnar geta verið einstaklingsmiðaðar, fyrirtækjamiðaðar, náð til hópa eða heilla þjóðfélaga. Farsæld einstaklinga og tegunda lífríkisins byggist á að miklu leyti á þróun áfallavarna. Ein af stærstu lífverum jarðar, rauðfuran gæti ekki náð allt að 2000 ára aldri, ef hún hefði ekki öflugar brunavarnir. 

Samtvinnaður heimur kallar á sameiginlega ábyrgð
Með aukinni samtvinnun hagkerfa heimsins aukast líkur á heimskollsteypum af ýmsum toga. Þróun kollsteypuvarna hefur byggst á ýmiskonar tryggingum og viðlagasjóðum, þar sem menn taka sameiginglega ábyrgð á áföllum framtíðarinnar. Heilbrigðiskerfið er tæki þjóðarinnar til að verja allt frá einstaklingum til þjóðfélagsins í heild fyrir heilbrigðisáföllum. Í öllum þessum kerfum er byggt á einhverskonar fyrirhyggju, sem getur verið margskonar, þekkingarinnistæður sem gera mönnum kleyft að fást við stór frávik, öflugt regluverk, varnargarðar eða beinir fjármunir. Þekkt og áætlað getustig þessara kerfa segja mikið til um hvernig við skipum þjóðum í þróaðar eða vanþróaðar.

Vegna fyrirhygguleysis okkar leiðtoga í fjármálaáfallavörnum urðum við fyrir miklu ímyndar- og fjárhagstjóni, vegna óhóflegs glannaskapar við gæslu á fjöreggi þjóðarinnar. Okkar efnashagslega sjálfstæði hefði hugsanlega glatast ef góðir grannar hefðu ekki komið okkur til hjálpar. Það mun taka mörg ár að komast út úr efnahagshremmingunum og óvíst hvenær sátt næst um framtíðarstefnu í grundvallarþáttum þjóðfélagsins. 

Lítill heilbrigðismarkaður sem er hluti af stóru samhengi
Heilbrigiðismarkaðurinn á Íslandi er örsmár. Á síðustu árum hefur verið reynt að stofna til útflutningsrekstrar á þessu sviði með samvinnu við erlenda aðila. Yfirlýsingar og athafnir sumra ráðamanna hafa lýst skilnings- og þekkingarleysi á mikilvægi þess að heilbrigðisgeirinn fái að þroskast á eigin forsendum. Í huga margra ráðamanna virðist heilbrigðisgeiranum ætlað að vera einhverskonar þjónustukerfi valdstjórnarinnar, sem ákveði hvaða heilbrigðisþjónusta er veitt á íslandi, hvað heilbrigðisstarfsfólk fái í laun, hvaða tæki séu keypt og hvaða lyf séu á boðstólum. Þessi íslenska útgáfa af sértækri valdstjórn í stað almennra leikreglna er uppskrift að hruni, eins og dæmin sanna. Í þekkingargreinum eins og heilbrigðisrekstri er samþættingin við nálæg lönd svo mikil að veruleg takmörk eru fyrir þeirri sérvisku sem við getum tamið okkur án þess að valda kerfislægu tjóni.

Vinnumarkaður heilbrigðisstarfsfólks verður sífellt alþjóðlegri og tæknin opnar möguleika til að vinna hluta heilbrigðisverkefna hvar sem er í heiminum. Í nálægum löndum er eftirspurn eftir heilbrigðsstarfsfólki verulega umfram framboð og því er til framtíðar að líkindum aðeins um tvo kosti að velja fyrir Íslendinga. Að Íslendingar og útlendingar reki hér alþjóðlega heilbrigðsstarfsemi sem er sambærileg að gæðum og burðum og tilbúin að greiða sömu laun og í nálægum löndum, eða við hættum sjálf að reka heilbrigiðsþjónustu og að útlend fyrirtæki geri það fyrir okkur. Þetta breytist ekki þótt nú í kreppunni virðist freistandi að ganga á viðlagasjóði heilbrigðiskerfisin t.d. með því að fresta nýliðun heilbrigðisstarfsfólks, nauðsynlegri tæknivæðingu og stofna jafnframt til átaka við einkarekna hluta kerfisins, byggt á þeirri pólitísku grunnhyggni að einkaheilbrigðisrekstur sé í eðli sínu slæmur. 

Nýtt fagnaðarerindi
Nú koma fram spámenn sem, kanski vegna kreppunnar, virðast ná hljómgrunni í samtímanum. Þeir eru sporgöngumenn fyrri spámanna sem ekki fengu hljómgrunn, því þeirra tími var ekki kominn, því allt hefur sinn tíma.

Í heilbrigðisgeiranum ber nú mikið á fagnaðarerindi sem byggir á nýrri tegund samruna læknisfræði og verkfræði til að ná stjórn á því ógnar flækjustigi sem nútíma heilbrigðisrekstur er. Með því að hagnýta verkfræðilausnir eygja menn leiðir til að leysa tilvistarkreppu heilbrigðisþjónustu í ríkustu samfélögum heimsins. Flækjustig læknisfræðinnar hefur sífellt aukist, því í stað þess að fundist hafi almennar lausnir á fjölda sjúkdóma, eins og við var búist á upphafsdögum pensilínsins, hafa lausnirnar orðið sífellt sértækari og flóknari. Þetta þýðir að leitin að bestu lausn, eða jafnvel einu lausninni fyrir ákveðinn sjúkdóm eða sjúkdómsmeðferð, verður æ flóknari og oft á tíðum varla innan mannlegrar getu án þess að um veruleg frávik eða óreglu verði að ræða.

Spámaðurinn sem fær einna mesta athygli þessa dagana heitir Dr. Atul Gawande og er skurðlæknir. Hann predikar notkun gaumlista við aðgerðir á skurðstofum og nýjasta bókin hans, The Checklist Manifesto, hefur komist á metsölulista The New York Times og fær mikla umfjöllun. Maðurinn sjálfur er eftirsóttur fyrirlesari um allan heim.

Aðrar atvinnugreinar hafa upplifað svipuð ferli. Þannig var Dr. Edward Deming einn mesti spámaður Japanska undursins sem hvatti til þess að um miðja síðustu öld að Japanir hættu að framleiða drasl og færu að framleiða nánast gallalaua gæðavöru.

Gawande notar flugiðnaðinn, og sérstaklega Boing verksmiðjurnar, sem fyrirmynd og það er sennilega vænlegra til að ná til hrokafullrar starfsemi sem lengi hefur staðið í nálægð guðs heldur en samjöfnuður við bílaverksmiðjur, sem margir gæðastjórnunarfræðingar hafa vitnað til vegna góðs aðgengis að þekkingu á því sviði. Dr. Gawande og aðrir spámenn með svipað erindi standa á amk hálfarar aldar grunni gæðstjórnunarfræða og þar að auki niðurstöðum meira en 10 ára rannsókna á stjórnun og árangri bandaríska heilbrigðisgeirans. Allt bendir þetta í eina átt. Með því að beita þekktri aðferðafræði úr gæðastjórnun og lausnum úr hátæknigreinum við ákvarðanatöku og stjórnun heilbrigðisstarfsemi er hægt að taka risaskref í gæðum og hagræðingu. 

Íslensk heilbrigðisverkfræðiáætlun
Nú í kreppunni byggjum við Héðinsfjarðargöng og tónlistarhús á ca. 12 milljarða stykkið. Fáir geta reiknað hagkvæmni i Héðinsfjarðargöngin, en Harpan er af mörgum talin muni skila hagnaði, ekki síst eftir að í ljós kom stærð veltu og framlegðar „hinna skapandi greina“.
Í þekkingarþjóðfélögum er áherslan ekki á fjölda tonna af seldum jarðefnum, heldur á fjölda verðmætra starfa í þekkingargreinum. Heilbrigðisgeirinn er einn af hornsteinum ríku þjóðfélaganna og mikil uppspretta verðmætasköpunar.

Á sama tíma er líka skilningur á því að byggja þurfi nýtt þjóðsjúkrahús enda hefur það mál verið lengi í undirbúningi og verkefnið orðið mjög brýnt.
Við hönnun þess skapast stórkostlegt tækifæri til að nýta þessa nýju þekkingu til að tryggja sem best öryggi sjúklinga og starfsmanna ásamt því að halda kostnaði á framleidda einingu í lágmarki. Þetta þýðir að hönnunin þarf að setja þróaða innri ferla starfseminnar í brennipunkt.

Kjarni nýja fagnaðarerindisins knýr á um umfangsmikla upplýsingatækniþróun í heilbrigðisrekstri, því aðeins með vélrænnni úrvinnslu upplýsinga verður hægt að tryggja öryggi meðferðar og auka hagkvæmni, því innbyggð sóun og innbyggð áhætta eru sitt hvor birtingarmyndin á sama vandamáli.
Stjórn Obama veitti 30 milljörðum dollara til kaupa og þróunar á heilbrigigðisupplýsingatækni árið 2009, til næstu 10 ára. Þetta samsvarar 12 milljarða fjárfestingar í heilbrigðisupplýsingatæki á Íslandi á 10 ára tímabili, eða sem nemur einum Héðinsfjarðargöngum.

Næsta þrep í þekkingarstigi vestrænna heilbrigðiskerfa, sem nú er í vændum, er svo hátt að við þurfum þurfum tjalda því sem til er í pólitík, heilbrigðisrekstri og mennta- og rannsóknarstofnunum og sækja það sem á vantar til útlanda. Takist okkur t.d. i tengslum við byggingu nýja Landspítalans að stíga nokkur stór skref á þeirri vegferð gæti það haft mikil og góð langtímaáhrif á okkar heilbrigðis og efnahagsmál 

Raförninn skipti um eigendur
Hugmyndfræði Rafarnarins hefur frá upphafi byggt á hugmyndum um langtímasamband fyrirtækisins og viðskiptavina þess. Heilbrigðistækniþjópnusta af því tagi sem við rekum er langhlaup sem Raförninn og fyrstu viðskiptavinirnir hafa stundað í aldarfjórðung. Á þeim tíma hafa orðið grundvallarbreytignar á tækni og viðhorfum, sem skapað hafa stórkostlega möguleika til nýsköpunar. Vægi langtímasjónarmiða hefur bara aukist með vaxandi flækjusigi og dýrari tæknilausnum.

Á árinu skipti Raförninn um eigendur þegar verkfræðistofan Verkís keypti fyrirtækið.
Markmið eigenda Rafarnarins með sölunni var að styrkja möguleika til uppbygginar á heilbrigðisverkfræðisviði og bæta þannig stöðu starfsmanna og viðskiptavina fyrirtækisins.
Einnig var nauðsynlegt að draga úr áhættu starfsmanna og viðskiptavina vegna eigenda sem komnir eru af léttasta skeiði. Ég tel þessi markmið hafi náðst að fullu.

Verkís er ein af stærstu verkfræðistofnum landsins og rekur mjög fjölþætta starfsemi bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Menn eru að fóta sig í nýju samstarfi, en byrjunin lofar mjög góðu og okkar bíða spennandi ný tækifæri á nýju ári þar sem við ætlum að nýta samlegðaráhrif fyrirtækjanna til að skapa spennandi lausnir fyrir okkar viðskiptavini.

Ég þakka samstarfsfólki og viðskiptavinum fyrir frábæra samvinnu á árinu 2010
og hlakka til samstarfsins á nýju ári.

Gleðilegt nýtt ár.

02.01.11 Smári Kristinsson smari@raforninn.is  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *