Við upphaf ársins 2010.


Heimur á heljarþröm.
Heimsbyggðin stendur frammi fyrir framtíðarskorti á margskonar auðlindum. Olían í hnettinum er hálfnuð og allar þjóðir reyna að tryggja sér aðgang að restinni. Þetta kallar á umfangsmikinn stríðsrekstur, sem sennilega mun bara aukast á næstu árum. Það fyrirkomulag að gera dýrmæta takmarkaða auðlind eins og olíu að undirstöðu efnahagskerfa heimsins og knýja síðan verðið niður með ofbeldi, þannig að olía hefur lengst af verið ódýrari en drykkjarvatn ógnar nú því þjóðfélagskerfi sem við þekkjum. Ofur áhersla á sóun hverskonar og eyðingu náttúrulegs umhverfis í skiptum fyrir skammtímagróða er að koma mannkyninu öllu í koll. Pólitískar lausnir eru ekki í sjónmáli.
Á Íslandi virðist nú ríkja kapphlaup um að koma innlendu orkunni á útsölu rétt þegar verðmæti grænnar orku eykst hröðum skrefum.
Okkar bjartasta von er að vísindi og tækni komi með lausnir og að stjórnmálamönnunum þóknist að nýta þær. 

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið?
Þjóðin býr nú við samfellda timburmenn eftir að erlendir gleðispillar enduðu þá stóru vímu sem þjóðarsálin taldi sjálfbæra svo langt sem augað eygði.
Flest krosstré hafa brugðist. Davíð strandaði frjálshyggjunni með einkavinavæðingunni og Ólafur brást í eftirliti sínu með Davíð, sem honum einum var treyst fyrir. Flestir eru á nú á útkíkki eftir næsta fixi. 

Vinaleysi og vænisýki.
Óréttlætið hefur ekki riðið við einteyming, eftir hrunið. Engar þeirra þjóða, sem við gátum þvingað til vináttu í skjóli kaldastríðsins reynast vinir í raun. Hefðbundin ránssvæði víkinga á Bretlandseyjum og ströndum vestur Evrópu fást ekki viðurkennd þótt tilkall okkar hljóti að vera mun sterkara en t.d. Ísraelsmanna til Palestínu. Úr tekur steininn, þegar ekta íslenskir framsóknarmenn eru gerðir afturreka með 2 þúsund milljarða gjafakröfu á Norðmenn sem hlýtur að vera lágmarks hlutdeild okkar í þeirra olíuauði, eftir að hafa hrakist undan norsku ofbeldi frá höfuðbólum fyrir aðeins um 1250 árum. 

Guðlast og kukl.
Kannski voru íslenskir bankamenn staddir í nútíma útgáfunni af Galdra-Lofti. Hann náði rétt að festa hönd á bók þeirrar visku sem þurfti til að gera góðverk með göldrum. Íslenskir stjórnmála- og bankamenn skildu aðeins yfirborð hins æðsta kapítalisma, þar sem flóknasta afleiðan á markaði hefur guðlegasta eðlið. Bankarekstur er æðri öllum rekstri, því hann getur sent framtíðinni skuldir nútímans og fært nútíðinni auðlegð framtíðarinnar. Án eignarhalds á öflugum alþjóðlegum bönkum geta þjóðir ekki orðið ríkar. Í þessum æðstu musterum kapítalismans hverfa öll skil milli strits og auðlegðar. Þess nutu Íslendingar í nokkur ár og sáu þjóðarframleiðslu á mann rísa hátt á undraskömmum tíma í eitt af topp sætum heimsins, án þess að skilja hvað að baki bjó.
Menn báru enga virðingu fyrir lögmálunum og guðlöstuðu með því að úthluta æðstu embættum til vildarvina og útbrunninna pólitíkusa, eins og gert var í tíð gömlu litlu ríkisbankanna sem þjóðin var vön að endurfjármagna reglulega þegar stjórnmálamenn voru búnir sólunda eiginfénu í “gjafalán” til sín og sinna. Ofan á þetta bætist að þjóðhagfræði 101 kennir að sérhver banki án trausts þrautavaralánveitanda sé dauðadæmdur. Sá þrautavaralánveitandi þarf að geta prentað seðla sem seljast á alþjóðamörkuðum, þar sem útnáramyntir eru ekki teknar gildar. 

Stóra ímyndarkreppan.
Þjófnaðarhyggjan íslenska hefur um aldir tekið á sig ýmsar myndir. Lengst af voru öll vor hörð í íslenskum þjóðarbúskap, því glannalega var sett á og fé mjög fjölgað í góðæri, en lítið lagt fyrir til mögru áranna, en þá féll jafnan fólk og búsmali og seinna bættist landflóttinn við. Auður eins og við þekkjum hann varð ekki til á Íslandi fyrr en með tilkomu stríðsgróðans. Kalda stríðið hentaði vel því þá var oft hægt að komast yfir mikið fyrir lítið með einföldum klækjum og efldist þá mjög þjófnaðarhyggja með stoltri og dugandi þjóð.
Stóra hrasið í fyrra varð um það bragð sem hvað klárast var talið og gerði útrásina mögulega, sem var að fá öll réttindi í Evrópusambandinu, en engar skyldur. Mest svíður nú að dusilmennin sem af var stolið vilja fá sýndarbætur upp í skaðann og eyðileggja þannig margra alda orðspor okkar sem ránsmanna, enda rís nú íslenskur almenningur upp sem aldrei fyrr og heitir á forseta sinn að standa gegn þessari smán, eftir að nánast nýkjörið Alþingi hefur með öllu misskilið sitt hlutverk. 

Fjöreggið að veði.
Allt þetta ár hafa íslenskir stjórnmálamenn kastað milli sín fjöreggi þjóðarinnar á spjótsoddum. Þótt birtingarmyndir séu margskonar, er nú barist um hvort ganga skuli í Evrópusambandið. Margar af hefðbundnum valdaklíkum landsins virðast tilbúnar að fórna flestu í því stríði og almenningur tilbúinn að dragast í dilka sem búfé. Þetta ástand dregur mjög úr þeim möguleikum og sóknarfærum sem standa til boða enda hugsanlega stutt í að Sturlungaöld verði endurvakin í nútímabúningi. 

Nýr Landspítali.
Á nýju ári á að hanna nýjan Landspítala, sem vonandi verður til að efla íslenskt heilbrigðiskerfi. Mikilvægt er að lögð verði áhersla á að húsið er tæki sem á að þjóna starfseminni, en ekki langtíma minnismerki. Best væri að menn gerðu ráð fyrir að fella það með dýnamíti eða selja til annarra nota innan 25 ára. Heilbrigðisþjónusta þróast mjög hratt, þannig að hönnunarverkefnið er mjög vandasamt og krefst framsýni og þekkingar á fjölda fagsviða, en ekki síst á sviði læknisfræði, stjórnunar, upplýsingatækni, verkfræði og byggingarlistar. 

Niðurskurður með hæpin markmið.
Á nýju ári er útdeilt niðurskurði ríkisútgjalda m.a. í heilbrigðisgeiranum. Samkvæmt fjárlögum á að minnka mikið kaup á heilbrigðisþjónustu frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum Verði það raunin eru líkur á að grunnur verði lagður að grundvallarbreytingum á heilbrigðisþjónustunni í landinu og að upp komi nýtt kerfi, sem verði án greiðsluþátttöku almannatrygginga. Niðurskurðurinn mun líka herða þann atgervisflótta íslensks heilbrigðisstarfsfólks sem hafinn er og seinka tækniframförum. Til lengri tíma gæti þetta leitt af sér töluvert öðruvísi heilbrigðiskerfi, þar sem mjög erfitt gæti orðið að útdeila þjónustu, samkvæmt eftirspurn og almannatryggingaverndin gæti orðið ávísun á langa biðlista og lélega þjónustu. Hér er um að tefla grundvallar lífsgæði hvers þjóðfélags. Almennan aðgang að fyrsta floks heilbrigðisþjónustu. 

Gæðabylgja til lausnar kreppu.
Heilbrigðisgeirinn á vesturlöndum tekst nú á við miklar breytingar. Umfangsmiklar rannsóknir á öryggi sjúklinga eru að leiða til breytinga á löggjöf og rekstrarmenningu, því löngu er ljóst að öryggi sjúklinga er oft óásættanlegt. Á RSNA 2009 í Chicago voru þessi mál í brennidepli og einkunnarorðin “Quality Counts”. Ljóst er að mikils er krafist af verkfræði og upplýsingatækni til að ná markmiðum um öruggari heilbrigðiskerfi. Á næstu árum þurfa vesturlönd því að veita miklum fjármunum í rannsóknir sem tvinna saman stjórnun og upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu. Það athyglisverðasta við niðurstöður sem birtar voru á RSNA 2009, var að kostnaðurinn gæti lækkað um allt að helming við það að gera þjónustuna öruggari. Þetta var undirstrikað með viðmiðunum við sum af bestu heilbrigðisfyrirtækjum Bandaríkjanna sem eru með 30 til 40% lægri kostnað á framleidda einingu en meðaltalið fyrir Bandaríkin. 

Annað hvort aftur á bak ellegar nokkuð á veg.
Árið sem er að líða var mörgum erfitt. Víða þurfti að skerða kjör og segja upp starfsfólki í heilbrigðisgeiranum. Þjónustan við almenning hélt samt yfirleitt áfram að batna og sumir juku umsvif eins og myndgreiningardeild Hjartaverndar sem bætti við sig starfsfólki á árinu og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem tók í notkun nýtt CT tæki í lok árs. Líkur eru á að nýja árið verði mörgum fyrirtækjum í heilbrigðisrekstri mjög erfitt. Mikilvægt er að myndgreiningargeirinn beri gæfu til að standa þessar hremmingar af sér og nái að styrkja sína innviði til að auka gæði og lækka kostnað.

Ég þakka starfsfólki Rafarnarins og viðskiptavinum okkar fyrir frábært samstarf árið 2009 og óska þeim velfarnaðar á nýju ári.

04.01.10 Smári Kristinsson  smari@ro.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *