Við upphaf ársins 2009.

 
“Guðs miskunn er það fyrsta sem deyr i hörðu ári”. Þannig mælti Nóbelskáldið eftir að hafa kynnt sér sögu þjóðar sinnar í þaula. Þetta er m.a. lýsing rótgróinni þjófnaðarhyggju þjóðar sem sér til gamans “bauð niður” (voru slegin þeim fór fram á lægsta meðlagið) umkomulaus börn, til þrælkunar, við hamarshögg.
Sama þjóð á í dag erfitt með að gera upp við fólk sem í barnæsku var haldið í ríksreknum nauðgunarbúðum fjarri mannabyggð. Kerfi þetta var í rekstri allt fram á síðustu áratugi síðustu aldar. Glæpirnir voru yfirleitt barnæska og fátækir foreldrar.
Í því efnahagslega harðræði sem við horfum fram á er ekkert miklvægara en að tryggja réttindi og stöðu barna og ungmenna, algörlega óháð efnahag og stöðu foreldra.

Smákóngar vilja ekki samkeppni um völdin
Sú skoðun Íslendinga að auður sem aflað er með ofbeldi eða brögðum, á skömmum tíma, sé betri en sá er aflað er með búhyggju var Nóbelskáldinu líka hugleikin.
Þegar Íslendingar gengu í EES en ekki ESB, þá seldu stjórnmálamenn EES með þeim rökum að þannig fengjum við notið kostanna en þyrftum ekki að bera byrðarnar af aðild að ESB. Á þessu hafa pólitíkusar klifað síðan en jafnframt bannað, pólitískar umræður um málið. Okkar smákóngar skildu að samkeppni íslensks fólks og fyrirtækja á stærri markaði mundi styrkja þá lífvænlegu en drepa hina. Þeir tóku samt enga áhættu af samkeppni um valdið yfir sinni hjörð.  Niðurstaðan varð viðskiptafrelsi með ónýtu regluverki og ónýtum gjaldmiðli.

Smjörklípur og nornaveiðar.
Nú þegar fólk situr í rústum kerfishruns er átakanlegt að sjá nornaveiðar silfurþátta fjölmiðlanna, þar sem einkum er horft til einstakra gjörða eða misgjörða þekktra einstaklinga sem eiga að hafa verið þúfan sem velti hlassinu. Tittlingaskítur af þessu tagi er miklu betri ljósvakasöluvara en skýrar kerfisgreiningar sérfræðinganna, sem flest allar snúa að valdhöfunum.
Valdamenn neita að hafa verið við stýrið þegar hrunið varð og þess vegna hefur opnast stór markaður fyrir opinberar játningar hugsanlegra sökudólga og smáglæpona. Valdafólkið þarf syndaseli sér til aflausnar og reynir að fleygja “smjörklípum” í allar áttir. Þetta hefur skapað eldfimt ástand sem getur leitt til alvarlegra ofbeldisverka.

Skýr stefna er lífsnauðsyn.
Hvítbækur næstu áratuga verða vafalaust reifarkennd sagnfræði en hvorki þær né syndajátingar og aflausnir koma að nokkru haldi við að byggja upp framtíðina.
Þetta galdrafár mun ryðja brautina fyrir sterka einstaklinga og öfgahugmyndir hverskonar, sem gæti orðið næsti þáttur farsans.
Fólk og fyrirtæki bíða eftir skýrri stefnu. Án hennar getur enginn tekið góðar ákvarðanir um sín næstu skref. Þessari bið verður að ljúka á fyrsta mánuði hins nýja árs. 

Nú er tími til að skapa.
Kreppan gerir harðar kröfur um nýsköpun á öllum sviðum. Sem betur fer eru mörg öflug fyrirtæki eru á Íslandi, þótt bankarnir hafi hrunið.
Myndgreingargeirinn hefur þróast hratt á liðnum árum og býr yfir mikilli nýsköpunargetu. Nú þarf að finna leiðir til að halda því sem áunnist hefur, en líka til að nýta kreppuna til framþróunar. Við getum öll leyst margt jákvætt úr læðingi á nýju ári til að efla starfsfólkið og þjónustuna.

Ég þakka starfsfólki Rafarnarins og viðskiptavinum okkar fyrir trausta samvinnu á árinu sem er að líða og óska þeim velfarnaðar á nýju ári.

 31.12.08 Smári Kristinsson smari@raforninn.is           

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *