Við upphaf ársins 2007


Tími uppgjörs
Um áramót er tími uppgjörs. Guð Rómverja Janus, sem janúar þiggur nafn sitt af hafði tvö andlit og snéri annað aftur en hitt fram. Þetta er tími til að þakka það sem vel hefur gengið og til að skipuleggja áhlaup á það sem betur má fara.
Myndgreiningargeirinn á Íslandi hélt áfram að þroskast á liðnu ári. Á síðustu árum hafa allir aðilar með umsvif sem máli skipta tekið upp stafræna tækni, sem gefur jafnari gæði og hærri framleiðni. Næst í röðinni eru heilsugæslustöðvar og þar er þróunin hafin. Samvinnumöguleikar rekstraraðila hafa gjörbreyst og það hefur breytt landslaginu töluvert og fyrstu uppskiptingu á markaðinum er nú lokið.
Enginn rekstraraðili er kominn í erlent samstarf sem byggir á myndflutningi um nettengingar milli landa. Augljós leið fyrir fyrirtæki í læknisfræðilegri myndgreiningu til að brjótast úr illum fjötrum íslenska ríkisvaldsins er að kaupa heilbrigðisrekstur í nálægum löndum. Því miður brast Evrópuþingið kjark á liðnu ári og var heilbrigðisþjónusta undanskilin nýrri tilskipun sambandsins um þjónusturekstur sem samþykkt var á þessu ári eftir margra ára þóf. Þetta leiðir til þess að samkeppnisstaða heilbrigðisgeirans í Evrópu verðu áfram verulega skert miðað við Bandaríkin og ríkustu hluta Asíu.

Metnaðarleysi yfirvalda
Framfarir í gagnasöfnunar og myndgerðartækni hafa verið geysi miklar síðustu árin og því miður hefur íslenski markaðurinn ekki náð að nýta sér þetta eins og vert væri. Ástæður eru ýmsar en grunnástæðan er steinrunnin ríkisstýring á greininni, bæði þeim hluta sem ríkið rekur beint og þeim hluta sem er rekinn af einkaaðilum eða sjálfseignarstofnunum. Þannig leið t.d. enn eitt árið án þess að PET tækni væri tekin í notkun hérlendis. PET tæknin er orðin mjög þróuð og er í dag ómissandi þáttur í myndgreiningu. Ef miðað er við bandarískar tölur á Minnu frænku þá ætti núna að gera hér um 1200 PET rannsóknir á ári og árlegur vöxtur ætti að vera um 50%. Í heildina er lítill fókus á sameindamyndgreiningu á Íslandi, en Hjartavernd stóð fyrir áhugaverðri ráðstefnu um þetta svið myndgreiningar í samvinnu við Endurmenntunarstofnun á sl. ári. 

Léleg sjálfsmynd
Samstarf er allt of takmarkað inn myndgreiningargeirans. Áhugi á sameiginlegum árlegum viðburði á Röntgendaginn var t.d. nánast enginn á árinu sem leið. Samstarfsmálin þarf að taka föstum tökum því bæði samkeppni og samstarf eru greininni jafn lífsnauðsynleg til að hún megi þroskast og dafna. Á þessu þarf að verða mikil breyting á nýju ári.

Öryggismál
Þessi árin er alþjóðleg umræða um öryggi í heilbrigðisgeiranum áberandi. Rannsóknir sýna að heilbrigðisgeirinn hefur ekki nýtt sér tiltæka þekkingu og tækni til að gæðatryggja sín verkferli í sama mæli og margskonar framleiðsluiðnaður.
Gæði í þjónustuiðnaði eru að ýmsu leyti öðruvísi en í framleiðsluiðnaði. Í þjónustuiðnaði er framleiðslan afhent jafnóðum og hún verður til, þannig að stór hluti mistaka bitnar beint á viðskiptavininum.
Um allan heim taka stjórnvöld mikinn og beinan þátt í heilbrigðisrekstri. Þetta þýðir að þeir sem hafa orðið fyrir heilsutjóni eða aðstandendur þeirra sem hafa látist vegna mistaka í kerfinu hafa yfirleitt búið við skert mannréttindi. Þá er áberandi sá áróður sem alltaf er uppi í spilltum valdakerfum, að kenna einstaklingum en ekki stjórnunarkerfinu um mistökin sem upp komast. Þessi ómenning var t.d. alsráðandi í gamla Sovét-kerfinu kemur í veg fyrir nauðsynlegar framfarir. (áhugaverð bók um þetta er The Blame Machine: Why Human Error Causes Accidents (Paperback)
by R. B. Whittingham).

Hér á landi hefur lítið farið fyrir þessari umræðu ennþá. Ástæður þess eru flóknar, en fjölmiðlar hafa ekki þorað hefja umræðuna af neinum þunga. Sama á við um öll önnur lönd.

Yfirvöld í öllum vestrænum löndum eru að bæta staðla um verklag og öryggismál í heilbrigðisrekstri og vonast til að með því dragi úr mistökum smátt og smátt. Einstaka rekstraraðilar hafa samt gripið til aðgerða að eigin frumkvæði. Ein mest lesna bókin á því sviði núna  er “The nun and the Bureaucrat” sem lýsir þeim umskiptum sem verða í heilbrigðisrekstri við það að taka upp Toyota gæðakerfi.

Vandinn er hinsvegar sá að heilbrigðisgeirinn er bundinn í fornar hefðir og trú á hetjur og ofbeldisstjórnun. Þar er venjan að öskra vanhæfni á þá einstaklinga sem framkvæma síðustu handtökin sem leiða til mistaka og tjóns, en ekki að leggjast í kerfisgreiningu. Sennilega er “red bead experiment” ekki skyldunámskeið í heilbrigðisgreinum. Nýlega var mistakmál nokkuð áberandi í hérlendum fjölmiðlum. Niðurstaða umræðunnar var að sjálfsögðu krafa um aukið opinbert eftirlit af gamla skólanum. 

Sameiginlegt verklagsregluumhverfi
Myndgreingargeirinn ætti að taka sig saman um sameiginlegar meginlínur í verklagsreglum, einkum þau atriði sem lúta að öryggismálum. Á þessu ættu allir að geta hagnast. Ég tel að þetta sé auðveldast að gera í vefumhverfi með frjálsan aðgang og að fólk geti líka gagnrýnt reglurnar í sama umhverfi. Á þenna hátt hafa orðið til ótrúleg þekkingarsöfn á vefnum en frægust þeirra er Wikipedia.
Dagný Sverrisdóttir geislafræðingur og Viktor Sighvatsson röntgenlæknir hafa á síðustu árum sett upp verklagsregluvef fyrir myndgreiningu í umhverfi sem Raförninn hefur skapað. Gæðavísirinn skiptist í opið svæði, en á því eru öryggisreglur, almennt svæði með verklagsreglum fyrir hefðbundnar röntgenrannsóknir og lokuð svæði sem hvert er einungis opið starfsfólki frá einum rekstraraðila. Á þennan hátt teljum við að komið sé til móts við þarfir allra í greininni fyrir öflugt verklagsregluumhverfi.
Til að örva og styðja þróunina reiknum við með að halda árlegra ráðstefnu um verklagsreglur. Sú fyrsta var haldin nú í byrjun desember og tókst mjög vel.

Ný verkefni

Margt spennandi er framundan á næsta ári. K.Í hefur kynnt áætlun um að taka upp stafræna tökutækni við hópleit að krabbameini í brjóstum. Fyrirtækið hefur leitað til fjármálastofnanna um stuðning til að fjármagna verkefnið. Fyrir liggur að tvær fjármálastofnanir hafa lagt fram fjármuni. Almennt er talið að grein sem birtist í New England journal of Medicine hafi sýnt fram á að stafræn tækni taki filmutækni fram.

Nokkur önnur áhugverð verkefni eru í undirbúningi en aðstandendur hafa ekki enn kynnt þau opinberlega.

Þróun á frjálsri starfsemi
Hjartavernd hefur unnið stórkostlegt frumkvöðlastarf við þróun á áhættumati.
Með þeirri tækni sem nú er fáanleg er verður sífellt áhugaverðara fyrir einstaklinga að fá heilsumat. Mjög spennandi verður að sjá hvernig þeir fjötrar sem hefta svona starfsemi í dag brotna. Vonandi gerist þetta sem fyrst og með þeim hraða sem þarf til að festa nýja þróun í sessi, þannig að löggjafinn sjái þann kost vænstan að styðja þróunina. Hér eru stórkostlegir framtíðarmöguleikar fyrir myndgreiningarrekstur. 

Stuðningur við okkar minnstu bræður og systur
Ég tel mjög áhugavert fyrir íslenskt myndgreiningarfólk að koma upp ráðgjafarstöð í myndgreiningu fyrir WHO (alþjóða heilbrigðisstofnunina) á Íslandi. Okkur býðst að gera þetta og við eigum að grípa tækifærið.
Þróunarstarf býður bæði upp á faglegar áskoranir og tækifæri til aukins persónulegs þroska. Um þetta ættu allir að geta sameinast.
Það er ótrúlega gefandi að fá að beita sinni þekkingu við aðstæður gjörólíkar því sem við eigum að venjast. Hvort slík verkefni skila síðan varanlegum árangri til þeirra sem hjálpa á er með öllu óljóst en okkur ber skylda að gera okkar besta til að stuðla að bættri heilbrigðisþjónustu í fátækum löndum. Fyrir því eru margskonar rök en ein eru þau að okkur var hjálpað af fórnfúsum erlendum einstaklingum til að koma upp heilbrigðisþjónustu, þegar við vorum þurfandi og fátækt þróunarland.

Ég óska öllum velfarnaðar á nýju ári og þakka af alhug fyrir gefandi samstarf á liðnum árum.

Gleðilegt nýtt ár!
Smári Kristinsson       

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *