#img 1 #Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefur allar götur frá árinu 2001 aukið mjög mikið starfsemi sína á sviði geislavarna við læknisfræðilega myndgreiningu. Á stjórnarfundi IAEA árið 2003 var samþykkt starfsáætlun um þetta verkefni og einn meginþáttur þess var að koma á fót vefsetri um geislavarnir sjúklinga.
Árið 2000 stóð IAEA fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Malaga á Spáni, um geislavarnir sjúklinga vegna notkunar geislunar í læknisfræði. Ráðstefnan þótti takast mjög vel og voru þátttakendur um 1000. Á ráðstefnunni var m.a. ákveðið að leggja til við yfirstjórn IAEA að átak yrði gert á þessu sviði. Tillaga þess efnis var síðan lögð fyrir aðalfund IAEA árið 2002, og voru fulltrúar Íslands í farabroddi þeirra sem studdu tillöguna og varð það til þess að hún var samþykkt.
Starfinu er stýrt af ráðgjafanefnd sem í eiga sæti fulltrúar frá fjölda alþjóðlegra stofnana og fagsamtökum. Nefndin hélt sinn fyrsta fund í byrjun árs 2004 og þar lagði IAEA fram starfsáætlun vegna þessa verkefnis: International Action Plan for the Radiological Protection of Patients, sem unnin var í samastarfi við þessar stofnanir Sameinuðu Þjóðanna: Pan American Health Organization (PAHO), World Health Organization (WHO), United Nations Scientific Committee on the Effects of Atomic Radiation (UNSCEAR). Önnur samtök eða stofnanir sem koma að starfinu eru:
• European Commission,
• International Commission on Radiation Units and Measurements,
• International Commission on Radiological Protection,
• International Electrotechnical Commission,
• International Organization for Medical Physics
• International Organization for Standardization,
• International Radiation Protection Association,
• International Society of Radiation Oncology
• International Society of Radiographers and Radiological Technologists
• International Society of Radiology
• World Federation of Nuclear Medicine and Biology.
Einnig var boðið sérfræðingum frá geislavarnastofnunum Kanada og Svíþjóðar. Á öðrum fundi nefndarinnar í byrjun árs 2006 var sérfræðingi frá Íslandi (undirrituðum) einnig boðið að taka þátt í starfsemi nefndarinnar.
Vefsetrið.
#img 2 #
Vefsetrið er ætlað fagfólki sem starfar með jónandi geislun í læknisfræði, heilbrigðisyfirvöldum í einstökum löndum og sjúklingum. Vefurinn á að vera upplýsingaveita það sem aðgengilegar eru á einum stað eins víðtækar upplýsingar og mögulegt er um geislun og geislavarnir.
Vefurinn byggir í grunnin á því að svara ítarlega algengum spurningum (FAQ) sem upp koma innan einstakra sviða, og er efnisflokkun í takt við notkunarsvið jónandi geislunar, svo sem læknisfræðileg myndgreining, geislameðferð, ísótóparannsóknir, aðgerðarrannsóknir og önnur notkun. Þá er efninu skipt niður á einstaka undirflokka, þannig að undir myndgreiningu (radiology) eru eftirfarandi undirflokkar: standards, radiography, mammography, digital radiography, computed tomography og fluoroscopy.
#img 3 #Ýmsir hlekkir.
Á forsíðu vefsins eru margar flýtileiðir til einstaka svæða vefsins, svo sem “additonal sources” en þar er meðal annars að finna mikið af kennsluefni undir „training“ sem auðvelt er að nálgast og heimilt er að nota án sérstaks leyfi við kennslu og fræðslu. Aðrar áhugaverðar flýtileiðir eru undir fyrirsögninni „special groups“ en þar eru umfjallanir sem snúa að barnshafandi konum og börnum.
Hluti af forsíðu vefsins er lagður undir hlekki á nýjar greinar í vísindaritum sem snúa að geislavörnum. Þá er einnig búið að setja upp hlekk sem nefnist „did you know“ og inniheldur smáumfjöllun um tiltekin áhugaverð atriði.
Vefsíða IAEA er uppfærð að minnsta kosti mánaðarlega. Tilkynningar um uppfærslur eru enn sem komið er, eingöngu sendar til geislavarnayfirvalda í einstökum ríkjum og gert ráð fyrir því að þau láti áhugasama aðila vita. Til þess að fá upplýsingar um uppfærslur um leið og þær gerast er best að fara á vef Geislavarna ríkisins (www.geislavarnir.is) og skrá sig á póstlista stofnunarinnar. Uppfærslur á vef IAEA eru kynntar með fréttabréfi GR sem sent er út vikulega.
Guðlaugur Einarsson
Geislavarnir ríkisins
ge@gr.is