Geislaálag af CT rannsóknum hefur verið mikið til umræðu í myndgreiningarsamfélagi heimsins undanfarið, jafnvel svo að sumum þykir nóg um. Umræða um geislaálag er þó nauðsynleg og þar má ekki gleyma aðgerðarrannsóknum (intervention) og annarri skyggningu. Vefjaskaði er skelfileg birtingarmynd of mikils geislaálags.
Það er algerlega á valdi þess sem stjórnar geisluninni að koma í veg fyrir vefjaskaða af völdum hennar. Ekki er hægt að gera aðrar varúðarrástafanir en að fræða það starfsfólk sem í hlut á og treysta á að það viti hvað það er að gera.
Samkvæmt reglum um geislavarnir er það ábyrgðarmaður viðkomandi búnaðar sem á að sjá til þess að þeir einir framkvæmi röntgenrannsóknir sem eru til þess hæfir á grundvelli viðurkenndrar sérmenntunar.
Skyldur ábyrgðarmanna.
Mig langar að benda sérstaklega á 5. kafla (V. KAFLI) í reglugerð 640/2003, um geislavarnir, þar sem lýst er skyldum ábyrgðarmanna.
Ég vona innilega að allir ábyrgðarmenn geislatækja hérlendis geri sér grein fyrir þessari ábyrgð og sinni skyldum sínum af alúð. Þar verður mér ekki síst hugsað til þeirra sem bera ábyrgð á tækjum sem geislafræðingar og röntgenlæknar vinna ekki við, s.s. á skurðstofum sumra stofnana og í tengslum við hjartalækningar.
Í þessu sambandi er vert að minnast á að ábyrgðarmaður röntgentækja á skurðstofum LSH á Hringbraut hefur gengist fyrir því að fá starfsmann Geislavarna ríkisins til að halda fræðsluerindi fyrir starfsfólk sitt.
Leiðbeiningar um geislavarnir.
Ef skoðaðar eru leiðbeiningar Geislavarna ríkisins um geislavarnir sjúklinga við röntgengreiningu sjást tvær megináherslur sem myndgreiningarfólk þekkir vel; að takmarka skyggnitíma og stærð geislasviðs.
2. kafli – 5. grein: Ávallt skal skyggna í eins stuttan tíma og hægt er.
5. kafli – Reglur um geislavarnir – skyggnistofur – myndataka/skyggning.
4. Mjög mikilvægt er að halda skyggnitíma eins stuttum og mögulegt er. Skyggna skal í stuttum lotum, nota “púlserandi” skyggningu og myndminni.
7. Geislasvið skal ávallt vera eins lítið og frekast er unnt, m.t.t. til þess svæðis sem verið er að mynda og stærðar myndmóttakara. Fjórar geislasviðsrendur eiga að sjást á öllum röntgenmyndum.
Þegar rannsókn eða aðgerð krefst þess að skyggnt sé á sama stað allan skyggnitímann eykst hættan á vefjaskaða og um leið vægi þess að takmarka geislunartímann. Ákveðið geislaálag á sjúkling sem dreifist á nokkur lítil svæði á líkamanum og veldur engum vefjaskaða, getur skaðað vefi ef það lendir allt á sama stað.
Breyttar áherslur hjá Geislavörnum.
Guðlaugur Einarsson, hjá Geislavörnum ríkisins, segir að stofnunin sé að breyta áherslum varðandi eftirlit með notkun tækja sem gefa frá sér jónandi geislun. Meiri áhersla er nú lögð á ábyrgð notenda og gæðaeftirlit. Samhliða því verður ýtt á að til staðar sé hæft fólk og sérhæft.
Einnig mun stofnunin gera kröfur um geislaskammtamælingar við sem flesta notkun og að geislaskammtar sjúklinga verði notaðir til þess að auka gæði vinnunnar á staðnum.
Hér er rétt að benda aftur á reglugerðina okkar allra, 640/2003 frá heilbrigðisráðuneyti, þar sem stendur:
25. gr.
Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að notkun röntgenbúnaðar sé skráð með samræmdum hætti, hvort heldur um skyggningu eða myndatöku er að ræða, á myndgreiningardeildum eða utan þeirra.
Skráning skal vera með þeim hætti að mat á geislaálagi sjúklinga verði eins raunhæft og kostur er, í samræmi við 5. gr. laga nr. 44/2002. Geislavarnir ríkisins gefa út nánari leiðbeiningar um slíka skráningu.
26. gr.
Fyrir allar rannsóknir eða aðgerðarrannsóknir þar sem notaður er búnaður sbr. 90. gr., skal skrá upplýsingar í sjúkragögn sjúklingsins til varanlegrar varðveislu, um lengd skyggnitíma og geislaskammt sjúklings (s.s. flatargeislun (Gycm2)). Í eldri tækjum sem ekki gefa upp geislaskammt skal skrá notuð kV og mA í rannsókninni, fjölda mynda og aðrar upplýsingar sem geta auðveldað mat á geislaálagi sjúklings við rannsóknina.
Fyrirbyggjum geislaskaða.
Samkvæmt upplýsingum frá Geislavörnum ríkisins hefur stofnuninni aldrei verið tilkynnt um atvik sem gæti valdið aukinni geislun á starfsfólk og sjúklinga, sbr. 24. grein fyrrnefndrar reglugerðar.
Vonandi er það svo að vefjaskaði af völdum læknisfræðilegrar geislunar hafi ekki orðið hér á landi. A.m.k. þori ég að fullyrða að allir óska þess að svo verði framvegis.
01.03.10 Edda Aradóttir ea@ro.is