Útdráttur af AuntMinnie 18.02.03


Lauslegur útdráttur úr grein eftir Kate Madden Yee. Lesendur eru hvattir til að kynna sér greinina á AuntMinnie og einnig þær greinar sem vísað er í þar.
Edda Aradóttir, 19.02.03.

Í Bandaríkjunum er nú verið að athuga hvort setja eigi röntgengeisla á formlegan lista yfir það sem telst krabbameinsvaldandi.


Að beiðni stjórnvalda rannsakar National Toxicology Program nú áhrif röntgengeisla. Þar er um að ræða vísindamenn frá mörgum ríkisstofnunum sem hafa með öryggi og heilsu að gera, þar á meðal Food and Drug Administration (FDA). Niðurstaða á að koma fram í skýrslu sem birt verður haustið 2004.


Líkleg ástæða fyrir því að þessi rannsókn er gerð núna er áhugi sem vaknað hefur á notkun tölvusneiðmyndatöku við hópleit hjá einkennalausu fólki. Hjá FDA hafa menn efasemdir um gagnsemi slíkrar hópleitar og samkvæmt skilgreiningu stofnunarinnar er möguleiki á að geislaálag sem fólk fær við rannsóknina geti valdið krabbameini síðar á ævi þess.


Geislaálag af TS rannsóknum er á bilinu 1- 10 mSv og dæmigerð kviðarholsrannsókn gefur um 10 mSv sem getur jafngilt u.þ.b. 500 lungnamyndatökum. Þetta er sambærilegt rúmlega þriggja ára geislaálagi af bakgrunnsgeislun.


Allir eru sammála um að stórir geislaskammtar séu krabbameinsvaldandi. Málið snýst um hvar draga eigi mörkin milli þess sem er „í lagi“ og þess sem eykur hættu á krabbameini.


Margir nota línulegt mat á krabbameinshættu af völdum geislunar („linear no-threshold theory“). Samkvæmt því geta allir geislaskammtar, hversu litlir sem þeir eru valdið krabbameini og áhættan fer því aldrei niður í núll. Aðrir, t.d. Dr. Bernand Cohen við eðlisfræðideild University of Pittsburg, draga þetta í efa og telja áhættuna ofmetna. Cohen fór yfir fjölda rannsókna á áhrifum lítilla geislaskammta og komst að þeirri niðurstöðu að geislaskammtar minni en 10 rad hafi ekki í för með sér neina heilsufarslega áhættu.


Dr. Fred Mettler, prófessor við University of New Mexico, telur mikilvægt að íhuga vel áður en rannsókn með jónandi geislun er gerð hvort raunverulegur ávinningur sé af henni. Einnig að nota sem minnsta geislun í hvert sinn.


Á síðasta ári skrifaði Dr. John Cameron í British Journal of Radiology og lýsti óánægju sinni með að Department of Energy, í Bandaríkjunum, ýtti enn undir geislahræðslu þó niðurstöður rannsóknar á breskum röntgenlæknum styddu sterklega þá skoðun að röntgengeislun í litlum skömmtum hefði jákvæð áhrif á heilsu manna.


Dr. Kenneth Mossman, yfirmaður geislarannsókna við Arizona State University, segir mjög nauðsynlegt að fylgjast með og takmarka geislaálag á bæði sjúklinga og starfsfólk við rannsóknir með jónandi geislun. Hann bætir þó við að formleg skilgreining á röntgengeislum sem krabbameinsvaldandi mundi valda ástæðulausum ótta meðal almennings og jafnvel því að fólk neitaði að fara í nauðsynlegar rannsóknir. „Ef NTP setur röntgengeisla á lista yfir það sem er krabbameinsvaldandi vona ég að þeir flokki að minnsta kosti hverja rannsóknartegund fyrir sig en skelli ekki öllu undir sama hatt“, segir Mossman. “ Ég veit ekki um neitt sem gefur ástæðu til þess að flokka brjóstamyndatöku, lungnamyndatöku, tannröntgen né aðrar rannsóknir með mjög litlu geislaálagi sem krabbameinsvaldandi fyrir mannslíkamann.

By Kate Madden Yee
AuntMinnie.com contributing writer
February 18, 2003




Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *