Upplýsingaleit

 

Í mikilvægum málum eru góðar upplýsingar nauðsynlegar til að mynda sér skoðun, styðja hana og/eða bera fram mótrök gegn þeim sem eru á öndverðum meiði.
Upplýsingaleit á Netinu er ekki flókin.
 


 


Myndgreining er hluti heilbrigðisþjónustu og aðalbrautir okkar fags eru sameiginlegar mörgum öðrum. Þegar lengra kemur nálgast hver upplýsingar eftir sínu áhugasviði.


Eitt af því sem nota má til undirbúnings er þriðja útgáfa bókarinnar „Medical Information on the Internet“ eftir Robert Kiley. Fyrsta útgáfa var skrifuð árið 1996 og hefur þessi bók nýst heilbrigðisstarfsfólki mjög vel. Nýjasta útgáfan, aukin og endurbætt, er… eins og flest annað… fáanleg í gegnum Netið!


Leitarvélar
Leitarvélar (search engines) eru það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar upplýsingaöflun er annars vegar. Einungis þarf að slá inn eitt eða fleiri leitarorð, smella á leitarhnapp eða slá á „enter“, og eins og fyrir töfra birtist listi yfir vefsíður sem þessi orð koma fyrir á. Innlendar
Hérlendis sér
leit.is best um að þjóna fólki og fullyrða má að allir sem nota Netið á annað borð þekki hana. Leit.is er byggð upp á efnisflokkum og undirflokkum sem býður bæði upp á að slá inn leitarorð í þar til gerðan reit en einnig að þræða efnisflokka í leit að því sem mann vantar.Erlendar
Myndgreiningarfólk er oftar en ekki að leita upplýsinga á erlendum vefsíðum og að öðrum leitarvélum ólöstuðum telur undirrituð
Google nýtast best. Þar bjóðast margir góðir möguleikar, settir fram á einfaldan og skýran máta. Með því einu að slá leitarorð inn í reit sem birtist strax og komið er á Google fæst í flestum tilvikum langur listi yfir vefsíður með upplýsingum. Einnig er hægt að smella á Nákvæm leit og setja þrengri skorður með því að nota form sem þar birtist. Til að nýta sér Google enn betur er skynsamlegt að lesa Leiðbeiningar, þar sem farið er yfir notkunarmöguleika, og jafnvel einnig Allt um Google, þar sem við bætist m.a. frekari upplýsingar um Google sem fyrirtæki og þjónustu þess.


Google býður einnig upp á myndaleit og finnur þá myndir eftir leitarorðum á sama hátt og hún finnur vefsíður.


Fleiri leitarvélar eru að sjálfsögðu til, s.s. Infoseek, AltaVista, Lycos, Yahoo, Excite o.fl. Gott getur verið fyrir hvern og einn að prófa sig áfram og velja þá leitarvél sem honum reynist best.


 


Önnur leitarþjónusta


Margskonar þjónustukjarnar þar sem leita má upplýsinga eru til og erfitt að flokka þá undir skiljanleg, íslensk nöfn. Talað er um Web directory / guide / catalog og fleira. Hjá þessum leitarþjónustum er búið að flokka vefsetur eftir efni, í meginflokka og sífellt sértækari undirflokka. Hjá mörgum leitarþjónustum, t.d. Google, Infoseek og hinni íslensku leit.is er hægt að velja um þetta form eða leitarvélarformið.


Leitaraðferðir


Um leit eftir efnisflokkum er fátt að segja. Hún gengur út á að smella á heiti efnisflokka og undirflokka þar sem notandanum finnst líklegast að finna þær upplýsingar sem hann vantar.


Þegar leitarorð eru slegin inn í leitarvél kemur tvennt til greina: Einföld leit eða nákvæm leit (advanced search). Í einfaldri leit er eitt eða fleiri orð, lýsandi fyrir það sem leitað er að, slegið inn í þar til gerðan reit og smellt á leita (search / go / find). Í nákvæmri leit er t.d. hægt að nota gæsalappir til að leita að ákveðnum orðasamböndum („contrast media reaction“) eða stjörnu til að leita að skyldum orðum (radiolog* fyrir t.d. radiology, radiologist, radiologic o.s.fr.). Einnig er hægt að nota sviga til að afmarka það af leitarorðunum sem mest vægi á að hafa í leitinni.


Svokölluð „Boolean logic“ byggir á að nota AND, OR, AND NOT og stundum NEAR. Ef tvö orð eru tengd með AND birtir leitarvélin aðeins vefsíður þar sem þau koma bæði fyrir, OR lætur birta síður þar sem annað hvort (eða bæði) finnst og AND NOT útilokar ákveðin orð. Ef NEAR er sett á milli leitarorða birtir leitarvélin vefsíður þar sem minna en tíu orð eru á milli þessara orða.


AltaVista býður upp á góða möguleika á nákvæmri leit og eins og fyrr var minnst á hefur Google sérstakt form fyrir slíkt. 


 


Gagnagrunnar


Margir góðir gagnagrunnar eru til og hérlendis hefur verið keyptur landsaðgangur að mörgum þeim sem borga þarf fyrir. Til dæmis PubMed – MEDLINE sem flestir kannast við. Aðrir gagnagrunnar sem vert er að nefna eru hinn bandaríski Medical Matrix sem er hreint frábær hafsjór upplýsinga og Hardin Meta Directory. Það þarf að kaupa sér aðgang að Medical Matrix en hann er svo sannarlega þess virði. Á Hardin Meta Directory er hægt að nálgast mikið af upplýsingum án endurgjalds. OMNI er breskur að uppruna og oft gott að blanda upplýsingum þaðan við þær sem bandarísku gagnagrunnarnir bjóða upp á.


Leit í þessum gagnagrunnum byggir yfirleitt á því sem fyrr var nefnt, leitarorðum eða því að fikra sig eftir efnisflokkum.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *