Upplýsingafulltrúi myndgreiningar

Ég er svo heppin að vera ánægð í báðum störfunum sem ég gegni en samt er margt fleira sem ég gæti hugsað mér að leggja fyrir mig. Í dag er draumastarfið að vera upplýsinga- og kynningarfulltrúi myndgreiningar á Íslandi. Taka saman, semja, uppfæra og koma á framfæri kynningarefni fyrir almenning, heilbrigðisstéttir og tæknifólk. Það er talsvert til af þannig efni, en það er dreift og ekki allt aðgengilegt.

Mikið til af upplýsingum
Í fyrsta lagi er mikið af upplýsingum hér á www.raforninn.is, fyrst og fremst fyrir myndgreiningarfólk.
Gæðavísir er eitt af því gagnlegasta sem myndgreiningarstaðir á Íslandi geta notað.
Margir myndgreiningarstaðir eiga sína vefsíðu og oft má finna þar upplýsingar fyrir sjúklinga. Sem dæmi má nefna: Röntgen Domus, Röntgen Orkuhúsið, Landspítala, Krabbameinsfélagið, Hjartavernd, Sjúkrahúsið á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, Heilbrigðisstofnunina í Ísafjarðarbæ og Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Flestar þessar upplýsingar eru gagnlegar og í takt við tímann en því miður finnast líka ónákvæmir og úr sér gegnir hlutir.
Hjá Landlækni eru upplýsingar fyrst og fremst miðaðar við heilbrigðisstéttir og þar er tengill við hinar mjög svo vönduðu “Klínískar leiðbeiningar” um myndgreiningu, á vef LSH.
Doktor.is býður upp á fínar upplýsingar fyrir almenning.
Síðast, en alls ekki síst, ber svo að nefna Geislavarnir ríkisins sem bjóða upp á safn gagnlegra upplýsinga á vefsíðu sinni.

Tækni- og tölvuliðið
Af ofangreindu sést að úr heilmiklu er að moða, helst vantar efni fyrir tæknifólk en sennilega liggur í hlutarins eðli að það notar mest erlendar vefsíður og upplýsingar frá kollegum í öðrum löndum. Mitt hlutverk gæti t.d. orðið að fá grunnupplýsingar frá góðum tækni- og tölvusnillingum og halda þeim í takt við tímann, ásamt því að bjóða upp á gott tenglasafn og upplýsingar um fólk sem hafa má samband við varðandi eitt eða annað.

Vönduð, flott og vel kynnt vefsíða
Hugmyndin væri að halda úti vefsíðu með fræðsluefni og tenglum, sem allar heilbrigðisstofnanir og –fyrirtæki, ásamt skólum, mundu vilja hafa tengil við á heimasíðu sinni. Fjöldi annarra aðila mundi líka hafa áhuga; Geislavarnir ríkisins, Tryggingastofnun, Landlæknir, doktor.is, tannlæknastofur, líkamsræktarstöðvar, bæjarfélög, o.s.fr.
Það þyrfti öflugt kynningarstarf til að gera þessa síðu þjóðþekkta, t.d. ferðir í skóla, heilbrigðisstofnanir og –fyrirtæki, auglýsingar, opnar kynningar, t.d. í verslanamiðstöðvum, erindi á ráðstefnum og fundum, fjölpóst, o.s.fr.

Ekki gleyma þeim sem ekki nota vefinn
Einnig þyrfti að huga að þeim sem ekki nota netið, t.d. með einföldum, hnitmiðuðum bæklingum og upplýsingaþjónustu í síma. Hvort tveggja þyrfti að kynna um leið og vefsíðuna og gera mjög ljóst hvert best er að leita eftir upplýsingum varðandi myndgreiningu.

Framkvæmdin
Þetta eru vangaveltur dagsins hjá mér. Ótal margt er eftir að útfæra áður en þetta gæti orðið að veruleika en erfiðasta spurningin er líklega: Hver ætti að borga brúsann?

07.10.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *