Ungu sjúklingarnir okkar.


Á flestum stöðum hérlendis þarf myndgreiningarfólk að sinna fólki á öllum aldri, börnum og unglingum jafnt sem öðrum. Það er aðeins röntgendeild LSH sem býr svo vel að eiga sérstaka einingu fyrir barnaröntgen. Það er mikilvægt fyrir allt myndgreiningarfólk að huga sérstaklega að ungu sjúklingunum okkar.

Ekki litlir fullorðnir.

#img 1 #Börn eru ekki litlir fullorðnir, við gerum okkur öll grein fyrir því. Líkamsbygging þeirra er önnur og sjúkdómarnir oft aðrir eða gangur þeirra öðruvísi en hjá fullorðnum. Stærsti munurinn er þó á sviði hugans, börn hugsa og upplifa öðruvísi en fullorðið fólk.
Börn/unglingar eru líka geysilega breiður sjúklingahópur,
#img 2 #sem dæmi má nefna allt frá fyrirbura sem vegur e.t.v. 900 g. upp í 18 ára íþróttamann sem vegur 90 kg. og er um það bil að útskrifast úr Menntaskólanum Hraðbraut!

Skil milli þess að vera barn/unglingur eða fullorðinn eru ekki skörp. Það þarf menntun og innsæi til að átta sig á hvar hver og einn er staddur í þroska og, í framhaldi af því, hvað gefst best til að gera myndgreiningarrannsókn sem léttasta fyrir þann einstakling. Almennt myndgreiningarfólk hefur litla menntun á þessu sviði og á oft erfitt, sérstaklega með yngri börnin.
Svo má ekki gleyma því að hverju barni fylgir a.m.k. einn forráðamaður. Fjölskyldu barnsins þarf líka að sinna, gefa upplýsingar og skapa traust og samvinnu.


Áhugaverð grein í RT image.

#img 3 #Í dag rakst ég á grein í RT image, vikublaði á vefnum, þar sem sagt er frá vinnu á barna-röntgendeild. Þar starfa meðal annarra sérstakir „child life specialists“ sem eru sérmenntaðir og þjálfaðir í að hjálpa börnum að skilja og takast á við upplifanir í heilbrigðiskerfinu. Það væri frábært að hafa aðgang að svona sérmenntuðu starfsfólki en þó svo sé ekki er margt sáraeinfalt sem hægt er að gera. Ef myndgreiningarfólk leggur sig eftir því að finna upplýsingar um barnaröntgen er fljótlegt að finna ýmislegt gagnlegt.

Í fyrrnefndri grein tekur Katie Bubser, „child life specialist“ sem dæmi að ef stálpuðu barni (t.d. 4 eða 6 ára) er fengið ákveðið „verk“ að vinna í rannsókninni líði því oft betur og rannsóknin gangi auðveldar fyrir sig. Sem dæmi um verk nefnir hún það að halda höfðinu grafkyrru eða anda djúpt og rólega á meðan talið eru upp að fimm. Sjálf hef ég t.d. beðið barnið að halda hægra/vinstra merki kyrru fyrir mig eða halda sæng eða teppi á sínum stað. Getur virkað ótrúlega vel, líka á þau sem harðneita að vinna verkið, þau verða oft hæðstánægð þegar maður „lætur undan“ og segir að þau þurfi þess ekki!

Katie minnist líka á að nota vindrellu sem barnið blæs á til að fá það til að draga djúpt inn andann og/eða blása frá sér. Snilld! Hvers vegna hefur mér aldrei dottið það í hug? Þá er hægt að fá barnið til að blása nokkrum sinnum, láta það svo draga að sér andann en bíða með á blása á relluna þar til búið er að smella af lungnamynd.
Annað sem mér finnst athyglisvert er að hún mælir eindregið með að fela eins mikið og hægt er af allskyns útbúnaði á stofunni. Breiða yfir hillur með sprautum og skuggaefni og festa stóra, skrautlega mynd á akútvagninn!
#img 4 #

Leitum að ráðum og vinnum saman.
Þó við séum fæst sérmenntuð í barnaröntgen er það engin afsökun fyrir því að dæsa bara yfir því hvað blessað barnið geti grenjað en hugsa ekkert um hvað maður sjálfur getur gert til að minnka líkur á gráti og gnístran tanna. Þetta á líka við um röntgenlæknana, það er ekki eingöngu á ábyrgð geislafræðingsins að halda barninu rólegu. Í greininni í RT image er minnst á syngjandi geislafræðinga og röntgenlækna sem vitna í High School Musical. Mér líst vel á það! 

 22.06.09 Edda Aradóttir. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *