Umsjón og skipulag geislafræðináms

Nú er hafið nýtt skólaár og er það um margt merkilegt fyrir okkur geislafræðinga. Ástæðan er að breytingar hafa orðið varðandi menntun okkar en þetta er fyrsta starfsár nýs sameinaðs háskóla, það er Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík en nýi skólinn heldur síðarnefnda nafninu. Ný geisla- og lífeindafræðiskor hefur svo verið stofnuð við læknadeild Háskóla Íslands.

Jákvætt fyrir þróun fagsins
Við sameiningu THÍ og HR var ákveðið að námið í geislafræði flyttist í Háskóla Íslands og voru helstu rökin fyrir því að mikilvægt er faglega séð fyrir geislafræðina að komast í sama umhverfi, hvað varðar menntun, og þær heilbrigðisstéttir sem við störfum mest og nánast með. Við það getur fagið þróast samhliða þeim og þannig verið í betri takti við þá þróun sem á sér stað innan þessara fræðigreina.

Kennsla hafin í HÍ
Framkvæmd breytinganna á náminu er þannig að þeir nemendur sem þegar hafa hafið nám í geislafræði klára það í Háskólanum í Reykjavík en þar eru nú kennd 2. 3. og 4. ár í geislafræði. Nemendur sem stunda nám og eru á þessum árum munu og útskrifast frá Háskólanum í Reykjavík.
Nú í haust voru í fyrsta sinn teknir nemendur í geislafræði inn í Háskóla Íslands og er kennsla á fyrsta ári þegar hafin. 

Gullið tækifæri fyrir geislafræðinga
Til stendur að ráða geislafræðing til að sjá um námið og hefur staðan þegar verið auglýst. Auglýsingin er á Starfatorgi en umsóknarfrestur er til 26. september 2005. Ég hvet geislafræðinga eindregið til að sækja um því þarna er um að ræða mjög mikilvægt tækifæri fyrir okkur til að koma að skipulagningu menntunar okkar og varðveita þau gæði sem hún felur í sér.

Enginn útilokaður
Auglýst er staða lektors og er miðað við að þeir sem ráðnir eru í slíkar stöður séu með mastersgráðu. Við megum hins vegar ekki gleyma því að ef ekki fæst geislafræðingur með þá menntun í starfið er líklegt að sá sem ráðinn verður fái tækifæri til að afla sér þeirrar menntunar sem upp á vantar.
Þess vegna er mikilvægt að geislafræðingar sem ekki hafa mastersgráðu, en finnst starfið áhugavert, láti það ekki stoppa sig heldur láti slag standa og sæki um.

12.09.05
Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga.
katrinsig@hive.is 
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *