#img 1 #Vísindaritari ICRP hélt fyrirlestur hér á landi 24.01.05. Umfjöllunarefnið var endurnýjaðar grunnleiðbeiningar ráðsins sem eru í vinnslu.
Fyrirlesturinn var á vegum Geislavarna ríkisins og Eðlisfræðifélagsins. Hann var haldinn á ensku, öllum opinn og aðgangur ókeypis, þannig að gaman hefði verið að sjá fleira myndgreiningarfólk á staðnum.
Breytt vinnubrögð ICRP
Dr. Valentin fór yfir aðdraganda þess að verið er að vinna nýjar grunnleiðbeiningar nákvæmlega núna, framvindu verksins og stöðu þess í dag. Hann lagði áherslu á að vinnubrögð við vinnslu þessara leiðbeininga væru mjög ólík því sem verið hefur, því fyrri leiðbeiningar (t.d. ICRP 60) hefðu verið unnar af lokuðum hópi vísindamanna en nú væri aðalatriðið samvinna sem flestra, einnig “almennings” (stakeholders), þ.e. þeirra sem (mögulega) verða fyrir geislun. Að mínu mati er þetta gott dæmi um að Alþjóða geislavarnaráðið vilji taka upp nútíma vinnubrögð og leggja niður úrelta, einhliða valdstjórn.
Í samræmi við þessa stefnu voru drög að nýjum leiðbeiningum sett á vef ICRP í júlí 2004 svo allir gætu kynnt sér þau og sent inn tillögur, spurningar og athugasemdir. Það skilaði 600 prentuðum A4 síðum! Stefnt er að því að fyrsti hluti leiðbeininganna í endanlegri mynd verði tilbúin seint á árinu 2006.
Einfaldari leiðbeiningar
Stefnan er að einfalda ICRP ráðleggingarnar, stytta þær og gera að áhugaverðara lesefni en fyrri rit ráðsins. Einnig sagði dr. Valentin að ekki mættu líða meira en 15 ár milli þess sem allar leiðbeiningar og reglur væru endurnýjaðar, hvort sem nokkuð hefði breyst eða ekki, einfaldlega til að endurvekja áhuga fólks og sjá til þess að efni þeirra falli ekki í gleymsku.
Af máli dr. Valentin að dæma koma nýjar leiðbeiningar ICRP ekki til með að breyta miklu hvað varðar vinnubrögð myndgreiningarfólks. Sem dæmi má nefna að vægistuðlar líffæra breytast lítillega og í heildina má segja að heilsufarsleg áhætta af geislun sé metin ögn minni en við gerð fyrri leiðbeininga. Þessar breytingar eru hinsvegar svo litlar að ekki þarf að gera ráð fyrir breytingum á geislavarnareglum. “Linear-no-threshold” líkanið verður áfram notað sem grunnur í þessum nýju leiðbeiningum.
Réttlætingin áfram mikilvægust
Það sem upp úr stendur er að réttlætingin skiptir áfram höfuðmáli. Setningin sem allt myndgreiningarfólk kannast við “Óþarfa röntgenrannsóknir ber að forðast”, ásamt því að velja þá rannsókn sem líklegast er að gefi svar við spurningu tilvísandi læknis. Ábyrgð á framkvæmd geislavarna hefur þegar verið lögð meira á herðar ábyrgðarmanna á hverjum stað og allt myndgreiningarfólk verður að vera vakandi fyrir því að ekki séu gerðar rannsóknir sem ólíklegt er að gefi nýtilegt svar. Dr. Valentin undirstrikaði að á Íslandi væri mjög lítil bakgrunnsgeislun og geislun í læknisfræðilegri myndgreiningu ætti stærsta hlutann af geislaálagi þjóðarinnar. Hérlendis gæti myndgreiningarfólk því haft mikil áhrif til lækkunar geislaálags.
Ráðleggingar fyrir tilvísandi lækna
Í þessu samhengi er vert að benda á klínískar leiðbeiningar um myndgreiningu, ætlaðar tilvísandi læknum, sem Félag íslenskra röntgenlækna ber ábyrgð á og finna má á vefsíðu Landlæknisembættisins. Slíkar leiðbeiningar eru einmitt mjög mikilvægt framlag til geislavarna og röntgenlæknar þurfa einnig að hafa gott samstarf við kollega í öðrum sérgreinum læknisfræðinnar, í daglegri vinnu. Stundum þýðir það að röntgenlæknirinn þurfi að vera fastur fyrir, t.d. þegar fast er sóst eftir rannsókn sem hann telur mjög ólíklegt að geri gagn varðandi meðferð sjúklingsins eða þegar hann telur allar líkur á að rannsókn með minna geislaálagi gefi sama svar. Einnig þurfa geislafræðingar að vera meðvitaðir um sitt hlutverk í réttlætingu rannsókna. Í því sambandi má benda á fyrirlestur Guðlaugs Einarssonar um það efni, í flokknum „Fyrirlestrar“ hér á vefsetrinu.
Skilaboð dr. Valentin til myndgreiningarfólks voru: Á myndgreiningareiningu (medical imaging department) ert það þú sem berð ábyrgð á geislavörnunum – þú og enginn annar.
Nánari upplýsingar
Mörg af ritum ICRP eru aðgengileg á vefnum, t.d. gegnum Science Direct, og fleiri tengla er hægt að finna í nýlegri fréttatilkynningu frá Geislavörnum ríkisins.
31.01.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is