Tryggingastofnun ríkisins – ekki meir!

 

Tryggingar eru einn af hornsteinum öflugs nútíma samfélags. Þær milda áföll einstaklinga og fyrirtækja. Sumar tryggingar eru skyldutryggingar en aðrar eru frjálsar. Sumar tryggingar eru reknar af ríkissjóði en aðrar af einkaaðilum. Tryggingar eru í dag oft hluti annarar þjónustu, þannig eru flestir með viðbótarheilbrigðistryggingar frá greiðslukortafyrirtækjum sem endurgreiða heilbrigðisþjónustu sem menn þurfa að kaupa á ferðalögum erlendis.

Fjörbrot farlama kerfis
Ríkistryggingarstofnun, eins og TR, er arfur frá gamalli tíð. Slíkar tryggingar ætti ríkið í dag að bjóða út á alþjóðatryggingamarkaði í stað þess að reka eigið tryggingafyrirtæki.
Núna stendur Tryggingastofnun ríkisins (TR) í stórræðum og hefur ákveðið að ganga gegn nýgengnum hæstaréttardómi sem hún tapaði. Með þessu vill hún m.a. afnema að hluta tryggingaréttindi landsmanna og atvinnufrelsi lækna. Hér eru á ferðinni skrautleg fjörbrot farlama kerfis sem sett var á stofn til að tryggja aðgang allra að heilbrigðisþjónustu en sýnir nú vald sitt með því að reyna að hefta þann sama aðgang.
Athyglisvert verður að sjá hvaða stjórnmálamenn og öfl styðja TR í hennar stríði, sem öðrum þræði er einhverskonar örvæntingarliðskönnun, því ef stofnunin kemst ekki upp með sína afarkosti er stutt í að menn átti sig á því að þeir samningar sem hún hefur hingað til gert við sérfræðilækna eru óþarfir. Það eina sem þarf að ákveða er hversu mikið ríkissjóður er tilbúinn að greiða fyrir hin ýmsu læknisverk, en gefa síðan allt verðlag frjálst með þeim almennu reglum og eftirliti sem þar um gilda. Þetta var gert í lyfjageiranum fyrir nokkrum árum og hefur gefist vel. Fáir myndu þar vilja snúa klukkunni til baka. Það fyrsta sem gerðist við aukið frelsi í lyfsölu var að lyfsölur gáfu afslátt af eða felldu niður kostnaðarhlut sjúklings. Þetta þótti sumum fulltrúum heilbrigðisyfirvalda slæm þróun því með þessu væri afnuminn neyslustýring á lyfjum.

Gjaldapólitík og neyslustýring
Nú er það svo í því heilbrigðiskerfi „jafnaðar“ sem við rekum að mikilli orku er eytt í neyslustýringu hjá þeim sem standa illa fjárhagslega. Aðrir virðast ekki þurfa neyslustýringu. Komugjald til sérfræðings, sem hefur verið um 4 þúsund kr, færi í um 7 þúsund kr ef ekki kæmi til niðurgreiðsla ríkisins. Það er augljóst að þessi neyslustýring nær aðeins til þeirra sem verða að neita sér um sérfræðilæknishjálp af því að þeir eiga ekki 4 þúsund kr. Þá hefur með gjaldapólitík verið reynt að stýra fólki inn í heilsugæslustöðvar þótt alls sé óljóst hvort það sé hagkvæmt fyrir ríkissjóð eða til hagsbóta fyrir þá sem þjónustuna þurfa.
Einkareknar læknastöðvar sem bjóða sérfræðiþjónustu hafa eflst mikið á undanförnum árum og hafa verið í fararbroddi við þróun rekstrar sem tekur fyrst og mið af þörfum sjúklinganna og framleiðir góða þjónustu á sanngjörnu verði. 

Breytinga er þörf
Nú er það einkenni stofnana að sýna vald sitt. Eftir því sem þær komast upp með meiri óbilgirni þeim mun betur standa þær og geta aukið sín völd og umsvif. Ekki er hægt að ganga öllu lengra en TR í umboði heilbrigðisráðuneytisins  gerir nú, með því að reyna með öllum tiltækum ráðum að hindra aðgang fólks, og þá sérstaklega þeirra sem eru blankir, að heilbrigðisþjónustu og fella þannig úr gildi lögbundin réttindi þegnanna. Þetta verður erfitt að toppa.
Nú er það svo að aðeins með eðlilegu atvinnufrelsi innan heilbrigðisþjónustunnar getur þjóðfélagið uppskorið eðlilegan arð af þessari atvinnugrein. Til þess að svo megi verða þarf að leggja niður afturhalds- og haftastofnanir á vegum ríkisins, eins og TR, sem fyrir löngu hafa lokið sínu hlutverki og valda samfélaginu óbætanlegu tjóni hvern einasta dag. Hér þurfa forystumenn okkar samfélags að þekkja sinn vitjunartíma. 

05.01.04 Smári Kristinsson.


    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *