Hvað er tómógrafía?
Munið þið eftir tómógrafíu (tomography)? Þeir sem það gera eru líklega álíka gamlir í myndgreiningunni og undirrituð… eða eldri. Tómógrafía er, í örstuttu máli, sneiðmyndataka í láréttu plani þar sem röntgenlampinn hreyfist um öxul, undir ákveðnu horni, á meðan myndin er tekin og útkoman er mynd sem sýnir vefi á fyrirfram ákveðnu dýpi í líkamanum skýrt en allt sem er dýpra eða grynnra „þurrkast út“ vegna hreyfióskerpu.
Ný tækni á gömlum grunni
Þessi tækni er ekki mikið yngri en uppgötvun röntgengeislans, var fundin upp í kringum 1930, en hvarf úr notkun nokkru eftir tilkomu tölvusneiðmyndatækjanna. Nú hefur hún gengið í endurnýjun lífdaga með tilkomu alstafrænu (DR) röntgentækjanna og kallast tomosynthesis. Lengi vel voru brjóstamyndataka og e.t.v. lungnamyndataka einu rannsóknirnar sem talið var skynsamlegt að beita stafrænni sneiðmyndun á en nú er hún talin eiga erindi í mun fleiri röntgenrannsóknir.
Margar tökur gefa efni í sneiðmyndir
Eins og áður byggir tæknin á að röntgenlampinn hreyfist í kringum viðfangsefnið en í stafrænni sneiðmyndun (digital tomosynthesis) er tekin myndaröð, oftast um 70 tökur, með mjög lágum tökugildum á meðan lampinn hreyfist. Þessar myndir eru notaðar til að byggja upp sneiðmyndir sem sýna uppbyggingu líkamshlutans á mismunandi dýpi og undir mismunandi hornum.
Á hefðbundinni röntgenmynd sést í raun allt það sama en engin leið er að sjá á hvaða dýpi hver hlutur er. Á sneiðmyndum úr stafrænni sneiðmyndatöku sjást aðeins hlutir sem eru á völdu dýpi. Dýpt og lögun hlutar er hægt að ákvarða með því að skoða hverja sneiðina á fætur annarri.
Millistig milli hefðbundinna röntgenrannsókna og dýrari aðferða
Þessi tækni er orðin nokkuð þróuð og a.m.k. tveir framleiðendur eru búnir að fá samþykki FDA í Bandaríkjunum og CE merkingu í Evrópu fyrir tomosynthesis tæki og hugbúnað sem nauðsynlegur er. Hugsunin er að stafræn sneiðmyndataka verði einskonar millistig milli hefðbundinnar röntgenmyndatöku og CT, bæði ódýrari og geislaléttari en CT rannsókn en með hærra greiningargildi en hefðbundin röntgenmynd. Í grein hjá Minnu frænku er fullyrt að lágskammta CT rannsókn af lungum gefi 2.5 – 8 mSv en 10 sekúnda tomosynthesis af lungum aðeins 0.77 mSv.
Einnig eru bundnar vonir við að finna með stafrænni sneiðmyndatöku, strax við fyrstu komu á slysadeild, illgreinanleg beinbrot og spara þannig ísótóparannsókn eða MRI, að ógleymdum þeim óþægindum sem sjúklingar með slík brot verða oft fyrir á meðan þeir bíða eftir frekari rannsóknum. Stafræn sneiðmyndataka er auk þess fljótleg og tefur ekki fyrir sjúklingaflæði á myndgreiningardeild.
Vantar íslenskt orð
Ef til vill verðum við innan skamms öll farin að „tómógrafera“ að nýju og í framhaldi af því óska ég eftir að ef einhver þekkir, eða dettur í hug, gott íslenskt orð yfir tomosynthesis þá láti sá hinn sami mig vita.
29.10.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is