Tímamótadómur héraðsdóms – Smári Kristinsson 18.08.03


Tímamótadómur
Héraðsdómur hefur komist að þeirri merku niðurstöðu að læknar megi selja heilbrigðisþjónustu þeim sem vilja greiða hana alla úr eigin vasa. Þannig er dómurinn ekki sammála fulltrúum Tryggingastofnunar ríkisins (TR) sem vilja beita hefðbundinni valdstjórn til þess að hefta eðlilega nútíma heilbrigðisstarfsemi og tryggja ofurtak sitt á markaðinum.
Það er merkilegt að þetta skuli vera deilu- og fréttaefni nú til dags. Fulltrúar kerfisins bregðast ókvæða við og telja vá fyrir sínum dyrum ef ótíndur almúginn getur ráðstafað fjármunum sínum að vild til kaupa á heilbrigðisþjónustu.

Vont er þeirra ranglæti, en verra þeirra réttlæti
Hlutur almennings í heilbrigðiskostnaði hefur aukist jafnt og þétt. Það sem stendur okkur röntgenfólki næst er að nú greiða viðskiptavinirnir um 40% af rannsóknataxtanum. Hvernig ætli það komi við þá sem eru blankir? Er þetta gert til að hefta aðgang fátækra að heilbrigðisþjónustu? Af hverju rekur TR afsláttarkortakerfi sem nýtist aðeins helmingi þeirra sem eiga rétt á því? (Sjá grein í Læknablaðinu, 5. tbl. 89. árg. 2003)
Það sem menn eru að reyna að fela er sú staðreynd að ríkið selur okkur sviknar heilbrigðistryggingar. Fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda, t.d. hjartaaðgerðum, gerfiliðum, augnasteinum, heyrnartækjum o.s.frv., er sett í biðraðir sem “stýrt” er af skömmtunarstjórum heilbrigðiskerfisins. Síðan er settur kvóti á þjónustuframleiðendur í einkageiranum, væntanlega til að geta viðhaldið biðröðunum sem glögglega hefur verið sýnt fram á að valda verulegri sóun og ómældum persónulegum hörmungum. Utan um kvótakerfið er síðan haldið með því ofbeldi sem héraðsdómur hefur nú dæmt ólögmætt. TR ákallar síðan löggjfann til að breyta lögum sér í vil ef dómur héraðsdóms verður staðfestur.  Tilþrifamiklir  valdstjórnartilburðir !!!

Eru menn með réttu ráði?
Samkeppnisstofnun ásakar nú nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins um ólöglegt verðsamráð. Af hverju sakar Samkeppnisstofnun ekki Tryggingarstofnun ríkisins um óráð?

Hlutur stjórnmálamanna
Á meðan stjórnmálamennirnir okkar reyna að telja okkur trú um að þessi fáranleiki sé þeirra besta boð um jöfnuð og réttlæti, bíður fólk sem alla ævi hefur greitt tryggingagjöldin sín bjargarlaust eftir þjónustu. Biðraðir þessar eru mis illa skilgreindar og hver þykist geta tryggt að jöfnuður ríki í biðröðum á fyrirgreiðslulandinu Íslandi?
Má benda þjóðkjörnum fulltrúum okkar á mjög vaxandi einkavæðingu heilbrigðisþjónustu á norðurlöndunum? Þar eru menn að sjá nauðsyn þess að framleiðsla heilbrigðisþjónustu hverfi úr opinberri forsjá. Jafnvel í kommúnistalandinu Kína er mikil uppgangur í einkasjúkrahúsum og einkaheilbrigðistryggingum. Greinilegt er að Ísland er hér fast í fortíðinni.

Það vinnur aldrei neinn sitt dauðastríð
Fyrir nokkrum áratugum stóð ríkisrekstur með miklum “blóma”. Ríkisbankarnir dældu fé í gælurekstur stjórnmálamanna og voru reglulega endurreistir af ríkissjóði eftir þörfum. Áburðar- og sementsverksmiðjur ríkisins störfuðu af miklum krafti og héldu uppi verði á áburði og sementi. Skipaútgerð ríkisins, sáluga, þurfti feita styrki til að standa uppi í hárinu á einkafyrirtækjum á flutningasviði. Svo mætti áfram telja smátt og stórt sem rekið var af íslenska ríkinu. Þetta er nú óðum að leggjast af til mikilla hagsbóta fyrir alla þegna þessa lands.
Markmiðið hlýtur að vera að koma ríkinu út úr öllum rekstri, þar með talið heilbrigðisrekstri, hið fyrsta. Þá gæti heilbrigðisgeirinn náð að sinna sínum skyldum, sem eru að sinna sjúkum þegar þeir þurfa á því að halda og að framleiða hágæða heilbrigðisþjónustu á samkeppnishæfu verði. Það verður aldrei gert undir ríkisforsjá.
Við erum ríkt lítið land og ef okkar heilbrigðisrekstur getur ekki hafið útrás til annarra landa innan skamms þá munu erlend stórfyrirtæki sjá okkur fyrir heilbrigðisþjónustu í framtíðinni. 

Kjarni málsins
Það er almenn samstaða í landinu um almannatryggingar. En er framkvæmd þeirra í samræmi við vilja og réttlætiskennd almennings?
Mestur hluti heilbrigðisrekstrarins er enn í höndum ríkisins, rekinn með tapi og að flestu leyti úr takti við tímann. Mikil áhersla er lögð á “ekki þjónustu” eins og biðraðir og “sumar” lokanir. Hinn almenni borgari er hlunnfarinn, þegar hann í góðri trú greiðir skatta. Hann telur sig eiga að fá bæði fljóta og góða afgreiðslu þegar hann þarf á því að halda og að hann hafi þegar greitt fyrir þjónustuna.
Breytinga er þörf strax! Dómur héraðsdóms er hænufet í rétta átt. Vonandi verða engar mislitar hendur til þess að trufla Hæstarétt.

18.08.03 Smári Kristinsson.
   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *