Þróunarsamvinna


Dr. Harald Ostensen, yfirmaður myndgreingarmála hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), heimsótti okkur í síðustu viku. Erindið var að meta samstarfsfleti WHO og íslenska myndgreiningargeirans. Honum var hvarvetna vel tekið og augljóst að verulegur áhugi er á verkefnum af þessu tagi.

Aukinn áhugi – aukið fjármagn
Þróunarsamvinna nýtur mikillar athygli þessi árin og áhugi á þróunarverkefnum fer vaxandi víða um heim. Þetta þýðir aukna fjármuni frá ríkisstjórnum, fyrirtækjum og einstaklingum. Hvort auknir fjármunir sem varið er til aðstoðar leiða til jákvæðrar efnahagsþróunar í fátækum löndum er með öllu óvíst. Þróunaraðstoð við ríkisstjórnir þriðja heimsins hefur víða leitt af sér aukin ríkisafskipti af atvinnulífinu og verið undirstaða aukinnar spillingar, hnignunar og margskonar hörmunga af mannavöldum.

Styrkja þarf fólk í eigin umhverfi
Margir einstaklingar í okkar heimshluta líta á það sem spennandi leið til aukins þroska að leggja lóð á vogarskálar í þriðja heiminum. Það mun væntanlega færast í aukana að fólk greiði fyrir aðgang að þróunarverkefnum, til að auðga sitt líf.
Ég hef á undaförnum 7 árum starfað lítið eitt við þróunarsamvinnu, aðallega í myndgreiningartækni á Dominca í Karabíahafinu. Ég hef ekki verið sáttur við árangurinn af því starfi, en ég er reynslunni ríkari.
Það sem best reynist er að menn sýni þá auðmýkt að kynna sér aðstæður og möguleika en noti síðan sína þekkingu til að styrkja menntun og framtak heimafólks, ekki síst með því að þjálfa og styrkja þá heimamenn sem stunda kennslu innan myndgreiningarinnar. Mikilvægt er talið að kennslan fari fram á heimslóðum þeirra sem veita heilbrigðisþjónustuna

Nýir samvinnumöguleikar með stafrænni tækni
Um 2/3 mankyns hafa ekki aðgang að nútíma myndgreiningu. Hún hefur þótt dýr og flókin og önnur úrlausnarefni í heilbrigðismálum fátækra landa hafa haft forgang, m.a. af hálfu WHO. Þetta hefur nú breyst, ekki síst vegna þess að stafræna tæknin gefur fyrirheit um meiri og stöðugri gæði, ásamt nýjum samvinnumöguleikum óháð fjarlægð, og í nánustu framtíð verður jafnvel aðgangur að sjálfvirkri greiningu á sjúkdómum eins og berklum.
Ferðalög um þriðja heiminn eru ekki allstaðar auðveld og þar hefur hryðjuverkaógnin haft mikil neikvæð áhrif. Sambönd WHO við stjórnvöld ásamt þekkingu Sameinuðu þjóðanna á að tryggja að val þeirra staða sem þeirra fólk er sent til sé traust. Þess vegna á öryggi þeirra sem starfa á vegum WHO að vera vel tryggt.

Möguleg verkefni í samstarfi við WHO
Ef til samstarfs myndgreiningarfólks á Íslandi við WHO kemur, eru eftirfarandi mál efst á blaði:
Tækniráðgjöf varðandi nýjan myndgreiningarbúnað í þróunarlöndum og rekstur hans
Tækniráðgjöf sem snýr að þróun til að leysa sértæk verkefni, t.d myndflutning um lága bandbreidd eða sjálfvirka myndgreiningu á algengum sjúkdómum.
Kennsla og þjálfun á staðnum (ekki með því að flytja fólk til Íslands).
Útgáfa gæðahandbóka með skýrum verklagsreglum, bæði á pappír og á gagnvirkum vefjum.

Öllu myndgreiningarfólki standa til boða upplýsingar
Raförninn mun á næstu vikum meta þátttöku sína í fyrsta verkefninu í Afríku, eftir heimsókn til Tanzaniu sem nú er í undirbúningi. Spurningin er hvort okkar tækniþekking geti orðið að gagni við að undirbúa sjálfbæra tækniþróun í myndgreiningu fátækra landa. Við munum deila reynslu okkar með öllum þeim aðilum innan greinarinnar sem áhuga hafa.

Ég tel það stórt tækifæri fyrir myndgreingargeirann á Íslandi að geta eignast það sameiginlega verkefni að styðja framgang myndgreiningar í þróunarlöndunum undir merkjum WHO. 

04.09.06 Smári Kristinsson smari@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *