Þróun geislameðferðar – aðkoma geislafræðinga.

Þróun geislameðferðar á næstu árum, aukin aðkoma geislafræðinga.

Úrdráttur úr fyrirlestri haldinn hjá Félagi Geislafræðinga 27. mars 2008.


#img 1 #Þróunin í geislameðferð er mjög hröð í heiminum í dag. Ég starfaði á geislameðferðardeild háskólasjúkrahússins í Lundi í Svíþjóð í rúm 7 ár og tók þátt í hluta af þessari þróun. Hún er að sjálfsögðu einnig hér á landi og langar mig aðeins að fara inn á það af hverju mér finnst nauðsynlegt að geislafræðingar komi meira að geislameðferðinni hér á landi.

Sérnám.
Ég var í 20 eininga sérnámi í geislameðferð í Svíþjóð sem er skilyrði fyrir því að fá vinnu við geislameðferð þar. Verður væntanlega þróunin sú að sama krafa sé gerð til þeirra sem vinna við geislameðferð og undirbúning hennar hér á landi. Nú hefur aðeins hluti þeirra sem vinna við geislameðferð hér á landi lokið sambærilegu námi. 

CT-sýndargeislahermir
#img 2 #
Undirbúningur geislameðferðar fer þannig fram að sjúklingur kemur fyrst á geislahermi þar sem lega hans og stærð meðferðarsvæðis er ákveðin. Síðan fer hann í sneiðmyndatæki þar sem gerð er einföld rannsókn sem tekur u.þ.b. 5 – 10 mín. Eftir það fer sjúklingurinn heim og er þá unnið geislaplan út frá sneiðmyndunum. Sjúklingurinn kemur svo aftur á geislaherminn nokkrum dögum síðar og er þá meðferðarsvæði teiknað á sjúklinginn og röntgenmyndir teknar til staðfestingar. Þróunin á flestum stöðum er sú að gerð er svokölluð “virtual simulation” eða sýndargeislahermun. Þ.e. allur sá undirbúningur sem lýst var hér á undan er gerður á sneiðmyndatækinu. Þetta gerir það að verkum að komum sjúklings fækkar um eina og nákvæmni við undirbúning eykst þar sem færri þættir minnka áhættuna á skekkju, t.d. á milli sneiðmyndatækis og geislahermis. Þessi þróun gerir það að verkum að geislaeðlisfræðideildin verður að hafa mun betri aðgang að sneiðmyndatæki en deildin hefur. Þegar allur undirbúningur fer fram á sneiðmyndatækinu þarf a.m.k. 30 til 60 mínútur fyrir hvern sjúkling. Eins og staðan er nú koma u.þ.b. 4-6 sjúklingar í undirbúning á dag og eykst þörfin stöðugt. Það er því ljóst að ekki verður hægt að bæta þessu ofan á fullt greiningarannsóknaprógram á sneiðmyndatæki röntgendeildar. Þar að auki er undirbúningur fyrir geislameðferð nákvæmnisvinna og er erfitt að vinna undir þrýsting vegna þess að annar sjúklingur þurfi að komast að í tækinu.
Sneiðmyndatæki sem notað yrði á þennan hátt þarf einnig að vera útbúið ytri leisergeislum til nákvæmrar staðsetningar sjúklings, meðferðarborði sambærilegu því sem notað er á línuhröðlunum og það þarf að vera tengt sérstökum hugbúnaði.
Þessi undirbúningstækni kallar á sérhæft starfsfólk til að framkvæma rannsóknina, leggja upp sjúkling og stjórna hugbúnaði.
Til viðbótar þessu má nefna að aukin notkun skuggaefna fyrir sneiðmyndarannsóknir fyrir geislameðferð og búnaður til að gefa öndunarstýrða geislameðferð gerir þessa vinnu ennþá meira krefjandi. Þetta eru atriði sem munu eflaust koma á næstu árum.
#img 3 #

PET-CT-sýndargeislahermir.
Í mörgum nálægum löndum er PET-CT eða jáeindaskanni orðinn staðalbúnaður við greiningu og stigun krabbameins, og einnig við undirbúning geislameðferðar og við mat á meðferðarárangri. Þegar jáeindaskanni er notaður við undirbúning geislameðferðar kemur hann í stað CT rannsókna og gerð er PET-CT-sýndargeislahermun. Þetta eykur enn á nákvæmni við undirbúning geislameðferðarinnar þar sem jáeindaskanninn gefur m.a. möguleika á minnkunn geislareita og þar með er heilbrigðum vef hlíft.


#img 4 #Eftirlitsmyndir við geislameðferð.
Línuhraðlarnir á Landspítalanum eru útbúnir með sérstökum myndplötum, ”portal kerfi”, til að taka háorku röntgenmyndir fyrir og í geislameðferðinni. Myndirnar eru bornar saman við myndir frá geislahermi eða sneiðmyndatæki til að staðfesta rétta legu sjúklings. Samanburðurinn fer oftast fram eftir fyrstu meðferð. Með flóknari meðferðatækni sem gerir kröfu um meiri nákvæmni þarf að gera þennan samburð fyrir meðferðina. Starfsfólk á línuhröðlum þarf því að hafa kunnáttu og getu til að framkvæma þetta mat.
#img 5 #
Nú er hægt að fá nýja línuhraðla útbúna með ”venjulegu” röntgentæki sem hægt er að nota til að gera Cone Beam CT rannsóknir. Þetta eru sneiðmyndir með lægri gæðum en venjulegar sneiðmyndir. Með þessari tækni má staðsetja sjúkling enn nákvæmar en mögulegt er með portal myndum. Þessi tækni hefur ekki komið alveg í staðinn fyrir venjulegar portal myndir þar sem hún er tímafrekari , flóknari og gefur aukinn geislaskammt í sjúklinginn.


#img 6 #Myndirnar þarf að skoða strax og meta hvort geislameðferð skal gefin eða hvort þurfi að færa sjúklinginn til. Matið er ekki alltaf auðvelt og of tímafrekt að kalla á lækni við hvert tilfelli, til ráðfæringar. Starfsfólkið sem vinnur á línuhröðlunum þarf því að öðlast kunnáttu og reynslu til að dæma þessar myndir. Þess er væntanlega ekki langt að bíða að þessi tækni verði kominn í notkun á Geislameðferðardeild Landspítalans.

Vilberg Jóhannesson, geislafræðingur.
Geislaeðlisfræðideild LSH.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *