Þagnarskylda

Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu er bundið þagnarskyldu og má, lögum samkvæmt, ekki gera opinberar neinar persónulegar upplýsingar um fólk sem það sinnir í starfi sínu. En virða allir þagnarskylduna?

Öll viljum við koma vel fram við skjólstæðinga okkar, hjálpa þeim eftir megni og sýna þeim virðingu. Þagnarskyldan er eitt af grundvallaratriðum þess og á sér stoð í lögum, t.d. lögum um réttindi sjúklinga (III kafli, 12. og 13. gr.) og í læknalögum (III kafli, 15. gr.). Þeir sem vinna hjá ríkinu geta einnig séð upplýsingar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (IV. kafli, 18. gr.).

Siðfræðikennsla
Í námi bæði lækna og geislafræðinga er lögð áhersla á siðfræði og góð samskipti við sjúklinga. Kennsluskrár læknadeildar Háskóla Íslands og heilbrigðisdeildar Tækniháskóla Íslands innihalda upplýsingar um skyldunámskeið í fögum sem tengjast þessu efni.
Læknaritarar sem nema við Heilbrigðisskólann fá einnig kennslu í siðfræði, þar sem meðal annars er fjallað um þagnarskyldu.
Myndgreiningarfólk sem ekki er faglært þarf að fá upplýsingar um þagnarskyldu heilbrigðisstarfsfólks um leið og það fær aðrar upplýsingar um réttindi sín, skyldur og starfssvið.

Áhersla á vinnustöðum
Hjá Röntgen Domus er tekið fram í ráðningarsamningi að starfsmaður sé bundinn þagnarskyldu og segir Birna Jónsdóttir, röntgenlæknir, að merking þess sé sérstaklega rædd við hvern og einn áður en hann skrifar undir samninginn.
Einfríður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Röntgen Orkuhússins, segir þar hafa verið útbúið sérstakt eyðublað (textann má sjá hér) sem hver starfsmaður undirritar, eftir að honum hafa verið gefnar upplýsingar um þagnarskyldu, og skuldbindur hann sig þannig til að hafa hana í heiðri.
Myndgreiningardeild Hjartaverndar hefur ákvæði um þagnarskyldu í ráðningarsamningi og segir Sigurður Sigurðsson, yfirgeislafræðingur, að allir sem starfa þar, um lengri eða skemmri tíma, fái upplýsingar um þagnarskylduna og undirriti eyðublað þar að lútandi. Einnig hafa verið haldnir fundir þar sem brýnt er fyrir starfsfólki að gæta þagnarskyldu. Gagnvart þátttakendum í Öldrunarrannsókninni gildir lagaleg þagnarskylda heilbrigðisstarfsfólks en einnig þarf starfsfólk Hjartaverndar að gæta þagnarskyldu gagnvart stofninunni til að vernda t.d. niðurstöður vísindarannsókna.
Hjá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi er einnig til eyðublað varðandi þagnarskyldu, sem starfsmenn undirrita, og þar eru reglulega haldin námskeið fyrir nýtt starfsfólk sem stjórnendur deilda eiga að sjá um að senda sitt fólk á. Á þessum námskeiðum er þagnarskylda meðal annars til umfjöllunar.
Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er tekið fram í ráðningarsamningi að starfsmaður sé bundinn þagnarskyldu og á kynningum fyrir nýtt starfsfólk er fjallað sérstaklega um hana.

Myndgreiningarfólk til fyrirmyndar
Reikna má með að á öðrum myndgreiningareiningum sé starfsmönnum einnig gerð grein fyrir þagnarskyldu og ætti flest, ef ekki allt, myndgreiningarfólk að vera vel upplýst um hana. Stefnum að því að vera fyrirmynd annarra heilbrigðisstarfsmanna í því að virða þessa skyldu.
Það er því miður svo að heilbrigðisstarfsmenn gæta ekki alltaf tungu sinnar nógu vel og víst getur verið freistandi að segja krassandi eða bráðfyndna sögu í góðra vina hópi. Margir virðast telja það í besta lagi svo lengi sem engin nöfn eru nefnd en vegna þess hve íslenskt þjóðfélag er lítið er oft auðvelt að leggja saman tvo og tvo þegar slíkar sögur eru sagðar. Áheyrendum hættir líka oft til að leggja saman þessa tvo og tvo en fá út fimm eða átján og láta söguna síðan halda áfram í þeirri útgáfu, alveg eins og um heilagan sannleik sé að ræða.
Heilsufar, og þá sérstaklega slæmt heilsufar, náungans er mikið áhugamál margra hér á landi og fólk notar ótrúlegustu aðferðir við að nálgast upplýsingar um slíkt. Það er nefnilega ekki aðeins utanríkisráðherrann sem horft er á með áhuga þegar hann sést inni á sjúkrastofnun heldur eru alltaf einhverjir Jónar og Gunnur sem hafa mikinn áhuga á að vita hvað sé að Pétri eða Pálu í næsta húsi og þar sem Pétrar og Pálur þylja ekki sjúkrasöguna í sjónvarpi verða Jónarnir og Gunnurnar að komast að þessu eftir öðrum leiðum.
Við skulum ekki vera ein af leiðunum. 

22.11.04 Edda Aradóttir edda@raforninn.is         

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *