Það væri smart…


…að hafa sem mest af einföldum, aðgengilegum upplýsingum á vefnum, fyrir fólk sem þarf á myndgreiningu að halda. Þar sem frétt dagsins fjallar um Krabbameinsfélag Íslands verður www.krabb.is tekið sem dæmi í þessari grein.

Augu heilbrigðisstarfsmannsins.
Heilbrigðisstarfsfólk á erfitt með að horfa á upplýsingar með augum almennings. Reyndar er það óvinnandi vegur. Um leið og við erum byrjuð að læra fag innan heilbrigðisþjónustunnar öðlumst við þekkingu sem gerir okkur óhæf sem fulltrúa almennings. Upplýsingar sem okkur þykja einfaldar geta verið óskiljanlegar þeim sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn… og við höldum að við séum að standa okkur svo vel í upplýsingagjöfinni!

Eins og áður sagði ákvað ég að nota vef KÍ sem dæmi. Stór hluti upplýsinga sem ég ímynda mér að konur vilji hafa aðgengilegar um brjóstamyndatöku eru á krabb.is, í bæklingnum Leit að krabbameini í brjóstum, sem Krabbameinsfélagið gefur út og var síðast endurskoðaður árið 1998.

Til að takmarka lengd greinarinnar ætla ég aðeins að taka fá dæmi úr bæklingnum:

“…Leit að brjóstakrabbameini beinist fyrst og fremst að því að greina sjúkdóminn meðan hann er enn staðbundinn og viðráðanlegur…”

“…Mjög oft er unnt að sjá brjóstakrabbamein á röntgenmyndum áður en það verður áþreifanlegt. Erlendis hefur verið sýnt fram á að við hópleit með myndatöku fækkar dauðsföllum meðal kvenna sem greinast með sjúkdóminn eftir tíðahvörf. Með tilliti til þessa var í nóvember 1987 farið að bjóða 40−69 ára konum á Íslandi brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti…”

“…Við hópleit eru oftast teknar tvær myndir af hvoru brjósti. Geislaskammtur er svo lítill að krabbameinshætta vegna geislunar er talin hverfandi. Þó þykir almennt rétt að beita myndatöku af meiri varkárni við konur innan við þrítugt, enda er rannsóknin ekki eins næm hjá ungum konum og hinum eldri. Af þeirri ástæðu, og með tilliti til þess að sjúkdómurinn er sjaldgæfur hjá konum undir fertugu, eru þær ekki boðaðar til hópleitar með brjóstamyndatöku…”

“…Sjáist atriði á hópleitarmyndum sem krefjast athugunar er konan endurkölluð til frekari myndatöku og læknisskoðunar. Stundum reynist aðeins um eins konar sjónhverfingar að ræða, sem hverfa á viðbótarmyndum. Að öðrum kosti þarf fleiri rannsóknir, ómskoðun eða fínnálarástungu, sem eru þá yfirleitt gerðar strax. Einstaka sinnum verður að lokum að grípa til skurðsýnistöku til að fá örugga greiningu…”

Augu almennings.
Þetta eru vandaðar upplýsingar og ekki erfitt að vinna úr þeim nokkrar línur sem allir skilja. Stuttan, hnitmiðaðan texta á ofureinföldu máli.
Til dæmis í formi spurninga og svara:

Hvers vegna er konum ráðlagt að mæta í brjóstamyndatöku?
1. Vegna þess að oft er hægt að sjá brjóstakrabbamein á röntgenmynd þegar það er enn lítið. Þá er líklegra að hægt sé að lækna það heldur en þegar það er orðið stærra. 

Hvers vegna er hópskoðunin ekki fyrir konur sem eru yngri en 40 ára?
1.Það er sjaldgæft að konur sem eru yngri en 40 ára fái brjóstakrabbamein.
2. Mjólkurkirtlarnir í brjóstunum sjást meira á röntgenmyndum af þeim heldur en eldri konum. Þess vegna er erfiðara fyrir röntgenlækninn að sjá hvort krabbamein er í brjóstinu eða ekki.

Hvað gerist ef eitthvað óeðlilegt sést á röntgenmynd?
1. Það er hringt í konuna og hún beðin að koma aftur í rannsókn.
2. Þá eru teknar fleiri röntgenmyndir.
3. Oftast er gerð ómskoðun af brjóstinu (stundum kallað sónar).
4. Stundum þarf að taka sýni með því að stinga mjórri nál í brjóstið.
5. Það getur líka þurft að gera litla skurðaðgerð til að taka sýni, en það er mjög sjaldan gert.

Dæmi til umhugsunar.
Þetta eru dæmi, sett upp til umhugsunar. Orðalag þyrfti að sjálfsögðu að vanda mjög, til að líkur á misskilningi væru sem minnstar.

Nútíma „sjúklingur“ vill upplýsingar.

Það sem mig langar að undirstrika er að sjúklingaleiðbeiningar um undirbúning og framvindu myndgreiningarrannsókna eru víða til en það þarf að gera þær “almenningsvænar” og aðgengilegar.
Nútíma viðskiptavinur myndgreiningarfólks, hvort sem hann er sjúklingur eða t.d. heilbrigð kona að velta fyrir sér að taka þátt í hópleit KÍ, er oft mjög vel að sér um sjúkdóm sinn og gerir kröfur um upplýsingar og útskýringar.

Þetta er eitt af því sem gæðastjórar myndgreiningarstaða þurfa að huga að. 

01.06.09 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *