Takmörkun vinnu í rafsegulsviði

Það er full ástæða fyrir myndgreiningarfólk að skoða tilskipun Evrópusambandsins, EU Physical Agents Directive (EMF) 2004/40/EC. Hljómar ekki sérlega spennandi en snýst um nokkuð sem getur breytt vinnu við segulómtæki svo um munar. 

Ráðleggingar ICNIRP
Tilskipunin fjallar um takmörkun á vinnu fólks í rafsegulsviði og var samþykkt árið 2004. Hún kom í kjölfar ráðlegginga um sama efni sem ICNIRP (International Commissionn on Non Ionizing Radiation Protection) gaf út 1993 og voru uppfærðar 1998. Áætlað er að endurskoða þessar ráðleggingar árið 2009 en áður en til þess kemur eiga viðmiðunarmörk úr tilskipuninni að vera komin í lög í þeim löndum sem hún nær til, þar á meðal Íslandi.

Í lög næsta vor
Það er nánar tiltekið í apríl 2008 sem þessi viðmiðunarmörk eiga að vera komin í lög og á síðasta ári var byrjað að vinna reglugerð þar að lútandi, hjá Félagsmálaráðuneytinu, en samkvæmt upplýsingum þaðan var vinnu við hana frestað um tíma. Undirrituð fékk loforð um frekari upplýsingar innan skamms, bæði frá Félagsmálaráðuneyti og Vinnueftirliti ríkisins, en samkvæmt 17.gr. laga um geislavarnir annast Vinnueftirlitið eftirlit og gerir ráðstafanir til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á starfsmenn vegna ójónandi geislunar í samræmi við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglur settar samkvæmt þeim.

Snýr að starfsfólki
Viðmiðunarmörkin taka til starfsfólks, þar á meðal þeirra sem vinna við segulómrannsóknir, en ekki sjúklinga sem þurfa á rannsóknunum að halda. Markmiðið með þeim er að forðast hættu á örvun úttauga vegna rafspennumyndunar og koma í veg fyrir hitun líkamsvefja, en þau eru grundvölluð á in vitro rannsóknum og rannsóknum á tilraunadýrum.
Nýlega birtist grein á vefsíðu EurOhs þar sem fram kemur margt um þetta mál.

Stórfelld áhrif
Hætta er á að vinna við rannsóknir þar sem nauðsynlegt er að vera hjá sjúklingnum, t.d. við rannsóknir á börnum og aðrar rannsóknir þar sem slævingar eða svæfingar er þörf, yrði í langflestum tilvikum til þess að starfsfólkið færi yfir viðmiðunarmörkin. Jafnvel einföld innstillingarvinna eða skuggaefnisgjöf á meðan rannsókn stendur yfir gæti gefið sömu niðurstöðu.
Það lítur út fyrir að ef þessi viðmiðunarmörk yrðu sett í lög gætu afleiðingarnar orðið þær að tölvusneiðmyndatökur yrðu að koma í stað sumra segulómrannsókna og ekki yrði hægt að nota MR tæki með sterku segulsviði í viðkomandi löndum, hvort sem væri við myndgreiningu eða gæðavinnu þar sem phantom eru notuð.
Í British Journal of Radiology birtist grein um rannsókn á vinnu við 1.5 T MR tæki með tilliti til viðmiðunarmarka ICNIRP.

Fylgjumst með
Þetta er mjög athyglisvert mál og European Society of Radiology hefur sent Evrópusambandinu athugasemdir og óskað eftir undanþágu fyrir MR rannsóknir. Ég hvet íslenskt myndgreiningarfólk til að fylgjast með af athygli.
Nokkra gagnlega tengla má finna á vefsíðu fyrirtækisins Narda.
 

28.08.07
Edda Aradóttir
edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *