Tækniháskóli Íslands í sókn


Eins og áður hefur komið fram er öllum velkomið að skrifa greinar til birtingar undir heitinu „Í fókus“. Vegna frétta af fjölda umsókna um nám í geislafræði var deildarforseta Heilbrigðisdeildar THÍ sérstaklega boðið að skrifa fókusgrein.

Dr. Brynjar sendi eftirfarandi texta. Fyrirsagnir eru verk ritstjóra Arnartíðinda.

Tækniháskóli Íslands í sókn 

Metaðsókn í geislafræði
Alls hafa borist 25 umsóknir um nám í geislafræði á komandi hausti og með tilliti til ríkjandi kynjaskiptingar í faginu má minnast á að þar af eru þrír karlmenn. Þrjátíu manns sóttu um í meinatækni og í þeim hópi eru einnig þrír karlmenn.

Vel heppnað kynningarstarf
Þessi aukna aðsókn er í raun angi heilbrigðisdeildarinnar af aukinni aðsókn í Tækniháskólann. Nafnbreytingin sem slík hefur ein og sér haft mikil áhrif. Þar að auki hefur í vetur verið unnið markvisst starf við að gera skólann sýnilegari, m.a. með útgáfu fylgiblaðs með Morgunblaðinu og að senda markpóst á útskriftarnemendur í framhaldsskólum. Einnig er sveifla í þjóðfélaginu í átt frá tískubólufögum eins og viðskiptafræði og tölvufræðum í átt að námi eins og því sem snýr að tækni- og heilbrigðisgreinunum. Nemendur sem hafa leitað til mín um upplýsingar hafa einnig spurt mikið um atvinnuhorfur í greinum en það virðist vera þessu fólki mjög mikilvægt að þær séu góðar.

Deildarráð
Ánægjulegt er að greina nú frá því að Sigurður Sigurðsson geislafræðingur var tilnefndur af Háskólaráði í deildarráð Heilbrigðisdeildar. Þórunn Káradóttir Hvasshovd var kosin varamaður fulltrúa kennara sem er Martha Á Hjálmarsdóttir, sviðstjóri meinatæknisviðs. Óli Barðdal geislafræðinemi var valinn varamaður fulltrúa nemenda í deildarráð. Deildarráð er nokkurskonar framkvæmdastjórn deildarinnar. Aðrir í deildarráði eru Kristín Magnúsdóttir lektor, varamaður Sigurðar, og Freyja Valsdóttir meinatækninemi. Deildarráð samþykkti að þar til annað yrði ákveðið sætu bæði aðal- og varamenn fundi þess, sem skv. reglum THÍ skal halda a.m.k. einu sinni í mánuði.

Sviðstjóri og fagráð
Á síðasta fundi sínum samþykkti deildarráð að ég muni starfa sem sviðsstjóri geislafræðisviðs þar til geislafræðingur fæst í þetta hlutverk. Skv. reglum THÍ skal sviðstjóri jafnfram vera formaður fagráðs. Fagráð hefur með öll fagleg málefni námsbrautarinnar að gera, þar með talið endurskoðun námsefnis ofl., og gert er ráð fyrir að þar komi að verki kennarar, fulltrúar fagfélaga, fulltrúar atvinnulífsins ofl. Þar sem ég er ekki geislafræðingur þótti deildarráði viðeigandi að leitað yrði til Félags geislafræðinga með að skipa formann fagráðs. Svars frá FG er að vænta með haustinu.

Skipulag náms með líku sniði og verið hefur
Allt skipulag náms verður með mjög líku sniði og verið hefur enda er ég ósammála gagnrýnendum námsbrautarinnar um að hún hafi staðið svo veikt þegar að ég tók við henni að leggja hafi þurft hana niður. Ég tók við góðu búi og ekki nein sérstök ástæða til að gera verulegar breytingar í bráð.

Stefnir vel með kennslu
Mönnun kennslu gengur mjög vel. Öll bókleg námskeið á 1. 5. og 7. misseri eru mönnuð og einungis er eftir að fá endanlega staðfestingu kennara á þátttöku í tveimur námskeiðsbútum 3. misseris. Aðkoma geislafræðinga og röntgenlækna verður síst minni en verið hefur og að sjálfsögðu verður haft náið formlegt samráð við Félag geislafræðinga og Félag íslenskra röntgenlækna.

Gæðastarf
Væntanlega verður í byrjun vetrar sett upp Balanced Scorecard fyrir skólann allan og þar með námsbrautina, en það er nýjasta og heitasta aðferðarfræðin í „sjálfsmati“. Gæðastarf allt verður samræmt á fyrir skólann í heild en hver deild ekki með sína eigin aðferðafræði í grasrótinni. Þetta gerir kleift að bera saman deildir, skóla og lönd. Stjórn gæðastarfs og mat ýmiskonar eru einnig betur komin í höndum fagfólks sem fæst aðallega við slíkt heldur en á stigi námsbrautar eða jafnvel deildar. Sá hluti gæðastarfs sem á sérstaklega við um hverja faggrein um sig er svo í höndum fagráðs.

Markviss stefnumótun fyrir THÍ
Stefnumótun og sjálfskoðun skólans alls er í fullum gangi í framhaldi af tveimur tveggja daga fundum úti á landi með öllu starfsfólki. Nýr deildarforseti rekstradeildar, Eggert Tryggvason, hefur í mörg ár unnið að stefnumótun og gæðamálum fyrir fyrirtæki og stofnanir og mun hann leiða þetta starf. Þessir fundir efldu einnig verulega starfsandann í skólanum sem hefur mátt vera betri undarfarna mánuði.
Starfsfólk og stjórnendur THÍ líta björtum augum til framtíðar að breytingatímabili loknu og mikill samhugur er um að nýta sóknarfærin sem nú gefast.


23. júní 2003
Dr. Brynjar Karlsson
Deildarforseti Heilbrigðisdeildar/Dean of Health Sciences
Tækniháskóla Íslands/Technical University of Iceland
Höfðabakka 9
110 Reykjavík
Sími/Tel. +354 577 1400
Fax:+354 577 1401

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *