Tækni og tilfinningar

Á nýliðinni ráðstefnu, STC 2010 sem haldin var á Háskólatorgi, var vinnusmiðjuformið (workshop) nýtt vel. Ein af vinnusmiðjunum var undir stjórn þeirra Kristínar Sólveigar Kristjánsdóttur og Margrétar Dóru Ragnarsdóttur. Yfirskrift hennar var „The Conception of Clinically Functional Software“.
Hvernig skal þá staðið að sköpun hugbúnaðar sem virkar í læknisfræðilegu umhverfi?

Samvinna og aftur samvinna
Samkvæmt þeim Kristínu og Margréti Dóru er lykillinn samvinna og aftur samvinna. Allt frá upphafi til enda… sem enginn er.
Í vinnusmiðjunni var talsvert rætt um „Human factors engeneering“ HFE. Kristín vitnaði í orð Bercun, frá 2005, sem sagði að HFE snerist um „what happens when the technology meets the world and the people in it.“  Aðferðafræðin sem þær stöllur aðhyllast kallast User Centered Design og á uppruna sinn í HFE.


#img 1 #

#img 2 #
Notendur eru arkítektinn

Hugbúnaðargerð í heilbrigðisgeiranum er ekki á ábyrgð tölvugúrúanna einna heldur sameiginlegt verkefni tæknifólksins og læknisfræðifólksins. Strax í byrjun þegar verið er að ákvarða hvað hugbúnaðurinn þarf að geta gert eru notendur ómissandi og þeir halda áfram að vera það í gegnum alla hugbúnaðargerðina. Eins og Margrét Dóra orðaði það: „Notendur eru arkítektinn, sem þarf að vera tiltækur allan tímann sem verið er að byggja“.
Þó byggingartímanum ljúki eru þær Kristín og Margrét ekki á því að sambandið við arkítektinn megi rofna. Þær telja mjög mikilvægt, allsstaðar þar sem læknisfræðilegur hugbúnaður er í notkun, að notendur haldi áfram að láta vita af öllu sem betur má fara og koma með hugmyndir til frekari þróunar.


#img 3 #
Stígum yfir í heim hins aðilans
Þetta hljómar ekki flókið. Af samræðum í vinnusmiðjunni mátti ráða að helstu forsendur fyrir aukinni samvinnu væru hugrekki, virðing og sjálfstraust. Hvor aðili um sig þarf að hafa hugrekki til að stíga yfir í heim hins og bera næga virðingu fyrir honum til að hlusta á hans hlið fordómalaust. Þar á ofan þurfa báðir aðilar að hafa nægilegt sjálfstraust til að hafa ekki áhyggjur af eigin vanþekkingu á sviði hins.

Leggjum saman þekkingu okkar
Það var merkileg upplifun að sitja i vinnuhópi með fólki á aldrinum 25 – 60 ára; hugbúnaðarsmiðum, sérfræðilæknum, starfsfólki heilbrigðisráðuneytisins og Tryggingastofnunar, þar sem fjallað var um aðferðafræði með fínu nafni (User Centered Design) og heyra að það sem fólkið átti erfiðast með var að vera rólegt yfir vanþekkingu sinni á fagi hinna. Tæknifólkinu fannst það vita heimskulega lítið um læknisfræðihliðina, læknisfræðifólkinu fannst það vita heimskulega lítið um tæknihliðina o.s.fr. Sumum hætti til að verja sig með yfirlæti og allir urðu sýnilega fegnir að heyra hina margsögðu staðreynd að enginn getur verið sérfræðingur í öllu. Ég veit eitthvað sem þú veist ekki, þú veist eitthvað sem ég veit ekki en það gerir hvorugt okkar betra eða verra en hitt.
Einmitt vegna þess að við höfum mismunandi þekkingu græðum við svo mikið á að vinna saman.

Merkilegt hvað tilfinningar skipta miklu máli í tækniþróun.

07.06.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *