Tækifærisblinda


Launablinda kvenna staðfest
Nýlega var kynnt sú niðurstaða rannsóknar að konur væru almennt blindar á efstu þrep launastigans og stíga þess vegna aldrei í þau. Ég hef oft ögrað vinkonum mínum með áleitnum spurningum um launamál kvenna og stundum uppskorið sárindi en oftast áhugaverðar pælingar um þessa sérstöku kynbundnu blindu. En nú liggja fyrir nýjar staðreyndir í málinu sem þarf að taka tillit til í framtíðinni (vísindin efla alla dáð).
Upp koma í hugann aðrar blindur, eins og siðblinda, hagsmunablinda, nýjungablinda og áhættublinda. 

Blinda á gildi nýjunga og nýbreytni
Í íslensku máli eru nýungagirni og íhaldssemi álíka neikvæð hugtök. Fyrst þegar ég man eftir mér voru allir sem réðu íhaldssamir. Sýn fólks á breytingaþörf í sínu nánasta umhverfi er að jafnaði slök. Fyrsta dæmið sem ég man að vakti eftirtekt mína var þegar ég var 13 ára og ræddi við gamla konu (sennilega litlu eldri en ég er nú) um íslensku fyrr og nú. Hún kvartaði yfir málfari ungmenna sem væri breytt frá því þegar hún var að alast upp. Ég benti henni á að töluverðar breytingar væru taldar hafa orðið frá máli á landnámsöld til vorra daga og sú þróun hlyti einhvern veginn að halda áfram. Hún taldi að þær breytingar fyrri kynslóða hefðu allar verið til bóta og gert íslenskuna betri og fallegri og að lengra yrði ekki komist í þeim efnum en var á hennar uppvaxtarárum. Svo fer um fleiri að þeirra blómatími er bestur allra tíma og á helst að vara um eilífð.
Er hér kominn grundvöllurinn að íhaldssemi stjórnmála og trúarbragða? 

Breytingaslagurinn
Sumir telja breytingaæði samtímans mestu ógnina við mannkynið og hafa ýmislegt til síns máls. Þegar ég las “Raddir vorsins þagna”, sem unglingur, þá var mér t.d. mjög brugðið. Í dag tel ég hinsvegar að aukin tækni sé svarið við umhverfisvandanum, ekki daður við frumstæða tækni (bílar sem brenna bensíni og olíu er t.d. frumstæð tækni) 
Það hefur lengst af komið í minn hlut að örva breytingar í myndgreiningartækni og -rekstri oft í baráttu við það sem við almennt köllum íhaldsöflin. Ekki er hópur þeirra sem kemur að ákvörðunum orðinn stór, þegar einn eða fleiri geta ekki séð fyrir sér nauðsynlegar breytingar, jafnvel ekki neinar breytingar. Þetta er ekki einsleitur hópur en sameiginlegt með þeim er einhverskonar ótti við þær breytingar sem við hin hlökkum til að takast á við. Vísindin sýna fram á að þessu verður ekki breytt. Hér er um grundvallar eðli einstaklinganna að ræða. Þeir sem að upplagi eru kvíðnir og hafa vanið sig á að beita bölsýnisgreiningu á allar nýjungar geta ekkert annað gert. Á sama hátt geta þeir sem beita bjartsýnisgreiningu ekki vikið frá henni. Ef menn neyðast til að beita annarri nálgun en þeim er eðlislægt hrakar árangri beggja hópa.
Mín reynsla er að þeir bölsýnu sjá ekki skóginn fyrir trjánum og eyða oft svaka orku, bæði sinni og annarra, í smámál, því fjöldi aðila sem þeir vilja spyrja ráða eða atriða sem þeir vilja skoða í hverju máli er endalaus og nothæf úrvinnsla úr þeim ráðum öllum útilokuð. Samtíminn er ekki hlutlaus um þessi mál og yfirleitt er gert gys að bölsýni og bandarískar bjartsýnisbækur flæða yfir okkur þessi árin. Þetta er gryfja sem stjórendur verða að passa sig á.

Skyldur stjórnenda
Fyrir stjórnendur er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim “blindum” sem hver og einn býr við og reyna að þjóna þeirra þörfum fyrir öryggistilfinningu samkvæmt því. Ein leið í því máli er að losa þá svartsýnu undan allri ábyrgð á ákvarðanatöku, sérstaklega í smærri málum, því annars setja þau allt á annan endann vegna daglegra smámuna. Í stórum málum nýtist greiningarárátta þeirra miklu frekar.
Það er skylda stjórnenda að gera sér grein fyrir eðli og þörfum allra einstaklinga og gefa þeim möguleika á að beita sínum aðferðum við þær aðstæður sem þeim henta best þannig að allir geti þjónað hagsmunum rekstrarins sem best þeir geta. Rannsóknir sýna nefnilega að árangur bjartsýnna og svartsýnna hópa er sambærilegur ef allir vinna við þær aðstæður sem henta þeim. Stjórnandinn tekur síðan sína ákvörðun sem eftir það á að gilda þar til önnur ákvörðun breytir henni. Þannig eiga stjórnendur að hagnýta sér bölsýnisfólkið ekki síður en það bjartsýna. 

Fæddur framsóknarmaður!
Ég held að stór hluti trúarbragða heimsins sé saminn af fólki sem engar breytingar vill. Sennilega karlmönnum sem hafa náð þeirri stöðu í samfélaginu sem þeim þykir þægileg og eru blindir á breytingar sem gætu orðið þeim sjálfum  til frekari hagsbóta. Í þessum hópi eru t.d. þeir sem hugsa bara um sína núhagsmuni. Svona hópur frestaði á sínum tíma bráð nauðsynlegri þróun frá landbúnaði til sjávarútvegs í langan tíma á sautjándu og átjándu öld og frestaði þar með auðlegð íslendinga.  Svipaður hópur kemur nú í veg fyrir nauðsynlega  þróun heilbrigðisrekstrar.
Ein tilgátan er því sú að dagleg sýn okkar á nýjungar eða aðra hagsmuni, ráðist af hugarfari sem byggist á því kvíðastigi sem við vorum á þegar hugsunin til úrlausnar daglegum viðfangsefnum mótaðist.
Hér er líklega t.d. komin skýring á hugmyndum eins og “genetiskur framsóknarmaður” því sú skynjun er væntanlega rétt að sumt fólk getur ekki skipt um stjórnmálaskoðun. Almennt má líka álykta að ef um frjálst starfsval sé að ræða þá sæki þeir svartsýnu frekar í starfsemi hjá ríkinu, þar sem störf eru talinn öruggari og breytingahraðinn minni. Það er því skylda eigenda að umbuna stjórnendum þegar þeir taka áhættu ekki síður en þegar þeir sýna varúð annars nær bjartsýnisfólkið ekki að beita sér og svartsýnissjónarmið leggja reksturinn í rúst. 
 09.08.04 Smári Kristinsson.

     

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *