Sýkingavarnir á MR stofum.


Preventing infection in MRI: Best practices for infection control in and around MRI suites, part I

Þetta er heiti greinar sem birtist fyrir örfáum dögum hjá Minnu frænku (auntminnie.com) og er sú fyrsta af þrem um sýkingavarnir á MR stofum. Höfundur lýsir því að í Bandaríkjunum sé þrifnaði í kringum MR tæki oft ábótavant, svo ekki sé meira sagt. Í sumum tilvikum hafi hreingerningafólki verið sagt að fara ekki inn á MR stofurnar en í öðrum þori það einfaldlega ekki að koma nærri vegna allra aðvörunarskiltanna. 

Tækifæri til að skoða málin.
Á Íslandi er þessu ekki svona farið. MR stofur eru þrifnar, á því leikur enginn vafi, en þrátt fyrir það gefa þessar greinar okkur kjörið tækifæri til að skoða sýkingavarnir á MR ofan í kjölinn. Næsta grein í röðinni mun fjalla um aðferðir til að lágmarka sýkingahættu á MR stofum og í framhaldinu mun ég hafa samband við þá myndgreiningarstaði á landinu sem eiga MR tæki og biðja um upplýsingar varðandi sýkingavarnir og hvort á döfinni sé að breyta vinnureglum þar að lútandi.

Gaman væri að heyra frá þessum stöðum fyrr, ef starfsfólk þeirra vill leggja eitthvað til málanna strax.

Fylgist með hjá Minnu frænku og hér á raforninn.is! 

23.06.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *