Eins og minnst var á í grein þann 23. júní síðastliðinn er Minna frænka (auntminnie.com) þessa dagana með á dagskrá þriggja greina flokk um hreinlæti og sýkingavarnir á MR-stofum. Í tilefni af því leitaði undirrituð upplýsinga um þessi mál á MR stofum hérlendis.
Hryllingssögur frá Bandaríkjunum.
Af fyrstu greininni hjá Minnu frænku mátti ráða að víða í Bandaríkjunum væri hreinlæti á MR stofum verulega ábótavant. Í síðustu greininni segir höfundur hryllingssögu af eiginkonu sinni sem var neydd til að leggjast á óþrifinn bekk og fá á sig óþrifinn “coil” eftir að sjúklingur með augljósa sýkingu hafði verið rannsakaður á undan henni. Frúnni var sagt að annað hvort drifi hún sig á bekkinn eða hún fengi enga rannsókn, takk fyrir!
Gott að vera Íslendingur.
Þetta er í eitt af þeim skiptum sem ég þakka Guði fyrir að eiga heima á Íslandi. Þrátt fyrir hátt eldsneytisverð, andstyggilega kalt loftslag, misvitra stjórnmálamenn, rammsnúinn ríkisrekstur og fleira sem mér fellur alls ekki. Við getum verið stolt af myndgreiningarstöðunum okkar og starfsfólkinu sem leggur sig fram um að veita sem allra besta þjónustu, hvernig sem vinnuaðstæðurnar eru.
Frábær viðbrögð við fyrirspurnum.
Ég sendi fyrirspurnir í tölvupósti varðandi þrif og sýkingavarnir á alla staði á landinu sem bjóða upp á MR rannsóknir. Myndgreiningardeild Hjartaverndar er lokuð vegna sumarleyfa en svör frá öllum hinum stöðunum komu innan tveggja sólarhringa. Þetta kalla ég góð viðbrögð og vil nota tækifærið til að þakka MR-fólki innilega fyrir.
Vel að málum staðið hérlendis.
Niðurstöðurnar fylltu mig stolti af að tilheyra hópi myndgreiningarfólks á Íslandi. Á öllum MR stofum sjá einn eða tveir starfsmenn ræstingar alfarið um MR stofurnar og þetta fólk hefur fengið góðar leiðbeiningar, bæði varðandi hættuna sem af segulsviðinu stafar og nauðsyn þess að þrífa vel. Skriflegar leiðbeiningar fyrir ræstingafólk eru þó hvergi fyrir hendi.
Á öllum stöðum er það á ábyrgð geislafræðinganna að fylgjast með þrifum, kalla eftir auka ræstingu ef þarf og þrífa sjálfir það sem er utan verksviðs ræstingafólks. Sérstakur þrifadagur, t.d. einu sinni í viku, er víða.
Aðeins á einum stað er sú regla í gildi að sótthreinsa (spritta) bekk og/eða “coila” milli sjúklinga, ef ekki er grunur um sýkingu. Hinsvegar er allsstaðar fylgst vel með hvort óhreinindi sjást á bekk, púðum, koddum eða “coilum” og þau þrifin samstundis eða skipt um koddaver.
Ef sjúklingur er með einhverskonar sýkingu er allsstaðar gætt vel að sýkingavörnum, plast sett yfir bekk o.s.fr. og allt sótthreinsað að rannsókn lokinni. Almennt er venja að rannsaka sjúklinga með sýkingar í lok vinnudags, ef mögulegt er.
Mikið hreinlæti og góðar sýkingavarnir.
Niðurstaða þessarar mjög svo óformlegu könnunar á hreinlæti á MR stofum hérlendis er sú að við erum vel á vegi stödd. Ef myndgreiningarfólk heldur áfram á sömu braut og gætir þess að sofna ekki á verðinum þurfum við engar áhyggjur að hafa. Líkur á íslenskum hryllingssögum, eins og þeim bandarísku sem birst hafa hjá Minnu frænku undanfarið, eru afskaplega litlar.
07.07.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is