Svuntur og Netið

 
Fyrir rúmum mánuði birtist hér lítil grein um nýtt efni, Demron, í hlífðarfatnað sem ver gegn geislun. Greinin vakti athygli Elke Stahmer hjá Bræðrunum Ormsson og í síðustu viku sendi hún ritstjóra Arnartíðinda bækling um léttan hlífðarfatnað frá Mavig.

Í bæklingnum eru þokkalegar upplýsingar en hvernig sem leitað var fundust þær ekki á netinu. Mavig virðist treysta ótrúlega mikið á pappírinn sem upplýsingamiðil og undirrituð getur alls ekki stillt sig um að benda á að á vefsetri Bræðranna Ormsson er auðvelt að finna allt um Becks bjór en sú deild sem sér um röntgenvörur finnst alls ekki!

NovaLite og Demron

Greinin sem var „Í fókus“ fyrir mánuði inniheldur tengla við vefsíður sem gefa góðar upplýsingar um efnið Demron. Í fyrrnefndum bæklingi frá Mavig er tafla um niðurstöður prófana á efni með vöruheitinu NovaLite sem er unnið úr gúmmíi og 30% léttara en önnur efni sem fyrirtækið hefur notað í röntgenhlífðarfatnað. Þessar prófanir hafa verið gerðar hjá Vinnueftirlitinu í Bayern (Bavarian State Office for Occupational Safety) árið 1996, þannig að ekki er um nýtt efni að ræða. Vinnueftirlitið í Bæjaralandi á sér heimasíðu en ekki tókst að finna skýrslur um þetta efni þar. Af lýsingum og tölulegum upplýsingum að dæma hefur NovaLite svipaða eiginleika og Demron hvað varðar þyngd og geislavörn en ekki er hægt að sjá hvort varmaleiðnin er jafn mikil, þ.e. möguleikar á jafn „svölum“ hlífðarfatnaði og úr Demron. Ekki er heldur hægt að gera sér grein fyrir hvort NovaLite er jafn þjált og Demron. Stóri munurinn er hinsvegar sá að hlífðarfatnaður úr NovaLite hefur verið fáanlegur árum saman en framleiðendur Demron horfa gráðugum augum á hernaðarmarkaðinn og sinna enn ekkert um okkur sem notum geislun í mjög friðsamlegum tilgangi. Vonandi stendur það til bóta sem fyrst því af þeim upplýsingum að dæma sem fáanlegar eru hefur ekkert annað efni jafn marga góða eiginleika í röntgenhlífðarfatnað.
Að sögn Elke Stahmer hafa flestar myndgreiningareiningar á Íslandi keypt hlífðarfatnað úr NovaLite og víst eru myndirnar sem sjá má á vefsetri Mavig kunnuglegar. Það sem kemur á óvart er hversu litlar upplýsingar fylgja með.

Flestir framleiðendur leita léttari efna
Aðspurður sagði Guðlaugur Einarsson, hjá Geislavörnum ríksins, að flestir framleiðendur röntgenhlífðarfatnaðar hefðu lengi leitað leiða til að gera framleiðslu sína léttari en einna helst Mavig og Scanflex orðið ágengt. Scanflex virðist undir sömu sök selt og Mavig, tölulegar upplýsingar eða niðurstöður rannsókna á efnum sem fyrirtækið notar í hlífðarfatnað er mjög erfitt að finna á netinu. Vöruheiti efnisins sem þeir nota í léttan hlífðarfatnað er Xenolite og blýlaust heitir það No-Lead. Um þessi efni fann undirrituð tvær litlar klausur, aðra á síðu sem ber heitið ScaNrad Protection og hina hjá fyrirtækinu APC-cardiovascular. Lestur þeirra skilar nöfnum fyrirtækjanna DuPont og Lite Tech en að leita út frá því gerir aðeins illt verra og netflakkarann enn ruglaðri en áður.

Undarlega litlar upplýsingar á Netinu

Það kemur verulega á óvart hversu lítið þessir stóru framleiðendur virðast sinna upplýsingagjöf á netinu og gefa þannig höggstað á sér fyrir keppinauta sem fylgjast betur með tímanum. Algerlega óvísindaleg leit að slíkum keppinautum leiddi í ljós að einna helst BarRay sinnir þeim viðskiptavinum sem vilja nota netið, á þeirra vefsetri er klausa frá rannsóknastofu Johns Hopkins University, en sárlega skortir tölulegar upplýsingar beint til lesenda.
Ef lesendur Arnartíðinda vita um eða finna síður með góðum upplýsingum varðandi röntgenhlífðarfatnað og rannsóknir á honum eru þeir beðnir að senda í snatri póst til undirritaðrar. Þetta getur ekki verið svona lélegt!

01.09.03 Edda Aradóttir. edda@raforninn.is.

    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *