Svipmyndir frá ECR 2007

Margt var í boði á Evrópuráðstefnu myndgreiningarfólks og Íslendingar úr röðum myndgreiningarfólks skiluðu sér heim með endurnýjaða þekkingu. Hvað skyldi hafa mest gildi fyrir þá sem sækja viðburði eins og ECR?

Eins og sjá mátti á fréttum Arnartíðinda í síðustu viku eru það fyrirlestrarnir sem ber hæst hjá flestum. Í þeim fást upplýsingar um nýjustu rannsóknaniðurstöður og vangaveltur um ýmsar spurningar sem brenna á fólki í faginu.

Samskipti við annað myndgreiningarfólk eru líka flestum mikilvæg. Bæði gefst tækifæri til að skiptast á skoðunum við kollega frá öðrum löndum og einnig verða samskipti við samlanda öðruvísi þegar komið er á stóra ráðstefnu erlendis. Fólk er “fókuserað” á fagið og spjallar mikið um fagmál en einnig verða félagsleg samskipti fólks frá mismunandi vinnustöðum meiri og léttari en heimavið. Myndir frá Höllu Grétarsdóttur og Bryndísi Óskarsdóttur tala sínu máli.

Á www.raforninn.is hefur alltaf verið lögð áherslu á að hugtakið myndgreiningarfólk felur ekki eingöngu í sér röntgenlækna, tæknimenn og geislafræðinga, heldur alla þá sem koma að myndgreiningargeiranum. Læknaritarar eru t.d. stór hópur og á ECR 2007 var einmitt einn fulltrúi þeirra, Arndís Magnúsdóttir, hjá Röntgen Domus. Hún segir ráðstefnuferðir auka fagáhuga læknaritara og voru öryggismál sjúklinga henni efst í huga eftir ferðina.

Smári Kristinsson, hjá Raferninum, sækir margar ráðstefnur, bæði til að viðhalda þekkingu sinni og sinna ráðgjafarverkefnum. Hann er orðinn mjög reyndur í ferðamennsku og nýtir alla tiltæka tækni til að minnka álag á ferðalögum svo hann geti einbeitt sér að fyrirliggjandi verkefnum.

Ein þeirra sem leggja mesta vinnu í símenntun og að vera framarlega í faginu er Birna Jónsdóttir hjá Röntgen Domus. Hjartarannsóknir eiga huga hennar um þessar mundir og hún segir nú hafa opnast fyrir sér nýr heimur þar sem sameindamyndgreining er annars vegar.

Í hópi íslensks myndgreiningarfólks eru einnig þeir sem sjá um sölu og þjónustu allskyns búnaðar og Guðmundur Hreiðarsson hjá A. Karlsson er einn þeirra sem nýta ráðstefnur og sýningar í sínu starfi. Hann spáir breytingum á markaði hérlendis innan skamms, þar sem nýir aðilar fari að hasla sér völl.


Gaman væri að heyra frá fleiri Íslendingum sem sóttu ECR. Hvaða markmið fór fólk með til Vínarborgar og náðust þau?

19.03.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *