#img 1 #Hvað eiga breskur röntgenlæknir og formaður alþjóðasamtaka sverðgleypa sameiginlegt? Jú, saman fengu þeir verðlaun fyrir rannsókn á sverðagleypingum og hliðarverkunum þeirra.
Þessir herramenn eru Dr. Brian Witcombe og Dan Meyer en verðlaunin veitir tímaritið Annals of Improbable Research, sem stendur árlega fyrir athöfn í anda Nóbelsverðlaunaafhendingar þar sem viðurkenningarnar eru veittar fyrir framúrskarandi undarlegar rannsóknir. Einkunnarorð tímaritsins eru: Vísindarannsóknir sem fyrst vekja hlátur en síðan umhugsun.
Röntgenmyndir af sverðagleypingum.
#img 2 #
Það hefur greinilega verið vinsælt í gegnum árin að taka röntgenmyndir af sverðgleypum við vinnu sína og þegar videotæknin kom til sögunnar varð vinsælt að taka röntgen video af þeim sem gleypa sverð og ýmsa aðra hluti sem ekki eru á matseðli venjulegs fólks. Á YouTube er talsvert til af nýrri röntgen video-um af sverðagleypingum.
Reynið þetta ekki heima.
Ég ræð fólki eindregið frá því að læra þessa list en útskýringu á henni (eins og nánast öllu öðru) er hægt að fá á hinni stórsniðugu vefsíðu How Stuff Works.
Hver myndaði Pétur pókus?
#img 3 #Það athyglisverðasta sem ég rakst á í þessu sambandi eru myndir af Íslendingnum Pétri pókus, þar sem hann er röntgenmyndaður við að gleypa sverð. Frá Röntgen Domus fengust þær fréttir að það voru þau Guðmundur Jón Elíasson og Guðrún Friðriksdóttir sem mynduðu Pétur. Þetta var í framhaldi af grein í Séð og Heyrt þar sem myndir birtust af Pétri að gleypa sverð. Mikil umræða kom upp í kjölfarið um að sverðið gengi upp í hjöltun en það var afsannað með myndunum frá Röntgen Domus.
22.01.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is