Svæfing, slæving, dáleiðsla og umhyggja

Einn af fyrirlestrunum á RSNA 2004 bar yfirskriftina “Conscious Sedation in Radiology Practice”. Afrakstur þess að hlusta á hann og taka þátt í umræðum var annar en margir höfðu búist við.

Yfirskriftin vakti strax áhuga minn, vegna þess að í starfi mínu sem geislafræðingur hef ég oft séð slævingu notaða með góðum árangri en því miður einnig þurft að hætta við rannsóknir og gera þær síðar með aðstoð svæfingafólksins.

Mikil þátttaka í sal
Fyrirlesararnir virkjuðu fólkið í salnum mikið, létu mynda vinnuhópa, ræða ákveðin mál og greina frá niðurstöðum hvers hóps. Það má því segja að þetta hafi frekar átt að flokkast sem “workshop” en fyrirlestur. Ég komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að viðstaddir, sem flestir voru bandarískir röntgenlæknar, virtust vera að leita að því sama og ég, góðum aðferðum til að minnka óþægindi sjúklinganna sinna og koma í veg fyrir að þeir hreyfðu sig á rangri stundu. Flestir hölluðust að nokkuð mikilli notkun deyfingar, slævingar og svæfingar.

Dáleiðsla við myndgreiningarrannsóknir
Ég held að við höfum öll orðið jafn hissa þegar dr. Elvira V. Lang fór að gera okkur grein fyrir sinni sannfæringu og aðferðum í þessu efni. Hún notar dáleiðslu í stað deyfilyfja! Gerir ástungur, tekur sýni, setur dren o.s.fr án þess að deyfa, slæva eða svæfa. Við þetta nýtur hún aðstoðar annarra sem sjá um dáleiðsluna og/eða leiðbeina sjúklingnum um sjálfsdáleiðslu. Einn af sjúklingum hennar samþykkti að láta senda út beint í sjónvarpi, í “Good morning America”, þegar skipt var um slöngu inn í nýra hans án þess að nota deyfingu og myndband frá þessum atburði var sýnt á fyrirlestrinum. Nokkuð af upplýsingum má finna á vefsíðu frá RSNA 2004 og samantekt um notkun dáleiðslu við myndgreiningarrannsóknir á 240 sjúklingum má finna í “Lang et al, Lancet 2000:365:1486″. Tímaritið „The Lancet“ er aðgengilegt á netinu en til að lesa útdrætti úr greinum þarf notandanafn og aðgangsorð en skráning er ókeypis, einföld og fljótleg. Áskrift er hins vegar nauðsynleg til að fá fullan aðgang.

Samvinna fagstétta?
Notkun raunverulegrar dáleiðslu er áhugaverð út af fyrir sig. Til dæmis mætti hugsa sér samvinnu myndgreiningarfólks og þeirra sem vinna á sviði geðlækninga. Þessi nýja hugmynd var samt aðeins hluti af því sem fyllti huga minn þegar ég gekk úr salnum. Meirihluti hugsananna snerist um mikilvægi þess hvernig heilbrigðisstarfsfólk kemur fram við þá sem þurfa á þjónustu þess að halda. Dr. Lang talaði um dáleiðslu, á undan henni talaði dr. Michael J. Ludkowski um hin ýmsu deyfi- og svæfingarlyf, á eftir henni talaði dr. Burckhard Terwey um aðferðir til að halda börnum rólegum við myndgreiningarrannsóknir, með áherslu á segulómun. Öll lögðu þau ofuráherslu á að grunnur vel heppnaðrar rannsóknar er góð tengsl starfsfólks og sjúklings.

Umhyggja minnkar deyfilyfjaþörf
Dr. Lang sagði hægt að minnka notkun deyfilyfja um helming með því einu að einhver sitji hjá sjúklingnum á meðan rannsóknin fer fram, tali við hann og sýni umhyggju. Ekki síst ef þess er gætt að sjúklingurinn finni að hann hafi vissa stjórn á aðstæðum, t.d. með því að nota sársauka og streitu skala, t.d. tölur á bilinu 1 – 10, og láta sjúklinginn finna að brugðist sé við ef hann nefnir háa tölu. 

Undirbúningur mikilvægur
Dr. Terwey talaði um mikilvægi undirbúnings, sérstaklega þegar börn eru annars vegar. Hann beindi sjónum nær eingöngu að MR og ráðlagði að myndgreiningarfólkið hitti barnið fyrst annars staðar en á MR stofunni og það fengi að sjá myndband eða skoða tækið áður en rannsóknin færi fram. Eldri börnum og fullorðnum væri hægt að leiðbeina um einskonar sjálfsdáleiðslu þar sem maður stjórnar öndun sinni og býr til róandi sögu í huganum á meðan rannsókn fer fram, í stað þess að hugsa sífellt um að maður verði að vera rólegur. Hann mælti eindregið með því að gera rannsóknir á þeim tíma sem litlu börnin væru vön að fá sér blund, ekki gæfist vel að halda þeim lengi vakandi. 

Framkoma skiptir höfuðmáli
Að mínu mati er kjarninn í þessu öllu að ef myndgreiningarfólk leggur sig í líma við að láta sjúklinginn upplifa myndgreiningardeild sem jákvætt og öruggt umhverfi er oft hægt að komast hjá mikilli deyfingu, slævingu eða svæfingu, jafnvel þótt rannsókninni fylgi talsverð óþægindi. Bæði börn og fullorðna er hægt að tala í gegnum ótrúlegustu hluti og eftir á finnst fólkinu að þetta hafi alls ekki verið svo slæmt. Hin hlið málsins er sú að ef slæm framkoma heilbrigðisstarfsfólks bætist við óþægilega rannsókn getur fólk, líka fullorðið fólk, hvekkst svo illilega að það bíði þess varla bætur.

Sýnum náungakærleik
Við þurfum alltaf að hafa í huga að við erum með fólk í höndunum. Yfirleitt veikt fólk sem er enn viðkvæmara á sálinni en þeir sem njóta betri heilsu. Það er ekki nauðsynlegt að nota raunverulega dáleiðslu til að hjálpa þessu fólki í gegnum óþægilega kafla í lífinu, til dæmis myndgreiningarrannsókn. Möguleikinn er áhugaverður og það var sérstök upplifun að fylgjast með fyrrnefndu myndbandi en mér fannst þetta fyrst og fremst vera sláandi aðferð til að vekja myndgreiningarfólk til umhugsunar um mikilvægi þess að sýna sjúklingunum umhyggju og náungakærleik. Gefum svolítið af okkur, við fáum það margfalt til baka.

10.01.05 Edda Aradóttir  edda@raforninn.is    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *