Í sumarfríinu viljum við njóta lífsins, losa okkur við streitu og byggja upp fyrir næstu vinnutörn. Fríið sem slíkt skapar vissa streitu en hún er ekki öll neikvæð. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir streituvöldum og minnka neikvæða þætti eins og hægt er.
Vanamunstur sparar orku
#img 1 #Verkefni hversdagsins skapa okkur ramma. Við þurfum að sjá um sjálf okkur og sinna ýmsu sem viðkemur fjölskyldu, heimili, skóla, tómstundum og vinnu. Úr þessu verður vanamunstur, rútína, sem sparar orku. Flest gerist nokkuð sjálfkrafa og við þurfum ekki að hugsa mikið um hvað komi næst. Fyrir vikið eigum við inni orku til að takast á við óvæntar uppákomur.
Breytingar krefjast orku
Sumarfrí þýðir breytingar og þá þurfum við að koma okkur upp nýju vanamunstri. Það krefst orku og sá sem er illa haldinn af streitu á e.t.v. alls ekki til aukaorku í það verkefni. Þess vegna er mikilvægt að ganga vel frá öllum málum í vinnunni áður en farið er í frí og gæta þess líka að hendast ekki beint í ferðalag eða annað krefjandi verkefni, heldur taka fáeina daga í að ná áttum. Einnig er mikilvægt
#img 2 #að skoða vel hvernig nota á fríið sem á að vera tími streitulosunar og uppbyggingar. Það er jákvætt að gera eitthvað sem manni sjálfum finnst skemmtilegt og umgangast fólk sem hefur góð áhrif á mann.
Leitin að vellíðan
Vellíðan er dásamleg tilfinning og öll sækjumst við eftir að okkur
#img 3 #líði vel. Ótal markaðsaðilar keppast við að selja okkur eitthvað sem á að tryggja vellíðan í sumarfríinu en það er engin gulltrygging að fara til Lanzarote eða Ástralíu, það eru í raun jafn miklar líkur á að upplifa þessa sérstöku tilfinningu á sínum eigin sólpalli eða uppi í rúmi með góða bók og rigninguna grenjandi fyrir utan. Það er ekki til nein ein allsherjar uppskrift að góðu sumarfríi, uppskriftirnar eru jafn margar og fólkið sem fer í frí.
Verjumst streitupúkanum
Hver og einn þarf að gera sér grein fyrir eigin væntingum og aðstæðum sem hafa áhrif á
#img 4 #líðanina, taka síðan skipulega á málunum og undirbúa sig þannig að streituvaldarnir vinni ekki sigur. Í sumarfríinu, eins og aðra daga, snýst málið um að þekkja sjálfan sig og eigin viðbrögð og eiga svo uppi í erminni nokkur góð ráð til að nota þegar streitupúkinn er orðinn heldur fyrirferðarmikill á öxlinni. Stundum sigrar púkaskömmin samt og þá er lífsnauðsyn að geta brosað að takmörkunum sínum og lært af reynslunni. Þannig má gera betur næst.
Hafa skal ráð þó heimskur kenni
Ýmsar mjög einfaldar ráðleggingar geta gagnast vel, jafnvel þótt þær kunni að sýnast hálf kjánalegar við fyrstu sýn. Þær má meðal annars finna á vefnum, eins og svo margt annað:
7-Things-to-Try-on-a-Summer-Holiday-to-Help-Reduce-Your-Stress
How-to-protect-your-relationship-on-holiday-and-have-a-stress-free-break
Kidsdomain.com/holiday/summer/
Raunhæfar væntingar
#img 5 #Ekkert sumarfrí er eintómur dans á rósablöðum, það verður einn og einn þyrnir á vegi okkar líka. Væntingar þurfa að vera raunhæfar, til dæmis hverfa samskiptahnökrar í fjölskyldum ekki í sumarfríum, ef eitthvað er
#img 6 #verða þeir meira áberandi. Gott ráð getur verið að gera öllum grein fyrir því fyrirfram að hver og einn eigi að fá eitthvað fyrir sig og af því leiði að einhverjir þurfi að gefa eftir, a.m.k. um stund… börn og unglingar líka. Í framhaldi af því þarf náttúrulega að gæta þess að hver og einn fái raunverulega eitthvað fyrir sig, líka litla prinsessan sem vill bara vera inni í dúkkuleik þó sólin skíni og hestamaðurinn sem finnst ekkert dásamlegra en að öll fjölskyldan komi með að moka skít!
Endurnærð til vinnu
#img 7 #Sumarfrí hafa áhrif á okkur, bæði andlega og líkamlega. Þegar komið er úr löngu fríi og jafnvel utanlandsferð er fólk búið að koma sér upp öðru vanamunstri en hversdagurinn þarfnast og mikilvægt að eiga tíma, jafnvel nokkra daga, til að vinda ofan af sér áður en aftur er lagt á haf atvinnulífsins, endurnærður eftir gott frí.
12.07.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is