Sumarfrí

Sumarfrí á vesturlandi:

Hvalfjörður getur verið ágætis byrjun því það er býsna gaman að aka fyrir hann, nú þegar maður neyðist ekki til þess. Svo er hægt að staldra við og ganga upp með Botnsá, að Glym sem er hæsti foss landsins.


Akranes hefur upp á margt fleira en fótbolta að bjóða og þó þar sé íþróttasafn er safnið Steinaríki Íslands ekki síður áhugavert, til dæmis margt sem þar er til um hjátrú tengda steinum.


Hamar, hús golfklúbbs Borgarness má kalla eina golfhótelið á landinu. Upplagt fyrir golfara að gista þar… og reyndar aðra líka, en það er allt gert til að veiða þá í golfið!Sumarfrí á Snæfellsnesi:
Snæfellsbær
er með fínar upplýsingar á sinni síðu. Það þarf að smella á Fyrirtæki og Ferðaþjónusta og þar með getur fólk fengið að vita næstum allt sem því dettur í hug. 
Leiðarljós á Hellnum er umhverfisvænn ferðaskipuleggjandi. Hjá þeim er meðal annars boðið upp á gönguferðir milli Hellna og Arnstapa, þar sem ekið  er til baka á upphafsstað, en ef fólk hefur orku og tíma til að rölta báðar leiðir meðfram ströndinni er það vel þess virði. Agnarlítið kaffihús niðri í fjöru, Fjöruhúsið, er nauðsynlegur viðkomustaður.


Snjófell hefur bækistöð að Arnstapa og er búið að útbúa skíðasvæði í sunnanverðum Snæfellsjökli. Þar sem snjóinn hefur vantað næstum allsstaðar þennan veturinn væri ef til vill athugandi að taka nokkrar ferðir á jöklinum.


Löngufjörur eru alveg stórfenglegt svæði en best að gæta sín því það fellur ótrúlega fljótt að þar sem svona aðgrunnt er og maður getur orðið á flæðiskeri staddur ef illa fer.


Temple Spa er það nýjasta á Stykkishólmi. Fyrirtæki í eigu bæjarins og nokkurra fjárfesta sem býður upp á helgardvöl með námskeiðum og ýmsu heilsusamlegu. Flottur kostur ef streitan er alveg að fara með fólk.Sumarfrí á vestfjörðumr:
Vestfirdir.is
. Það þarf ekki að segja neitt meira!

Sumarfrí á norðurlandi vestra:
Hofsós skartar Vesturfarasetrinu sem stendur fyllilega undir orðspori. Þar er gaman að koma og aldrei að vita nema maður uppgötvi möguleika á frændfólki fyrir „westan“.


Blönduvirkjun er einstakt mannvirki og næstum nauðsynlegt að koma þar einhverntíma. Fyrir íþróttafólkið er vert að benda á að hægt er að láta taka tímann á því hversu lengi maður er að hlaupa upp stigann úr stöðvarhúsinu og uppi er listi yfir þá bestu.


Siglufjörður er skemmtilegur lítill bær og þó fólk hafi ekki minnsta áhuga á síldarminjasafni og hvað þá heldur verslunarmannahelgarslarki er margt í boði. Þeir sem ætla að eignast sumarbústað ættu að athuga hvort ekki er hús til sölu á Sigló.Sumarfrí á norðurlandi eystra:
Akureyri
á slagorðið „öll lífsins gæði“ og þar er mjög gott að hafa bækistöð í lengri tíma, til dæmis í sumarhúsi, og ferðast út frá bænum. Í björtu veðri er frábært að fara í Vaglaskóg sem er einn af fáum „frumskógum“ á Íslandi. Þar er alltaf skjól fyrir bannsettri hafáttinni og hægt að sleikja sólskinið í ró og friði.


Mývatn ehf er dæmi um ferðaþjónustuaðila sem virkilega er að vanda sig og notar frumlegar hugmyndir til að kynna eina af þekktustu náttúruperlum Íslands.  


Jökulsárgljúfur eru álíka perla og ekkert meira um þau að segja.

Sumarfrí á austurlandi:


Egilsstaði er gott að nota sem bækistöð á ferð um austurhluta landsins. Ferðaþjónusta bænda býður einnig upp á marga góða gististaði, jafnt á austurlandi sem annarsstaðar. Fyrir þá sem langar í jeppaferð er tilvalið að skreppa í Loðmundarfjörð, hæfilega skelfileg leið og glæsilegt umhverfi.Sumarfrí á austfjörðum:
Kárahnjúkavirkjun
 er umdeild og þess vegna spennandi að koma sér sem næst svæðinu og velta framkvæmdum þar fyrir sér.


Fransmenn á Íslandi getur maður fræðst um á Fáskrúðsfirði. Sérstaklega áhugavert fyrir dökkhærða og dökkeyga fólkið!


Jöklasýning á Höfn er fínt þema í stutta ferð því ekki er eingöngu um að ræða sýningu á einum stað heldur tengjast henni merktir staðir um allt sveitarfélagið og þeir sem vilja geta skoðað það mark sem Vatnajökull setur á svæðið.Sumarfrí á suðurlandi:
Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
 eru meðal annars með þjónustu í Skaftafelli og ef einhver hefur enn ekki komið í þjóðgarðinn er best að drífa sig strax í sumar.


Veiðivötn á Landmannaafrétti er virkilega vert að skoða og þar er hægt að gista og veiða gegn tiltölulega vægu gjaldi.


Sögusetrið á Hvolsvelli er dæmi um „túristagildru“ sem er alveg þess virði að ganga í hana… þ.e.a.s. ef fólk hefur áhuga á Íslendingasögunum. Vefsíðan er svolítið brjálæðisleg en er það ekki bara við hæfi?


Hveragerði er ekki aðeins staður til að kaupa grænmeti og ís. Það eru til dæmis fallegar gönguleiðir innanbæjar sem tengjast leiðum í nágrenninu og því auðvelt að velja þá vegalengd sem manni hentar. Sumarfrí í Vestmannaeyjum:
Eyjarnar
 bjóða upp á margvíslegar skemmtun og sigling með Herjólfi er ævintýri út af fyrir sig.Sumarfrí á suðvesturlandi:
Hellarannsóknafélag Íslands hefur skipulagt ferðir fyrir sína félagsmenn um svæðið á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur, þar sem eru margir hraunhellar. Getur verið gaman að skoða þó maður hafi ekki kjark í að síga, klöngrast og troðast.

Reykjavík er borgin okkar allra en því miður eru helstu heildarupplýsingar um hana á ensku. Það er einnig hægt að skoða ótal íslenskar síður, allt eftir því eftir hverju fólk er að sækjast.Sumarfrí á Íslandi:
Fyrir þá sem eru í ferðahug er sérstaklega bent á vefi Ferðamálaráðs Íslands.
Ferdamalarad.is er samskiptavefur ráðsins, með allrahanda gagnlegum upplýsingum.
Icetourist.is er hins vegar forláta gagnagrunnur um næstum alla ferðaþjónustuaðila á Íslandi.03.04.03 Edda Aradóttir.  


                        

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *