Sumardagurinn fyrsti

 
Sumardagurinn fyrsti er fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl og getur því borið upp á dagana 19.-25. apríl. Árið 2006 er hann 20. apríl, næstkomandi fimmtudag.

Sumargjafir eldri en jólagjafir

#img 1 #Samkvæmt bókinni Saga daganna, eftir Árna Björnsson, er getið um fyrsta sumardag þegar í elstu heimildum. Vikan var helsta tímaeining í gamla íslenska tímatalinu, og segir Árni það geta valdið nokkru um að nafn fyrsta sumarmánaðar, Hörpu, er ekki þekkt fyrr en frá 17. öld. Sumargjafir eru hinsvegar þekktar frá 16. öld og er sá siður mun eldri en að gefa jólagjafir. 




Heiðin hátíð “endurnýtt”

Í heiðnum sið voru haldin sumarblót og líklegt er að Íslendingar hafi alltaf gert sér
#img 7 #dagamun í mat og drykk á sumardaginn fyrsta, eftir efnum og ástæðum. Heiðin vorhátíð var til í flestum Evrópulöndum. Hún rann saman við páskana en heldur í mörgum löndum nafni dregnu af orðinu austur – oster, easter – sem vísar til sólaruppkomunnar. Það er því eins með páskana og jólin, margir halda því fram að kirkjan hafi “laumað” sínum trúarhátíðum inn á fólk með því að láta þær koma í stað gamalgróinna hátíða frá heiðnum sið.

Alltaf hátíðsdagur á Íslandi
Á Íslandi hefur þessi hátíðisdagur haldist og frá fornu fari tíðkaðist að vinna ekkert á sumardaginn fyrsta nema nauðsynjastörf eða táknræn sumarstörf. Börn nýttu daginn til leikja og mjög víða tók fullorðna fólkið þátt í leikjunum. Vinnumenn og -konur fengu frídag, nema þau sem sáu um skepnuhald, þau fengu það endurgoldið á einhvern hátt. Hjúin fengu árskaupið sitt þann dag fyrir utan það sem hafði farið í föt eða annað slíkt.


#img 3 # 
Guði sé þökk fyrir vorkomuna
Víða var messað á sumardaginn fyrsta til miðrar 18. aldar en dagurinn er ekki messudagur samkvæmt alþjóðlegum reglum. Stjórn hins danska ríkis þótti ekki við hæfi að messað væri í tilefni hátíðar sem á sér svo áberandi heiðnar rætur og var messuhald bannað sumardaginn fyrsta með tilskipun frá Danakonungi árið 1744. Húslestrar héldust mun lengur og eins tíðkaðist að húsbóndi eða húsfreyja vekti heimilisfólk með sálmasöng að morgni sumardagsins fyrsta. Nú á dögum er ekki algengt að messað sé á sumardaginn fyrsta, sennilega vegna nálægðar hans við páskana, en sumsstaðar, sérstaklega til sveita hefur myndast sú hefð að halda fermingarmessur þennan dag. 

Skrúðgöngur í snjónum

Í “Saga daganna” segir að samkomuhald á sumardaginn fyrsta hafi byrjað í sveitum og
#img 2 #bæjum seint á 19. öld. Eftir aldamót tengjast þær ungmennafélögunum, en frá þriðja áratugnum hefur dagurinn verið helgaður börnum með skrúðgöngum, skemmtunum og útgáfustarfi. Fyrsti „barnadagurinn“ var í Reykjavík árið 1921. Enn er dagurinn lögboðinn frídagur og skipulögð hátíðahöld í flestum sveitarfélögum.

Sumardagskökur

#img 4 #Á árum áður voru sérstakar sumardagskökur bakaðar víða, einkum á norðurlandi, og eiga sér væntanlega sömu rætur og laufabrauðið sem er svo táknrænt fyrir jólahátíðina. Sumardagskökurnar voru hnoðaðar úr möluðu bankabyggi og oft þrýst á þær mynstri með útskornum mótum. Þær voru síðan bakaðar á plötu sem lögð var yfir glóð. Þessar kökur voru hluti matarskammtar dagsins, ásamt hangikjöti, harðfiski og smjöri.
“Sumardagskökur” er girnilegt hugtak og undarlegt að bakarar skuli ekki nýta sér að útbúa sérstakt bakkelsi fyrir þennan hátíðisdag. Væri ekki snjallt að halda samkeppni meðal bakara og dreifa svo verðlaunauppskriftinni í öll bakarí? Búa til hefð? Ekki svo vitlaus hugmynd. Stórum betri en að innleiða Valentínusardag og Hrekkjavöku þegar við eigum Bóndadag, Konudag og Öskudag.

Sannur vorboði

Ýmis þjóðtrú tengist sumarkomu og kannast t.d. margir við að viti á gott ef sumar og vetur „frýs saman“ aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Veðurfræðingar sjónvarpsstöðvanna
#img 5 #minnast margir á þetta og víst er gott að hafa þessa trú þegar fólk vaknar í hörkufrosti og hríð á sumardaginn fyrsta. Bjartsýni og vorhugur eru þó svo sterk í þjóðarsálinni þennan dag að í raun skiptir ekki máli hvernig ástand veðurs og náttúru er. Sumardagurinn fyrsti er óumdeildur vorboði, rétt eins og lóan. “Harpa vekur von og kæti, vingjarnleg og kvik á fæti”, segir í gömlu kvæði um nöfn mánuðanna.

Höldum upp á daginn
Sumardagurinn fyrsti er alíslenskur hátíðisdagur sem á sér langa sögu. Mér finnst full ástæða til að gera honum hærra undir höfði og endurnýja þann léttleika og kæti sem
#img 6 #fylgdi honum áður fyrr. Skrúðgöngur og ávörp í sama stíl og á 17. júní henta yfirleitt illa veðurfarinu á þessum árstíma og hafa reyndar aldrei fallið verulega vel í kramið hjá íslendingum. Við getum hinsvegar öll fundið vorið innra með okkur og gert eitthvað skemmtilegt, minnug þeirrar speki að maður hættir ekki að leika sér vegna þess að maður verður gamall heldur verður maður gamall vegna þess að maður hættir að leika sér! Gefum sætar sumargjafir, setjum upp sumarbrosið, byrjum að skipuleggja sumarfríið og hleypum sumrinu inn í sálina.

Geislandi sumarkveðjur úr snjónum fyrir norðan! 
18.04.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *