Stigun á krabbameini í endaþarmi með segulómun

 
Segulómun (SÓ) gegnir mikilvægu hlutverki í stigun á krabbameini í endaþarmi. Á LSH er SÓ gerð á flestum sjúklingum sem greinast með sjúkdóminn.

Krabbamein í ristli og endaþarmi eru oftast kirtilkrabbamein (adenocarcinoma). Hið dæmigerða illkynja æxli í endaþarmi á uppruna sinn í kirtilþekjunni (mucosa) og vex með ífarandi hætti gegnum þarmavegginn. Æxlið vex síðan út í meso-rectal vefinn (að mestu fituvefur) sem umlykur endaþarminn og vex að lokum inn í aðliggjandi líffæri. Nákvæm stigun á staðbundinni útbreiðslu sjúkdómsins er mikilvægur hluti af ákvörðun meðferðar.

Ómskoðun gegnum endaþarm (EUS) er gagnleg til stigunar á æxlum sem bundin eru við þarmavegginn en aðferðin er ónákvæm ef æxlið er vaxið dýpra. Ómskoðun er auk þess gerandaháð og gagnslítil nema rannsóknin sé gerð af vönum aðila.
SÓ á æxlum í endaþarmi er framkvæmd með phased array spólum og háupplausnartækni. Nýlegar rannsóknir sýna 90 til 100% samsvörun milli SÓ og vefjaskoðunar (PAD) þegar slíkri tækni er beitt.
SÓ með spólu í endaþarmi (endorectal coil) þótti á tímabili lofandi aðferð en ég held að óhætt sé að fullyrða að sú aðferð hafi ekki slegið í gegn. Aðferðin hefur ýmsar takmarkanir og hefur ekki reynst vera nákvæmari greiningaraðferð en SÓ með utanáliggjandi spólum.

Rannsóknaraðferðin er einföld og engin þörf er á undirbúningi og ekkert skuggaefni er gefið í rannsókninni.
R.G.H. Beets-Tan frá Maastricht í Hollandi mælir með 3 myndaröðum í venjubundinni rannsókn:
Sagittal T2W FSE
Axial T2W FSE hornrétt á lengdarás æxlis
Coronal T2W FSE samsíða við hringvöðvann (anal sphinter)

Sagittal myndaröðin staðsetur æxlið og lengd æxlis er mæld. Mikilvægt er að leggja axial sneiðarnar hornrétt á lengdarás æxlis enda eru axial sneiðarnar afgerandi til að meta dýpt æxlisvaxtarins. Í vafatilfellum getur verið hjálplegt að leggja ennþá þynnri axial T2 sneiðar til að meta afmörkuð svæði. Coronal myndaröðina á að leggja samsíða hringvöðvanum. Fjarlægð æxlis frá ano-rectal mótum er mæld og gefin upp og jafnframt metið hvort innvöxtur er í hringvöðvann.

Við úrlestur rannsóknar er lykilatriði að meta dýpt á æxlisvexti út fyrir þarmavegginn. Vöxtur út í meso-rectal fituna gefur til kynna æxli á stigi T3. SÓ er ekki í öllum tilfellum áreiðanleg til að meta innvöxt í fituna þar sem fibrosa aðlægt æxli getur gefið tauma út í fituna.
SÓ er ónákvæm til greiningar á meinvörpum í meso-rectal eitla. Meinvörp geta verið í eitlum sem eru minni en 5 mm að stærð. Notkun járnoxíðs sem skuggaefni til að greina eitlameinvörp er á rannsóknarstigi.
Innvöxtur í meso-rectal fasciu eða innvöxtur í aðliggjandi líffæri gefur til kynna T4 sjúkdóm. Í T4 sjúkdómi eru verulega auknar líkur á staðbundinni endurkomu æxlis og þá venjulega beitt langri geislameðferð fyrir skurðaðgerð.

Heimildir:
Paul A. Hulse og Bernadette M. Carrington (2004). MRI manual of pelvic cancer. London: Martin Dunitz

R.G.H. Beets-Tan (2006). MR imaging of anorectal disease. Fyrirlestur á Advanced MR imaging of the abdomen. Geneva, CH

15.10.06
Halldór Benediktsson
Röntgenlæknir
Myndgreiningarþjónustu LSH   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *