Stafræn tækni verður sífellt stærri þáttur í læknisfræðilegri myndgerð. Það er því mikilvægt fyrir myndgreiningarfólk að endurnýja og bæta við þekkingu sína á þessu sviði. Góð námskeið eru nauðsynleg og eitt slíkt var haldið hjá Endurmenntun HÍ 20. mars 2004.
#img 1 #Umsjónarmenn námskeiðsins voru þeir Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri myndgreiningarþjónustu LSH, Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri Rafarnarins ehf. og Guðlaugur Einarsson hjá Geislavörnum ríkisins. Erna Agnarsdóttir, geislafræðingur og námsstjóri Endurmenntunar, sá einnig um námskeiðið og lagði sérstaka áherslu á hversu gott henni þætti að geta á þennan hátt stutt sitt fag þó hún starfi ekki í myndgreiningargeiranum eins og er.
#img 2 #
Fyrirlestrar birtir hér á vefsetrinu
Stefnt er að því að birta á www.raforninn.is sem flesta fyrirlestra sem haldnir voru á námskeiðinu. Þá er að finna í flokknum „Fyrirlestrar“ á forsíðunni:
Staða DR tækni – Smári Kristinsson
PACS kerfi dagsins í dag – Þorsteinn Ragnar Jóhannesson
Gæðatrygging – Nýjar aðferðir fyrir nýja tækni – Smári Kristinsson
Geislavarnir og stafræn röntgenmyndgerð – Guðlaugur Einarsson
Árif DR á verkferla í Domus – Birna Jónsdóttir
Stafræn tækni – Áhrif á þjónustu myndgr. deilda – Pétur H. Hannesson
Áhrif stafrænnar tækni á vinnu röntgenlækna – Kolbrún Benediktsdóttir
Þróun stafrænnar myndgerðar – Gísli Georgsson
Áhrif tækninnar á vinnu geislafræðinga – Soffía Þorsteinsdóttir
Samband hefur verið haft við aðra fyrirlesara og þeim boðið að birta sitt efni.
Fjölbreytt efni
Alls stigu ellefu fyrirlesarar á stokk og farið var skipulega yfir flest það sem að stafrænu tækninni snýr: Sögu hennar og þróun, stöðuna í dag, gæðatryggingu og geislavarnir, ásamt áhrifum tækninnar á vinnu myndgreiningarfólks og þjónustu myndgreiningareininga. Þarna töluðu tæknimenn, röntgenlæknar, heimilislæknir og geislafræðingar og því má vera ljóst að fjölmargt athyglisvert kom fram og horft var á umfjöllunarefnið frá ýmsum sjónarhornum. Þó mátti greina nokkur atriði sem gengu eins og rauður þráður í gegnum alla fyrirlestrana og má þar í fyrsta lagi nefna að, eins og Birna Jónsdóttir, röntgenlæknir, orðaði það: Filman er dauð. Stafræn tækni við alla myndgerð er ekki tækni morgundagsins heldur dagsins í dag. Enda mátti glöggt heyra á þátttakendum, ekki síður en fyrirlesurum, að myndgreiningarfólk er tilbúið að taka stökkið yfir í alstafrænt umhverfi, filmulaust og helst pappírslaust líka.
Starfsfólk og stjórnun skiptir mestu máli
#img 3 #Ég er þeirrar skoðunar að þar sem stafræn tækni er ekki orðin allsráðandi þurfi stjórnendur að grípa tækifærið og stíga skrefið til fulls sem allra fyrst til að nýta áhuga og drifkraft síns fólks. Þar kemur röðin að einu þeirra atriða sem skein í gegnum alla fyrirlestra: Jákvætt viðhorf starfsmanna til breytinganna skiptir höfuðmáli. Misvel hefur gengið að koma stafrænni tækni í gagnið við almennar röntgenrannsóknir og t.d. var myndgreiningarfólk frá LSH ekki fyllilega ánægt með stöðu mála þar í augnablikinu EN setningin: “Það eru bara allir svo jákvæðir að þetta hefur gengið ótrúlega vel”, kom aftur og aftur fyrir í máli þeirra. Svipað mátti heyra hjá Domusfólki þó þar hefðu hlutirnir gengið snurðulausar fyrir sig, kynning, kennsla, þjálfun og jákvætt viðhorf starfsfólksins var það sem mestu máli skipti. Í gegnum hugann flaug að sennilega mundi borga sig fyrir suma stjórnendur að fara fyrst á námskeið um mannleg samskipti, áður en peningar væru settir í framhald breytinga.
Vönduð vinnubrögð enn mikilvægari en áður
Gæðatrygging og geislavarnir hafa alltaf verið mikilvægur þáttur í starfi myndgreiningarfólks en þarf jafnvel að hafa enn ofar í huga þegar stafræn tækni er notuð. Við missum ákveðið aðhald sem filman veitti, þó notuð séu of há tökugildi verður myndin ekki “kolsvört” heldur jafnvel fallegri að sjá heldur en með tökugildum sem í raun henta best til greiningar. Margt annað þarf að hafa í huga t.d. að afblendun er enn mikilvæg, bæði frá geislavarnasjónarmiði og einnig til þess að stafrænir myndmóttakarar skili góðri mynd. Einnig koma geislafræðingar hvergi nærri “upphengingu” mynda heldur verður að raða þeim eftir fyrirfram ákveðnu kerfi á skjá og því er algerlega nauðsynlegt að nákvæmar og réttar upplýsingar fylgi myndunum inn í PACS kerfið. Stilling á vinnustöðvum og umhverfislýsing eru líka stór atriði í gæðatryggingu og eitt af því sem allir fyrirlesarara minntust á var að víða væri pottur brotinn hvað það varðar. Einnig var minnst á hávaða í tölvum og ónæði við myndskoðun, en hvoru tveggja er mikilvægt að halda í lágmarki.
Myndgreiningarfólk á að mynda
Stutt innlegg Ófeigs T. Þorgeirssonar, lyf- og heimilislæknis, varð kveikjan að stórum hluta þess sem rætt var í pallborðsumræðum við lok námskeiðsins. Hann minntist meðal annars á hversu möguleikinn á fjargreiningu röntgenmynda yrði gott hjálpartæki fyrir lækna í einmenningshéruðum. Þetta hratt af stað umræðu varðandi það þegar fólk sem ekki er sérmenntað í meðferð jónandi geislunar gerir rannsóknir þar sem henni er beitt. Bæði læknar “í héraði”, oft með mislélegan búnað í höndunum, og einnig sérfræðingar í öðrum greinum, t.d. hjartalæknar, oft við rannsóknir og inngripsaðgerðir þar sem auðvelt er að geisla sjúklinginn mjög mikið. Þarna voru bæði fyrirlesarar og þátttakendur sammála um að sérmenntun í meðferð jónandi geislunar þyrfti til að geta framkvæmt þessar rannsóknir. Guðlaugur Einarsson sagði frá því að innan tíðar yrði þess krafist að læknar tækju ekki ábyrgð á röntgentækjum án þess að hafa sótt námskeið í meðferð jónandi geislunar, hjá viðurkenndri menntastofnun.
Viðstaddir virtust þeirrar skoðunar að myndgerð og –greining ætti í sem allra flestum tilvikum að vera á hendi myndgreiningarfólks og það beinir huganum aftur að vönduðum vinnubrögðum. Við verðum að gera kröfur til okkar sjálfra og gæta þess að nýta þá menntun sem við höfum, sjúklingunum til hagsbóta.
Samvinna
#img 4 #
Námskeiðið var að mínu mati vel skipulagt og sérlega lærdómsríkt. Þar að auki var þátttakan skrautfjöður í hatt myndgreiningarinnar, um sextíu manns tóku þátt, að fyrirlesurum meðtöldum, og er augljóst að myndgreiningarfólk lætur sér annt um menntun sína. Það er líka alltaf gaman að hitta fólkið í faginu og eitt af því ánægjulegasta við námskeiðið var að sjá og heyra allt þetta fólk úr mismunandi fagstéttum, frá ýmsum vinnustöðum, ríkisstofnunum og einkafyrirtækjum, tala saman á jafnréttisgrundvelli um mál sem snerta allt myndgreiningarfólk. Samkeppni er ágæt út af fyrir sig en við getum samt unnið saman að því sem við eigum sameiginlegt, það sannaðist glæsilega þennan námskeiðsdag.
Takk fyrir samveruna.
Edda Aradóttir, 22.03.04.
Uppfært 27.03.04 EGA